2015-10-08 11:39:10 CEST

2015-10-08 11:40:11 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Umframeftirspurn í útboði Arion banka á hlutum í Símanum


Bankinn selur 21% í Símanum á meðalgenginu 3,33 kr./hlut

  -- Söluandvirði nemur 6,7 milljörðum króna.
  -- Tæplega 5.000 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í Símanum.
  -- Heildareftirspurn var um 33 milljarðar.
  -- Markaðsvirði hlutafjár Símans er um 32 milljarðar króna.

Vel heppnuðu almennu útboði á 18-21% eignarhlut Arion banka í Símanum hf. lauk
í gær, miðvikudaginn 7. október klukkan 16.00. Tæplega 5.000 fjárfestar óskuðu
eftir kaupum á hlutabréfum í Símanum fyrir samtals um 33 milljarða króna og er
niðurstaða bankans að selja um 4.600 þeirra samtals 21% hlut fyrir um 6,7
milljarða króna. Vegið meðalgengi í þeim viðskiptum er 3,33 krónur á hlut og er
markaðsvirði alls hlutafjár í Símanum um 32 milljarðar króna miðað við þá
niðurstöðu útboðsins. 

Í ljósi mikillar eftirspurnar hefur Arion banki ákveðið að fullnýta heimild
sína til að stækka útboðið og selja 2.026,5 milljónir hluta sem eru 21%
hlutafjár í félaginu. Nú liggur fyrir að 5% hlutafjár verða seld á genginu 3,1
krónur á hlut í tilboðsbók A (þar sem mögulegt verðbil var 2,7-3,1) og 16% seld
á genginu 3,4 krónur á hlut í tilboðsbók B (þar sem lágmarksgengi var 2,7).
Fjárfestar í tilboðsbók A fá úthlutað að hámarki um 340 þúsund krónum að
kaupverði og verða lægri áskriftir ekki skertar. Áskriftir sem bárust á verði
yfir genginu 3,4 krónur á hlut í tilboðsbók B verða óskertar en áskriftir sem
bárust á því gengi verða skornar niður hlutfallslega og nemur heildarskerðing
þeirra um 300 milljónum króna. 

Fjárfestum verða sendar upplýsingar um úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir
að Nasdaq Iceland hefur staðfest að hlutir í Símanum hf. verði teknir til
viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir að eindagi
greiðsluseðla vegna útboðsins verði 13. október næstkomandi. Fyrirtækjaráðgjöf
fjárfestingabankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og hefur einnig,
ásamt fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance, umsjón með fyrirhugaðri skráningu
félagsins í Kauphöllina. Áætlað er að fimmtudaginn 15. október næstkomandi geti
viðskipti hafist með hluti í Símanum á Aðalmarkaði. 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Það er ánægjulegt fyrir Arion banka að sjá þessa góðu niðurstöðu í útboðinu.
Mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í félaginu og fjöldi fjárfesta sem tók þátt
í útboðinu ber vott um traust og væntingar til félagsins. Við deilum því
trausti með nýjum hluthöfum í Símanum en Arion banki á nú tæplega 7% hlut í
félaginu eftir að hafa selt 21% í útboðinu. Skráning Símans á markað er sú
þriðja á árinu sem Arion banki hefur umsjón með og við lítum á skráningu Símans
á markað sem enn eitt mikilvæga skrefið í upp­byggingu hlutabréfamarkaðar hér á
landi.“ 

Orri Hauksson, forstjóri Símans:

„Síminn hefur fylgt landsmönnum í rúma öld. Það er því afar ánægjulegt að sjá
hversu margir vilja fylgja honum fram veginn sem hluthafar. Skráning Símans á
Aðalmarkað Kauphallarinnar er mikilvægt skref fyrir félagið, starfsfólk og
hluthafa, en ekki síður viðskiptavini sem eiga sinn þátt í því hvernig
fyrirtækið þróast á hörðum samkeppnismarkaði. Við hjá Símanum hlökkum til að
takast á við framtíðina í skráðu félagi og bjóðum nýja hluthafa hjartanlega
velkomna í hópinn.“ 

Nánari upplýsingar veita:

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka - sími 444
7108 - haraldur.eidsson@arionbanki.is 

Orri Hauksson, forstjóri Símans - sími 550-6003 - orri@siminn.is