2007-11-28 11:06:34 CET

2007-11-28 11:06:34 CET


SÄÄNNELTY TIETO

Islanti Englanti
Hf. Eimskipafélag Íslands - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Breytingar á yfirstjórn Eimskips í Ameríku


Samhæfingarferli Versacold, Atlas og Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada er nú
lokið. Brent Sugden, forstjóri yfir kæli- og frystigeymslusviði Eimskips í
Ameríku mun stýra allri starfsemi Eimskips, Atlas og Versacold í Bandaríkjunum
og Kanada. Reynir Gíslason, sem verið hefur forstjóri yfir annarri starfsemi
Eimskips í Ameríku en þeirri sem snýr að kæli- og frystigeymslum, hefur látið
af störfum hjá félaginu frá og með deginum í dag. 

Gylfi Sigfússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri og mun stýra þeim
rekstri sem snýr að flutningum félagsins milli Bandaríkjanna, Kanada og Íslands
ásamt öðrum flutningum þeim tengdum. Gylfi, sem verður undir stjórn Brents,
tilheyrir nú stjórnendateymi Eimskips í Ameríku sem ber ábyrgð á rekstri
Versacold, Atlas og Eimskips í Norður Ameríku. 

Brent Sugden hefur undanfarin sex ár verið forstjóri Versacold og hefur
áralanga reynslu af rekstri kæli- og frystigeymslna. Brendt hefur náð miklum
árangri í Versacold og hefur verið farsæll stjórnandi í ört vaxandi fyrirtæki í
hörðu samkeppnisumhverfi. 

Eimskip í Ameríku rekur um 120 kæli- og frystigeymslur, þar starfa um 8.500
manns á vegum félagins og veltan nemur um 1.200 milljónum bandaríkjadala eða um
75 milljörðum króna. Að auki starfrækir Eimskip áætlunarsiglingar á
austurströnd Bandaríkjanna og stefnir félagið að auka þjónustuframboð sitt til
muna á þessu markaðssvæði. 

Eimskip þakkar Reyni farsælt starf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar
á nýjum vettvangi. 

Nánari upplýsingar: Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, sími: 525 7202

Um Eimskip
Eimskip býður viðskiptavinum heildarlausnir í flutningum, þ.m.t.
skipaflutninga, flugflutninga og landflutninga, með sérstakri áherslu á
hitastýrða flutninga og geymslu, Eimskip rekur um 280 starfsstöðvar í um 30
löndum. Fyrirtækið er með 50 skip í rekstri, 2.000 flutningabíla og tengivagna
og um 180 frystigeymslur. Starfsmenn eru um 14.000.