2007-12-14 10:33:06 CET

2007-12-14 10:33:06 CET


SÄÄNNELTY TIETO

Islanti Englanti
Icelandair Group hf. - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Björgólfur Jóhannsson ráðinn forstjóri Icelandair Group


Stjórn Icelandair Group hefur ráðið Björgólf Jóhannsson sem forstjóra félagsins 
frá og með 15. janúar 2008. Jafnframt hefur félagið og Jón Karl Ólafsson komist 
að samkomulagi um að Jón Karl láti af störfum sem forstjóri þess frá sama tíma. 

Gunnlaugur M. Sigmundsson, formaður stjórnar Icelandair Group:                  
"Eins og fram hefur komið var ákveðið í haust að gera skipulagsbreytingu á      
Icelandair Group og skipta því starfi sem forstjóri félagsins hefur haft með    
höndum í tvö störf, annarsvegar að stýra móðurfélaginu og hinsvegar að stýra    
stærsta dótturfélaginu, Icelandair. Nú hefur verið ákveðið að fá til félagsins  
nýjan forstjóra fyrir Icelandair Group, Björgólf Jóhannsson. Björgólfur hefur   
mikla alþjóðlega stjórnunar- og rekstrarreynslu og við hlökkum til samstarfsins 
við hann.                                                                       

Jón Karl hefur stýrt Icelandair Group og Icelandair í gegnum miklar umbreytingar
á liðnum árum, frá því félagið var hluti af FL Group og þar til nú að það er nú 
öflugt sjálfstætt fyrirtæki á hlutabréfamarkaði. Með nýjum eigendum að félaginu 
og nýrri stjórn hafa áherslur breyst og því hefur orðið að samkomulagi að leiðir
skilji á þessum tímapunkti. Jóni Karli þökkum við góð störf fyrir fyrirtækið á  
undanförnum árum".                                                              

Björgólfur Jóhannsson verðandi forstjóri Icelandair Group:                      
"Icelandair Group er spennandi fyrirtæki í áhugarverðri og vaxandi atvinnugrein.
Það starfar á mörgum sviðum alþjóðaflugs, flutninga og ferðaþjónustu. Fyrirtækið
er sterkt fjárhagslega og býr yfir frábæru starfsfólki sem verður gaman að      
kynnast og vinna með að áframhaldandi uppbyggingu.                              

Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair Group:                       
"Ég hef starfað 25 ár að krefjandi og skemmtilegum verkefnum fyrir Icelandair   
Group og áður Flugleiðir. Félagið hefur gengið í gegnum miklar breytingar og    
vaxið hratt undir minni stjórn á síðustu tveimur árum. Nú eru nýir aðilar komnir
að félaginu með breyttar áherslur og þetta er því góður tími til að kveðja. Ég  
hef átt því láni að fagna að eignast marga góða vini meðal starfsmanna          
Icelandair Group og þakka þeim sérstaklega fyrir samstarfið."                   


Björgólfur Jóhannsson hefur starfað sem forstjóri Icelandic Group frá mars 2006.
Fram að því eða frá árinu 1999 starfaði hann sem framkvæmdastjóri               
Síldarvinnslunnar, en áður hafði hann gegnt starfi framkvæmdastjóra nýsköpunar- 
og þróunarsviðs Samherja frá 1996. Björgólfur var fjármálastjóri Útgerðarfélags 
Akureyringa frá 1992-1996 en þá hafði hann unnið frá 1980 við endurskoðun á     
Endurskoðunarskrifstofu Sig. Stefánssonar og Endurskoðun Akureyri hf.
Björgólfur hefur verið formaður L.Í.Ú. frá árinu 2003. Hann útskrifaðist sem
viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1983. 

Frekari upplýsingar veitir:

Guðjón Arngrímsson Upplýsingastjóri
Sími: 864 5849
Netfang: gudjon@icelandairgroup.is
www.icelandairgroup.is