2013-02-28 20:07:37 CET

2013-02-28 20:08:40 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á árinu 2012


Hagnaður Arion banka á árinu 2012 nam 17,1 milljarði króna eftir skatta
samanborið við 11,1 milljarð króna á árinu 2011. Arðsemi eigin fjár var 13,8%
samanborið við 10,5% árið 2011. Arðsemi af reglulegri starfsemi var 10,6% en
var 11,2% árið 2011. Heildareignir námu 900,7 milljörðum króna samanborið við
892,1 milljarð króna í árslok 2011. Ársreikningur samstæðu Arion banka er
endurskoðaður af endurskoðendum bankans, Ernst & Young ehf. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 24,3% en í lok árs 2011 var það
21,2%. 


Helstu atriði ársreikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 17,1 ma.kr. samanborið við 11,1 ma.kr. árið 2011.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 13,1 ma.kr. samanborið við 12,9 ma.kr.
     á árinu 2011.
  -- Rekstrartekjur ársins námu alls 44,8 mö.kr. samanborið við 33,3 ma.kr. á
     árinu 2011. Aukninguna má rekja til nokkurra liða og eru þar stærstir;
     hreinar vaxtatekjur sem hækka, virðisrýrnun útlána er minni og tekjur af
     hlutdeildarfélögum aukast sem og aðrar tekjur.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 27,1 ma.kr. samanborið við 23,4 ma.kr. á árinu
     2011, en aukningin er einkum tilkomin vegna stærra lánasafns eftir kaup
     bankans á íbúðalánasafni frá Kaupþingi.
  -- Niðurfærsla vegna gengislána í kjölfar dóma Hæstaréttar nam 5,7 mö.kr. á
     árinu 2012 samanborið við 13,8 ma.kr. á árinu 2011.
  -- Arðsemi eigin fjár var 13,8% en var 10,5% á árinu 2011. Arðsemi af
     reglulegri starfsemi var 10,6% samanborið við 11,2% árið 2011.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,4% á árinu sem er sami
     vaxtamunur og var árið 2011.
  -- Kostnaðarhlutfall ársins var 48,9% en var 52,5% árið 2011.
     Kostnaðarhlutfall af reglulegri starfsemi 2012 nam 53,6% samanborið við
     53,9% á árinu 2011.
  -- Launakostnaður hækkar um 11% milli ára og vegur þar þungt nýr skattur á
     laun starfsmanna fjármálafyrirtækja, sem nemur 5,45%.
  -- Reiknaður tekjuskattur nam 3,6 mö.kr. samanborið við 1,9 ma.kr. á árinu
     2011.
  -- Eiginfjárhlutfall var 24,3% samanborið við 21,2% í árslok 2011.
  -- Lausafjárhlutfall bankans var 33% sem er vel yfir 20% lögbundnu lágmarki.
  -- Reiðufjárhlutfall bankans var 31%, en lögbundið lágmark er 5%.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 566,6 mö.kr. og eru nánast
     óbreytt frá fyrra ári.
  -- Heildareignir námu 900,7 mö.kr., samanborið við 892,1 ma.kr. í árslok 2011.
  -- Eigið fé bankans í lok árs 2012 var 130,9 ma.kr. en nam 114,6 mö.kr. í lok
     árs 2011.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Þetta er vel viðunandi ársuppgjör. Afkoma af grunnstarfsemi bankans er ágæt og
í takt við okkar væntingar. Áframhaldandi stöðugleiki einkennir reksturinn sem
er mikilvægt því stöðugleika fylgir fyrirsjáanleiki sem skiptir miklu í okkar
starfsemi. Við verðum enda vör við aukna tiltrú utanaðkomandi aðila á bankanum.
Þannig sjáum við að vinna undanfarinna þriggja ára við uppbyggingu bankans er
að skila sér. Skuldabréfaútgáfa okkar hér á landi á árinu 2012 og ekki síður
nýleg útgáfa erlendis eru skýr dæmi um það. Með skuldabréfaútgáfu okkar í
Noregi var tekið mikilvægt skref í þá átt að opna aðgang íslensks atvinnulífs
að erlendum mörkuðum. Því er um að ræða áfanga í að skapa hér á landi aðstæður
sem gera okkur kleift að afnema gjaldeyrishöft og koma aukinni hreyfingu á
hagkerfið. 

Á árinu 2012 lögðum við ríka áherslu á að bæta okkur á ýmsum mikilvægum sviðum.
Við hófum árið á að þakka viðskiptavinum okkar þolinmæði og samstarf
undanfarinna ára með endurgreiðslu hluta vaxtagreiðslna ársins á undan. Þar
nutu um 33 þúsund viðskiptavinir okkar góðs af. Við þéttum vöru- og
þjónustuframboð okkar, m.a. með fjölbreyttara úrvali óverðtryggðra og
verðtryggðra íbúðalána, nýrri bílafjármögnun, nýjum sparnaðarleiðum og
metnaðarfullri fjármálaráðgjöf. Með fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboði
mætum við betur óskum viðskiptavina okkar og þannig gerum við mest gagn. Okkar
markmið er að bæta okkur stöðugt og þá þjónustu sem við veitum viðskiptavinum
okkar og innan bankans eru í gangi umfangsmikil verkefni sem miða að þessu.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.