2009-01-22 22:51:39 CET

2009-01-22 22:52:40 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
FL GROUP hf. - Fyrirtækjafréttir

Greiðslustöðvun Stoða framlengd


Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag beiðni stjórnar Stoða um framlengingu
heimildar til greiðslustöðvunar til 6. apríl 2009. Stærstu lánardrottnar
félagsins höfðu áður lýst yfir stuðningi við framlengingu
greiðslustöðvunarinnar. 

Stjórnendur Stoða og aðstoðarmaður félagsins á greiðslustöðvunartíma héldu
kynningarfund fyrir lánardrottna félagsins þann 16. janúar sl. Á fundinum var
kynnt bráðabirgðamat á fjárhagsstöðu Stoða og gerð var grein fyrir framvindu
mála sl. 3 mánuði. Verkefni stjórnenda og stjórnar Stoða síðustu mánuði hafa
alfarið snúist um að verja hagsmuni lánardrottna eftir fremsta megni. Unnið
hefur verið að sölu ákveðinna óskráðra eigna á viðunandi verði en án árangurs.
Í öðrum tilfellum hefur verið komið í veg fyrir sölu skráðra eigna á
brunaútsölu. Mikil vinna hefur farið í aðstoð við félög sem eru að stórum hluta
í eigu Stoða og hafa lent í rekstrarvanda vegna slæmrar stöðu Stoða og íslensks
efnahagslífs. Stjórnendur Stoða hafa átt fjölda funda með lánardrottnum en það
hefur torveldað framgang að margir lánardrottnanna eru sjálfir í
greiðslustöðvun eða gjaldþrotameðferð. Á undanförnum mánuðum hefur starfssemi
Stoða verið takmörkuð, skrifstofu í London lokað og öllu starfsfólki sagt upp
störfum. Síðustu vikur hafa 8 starfsmenn á uppsagnarfresti verið að störfum
fyrir félagið. 

Eignasafn Stoða hefur orðið fyrir miklum áföllum síðustu mánuðina. Áður fékk
félagið mikið högg þegar félagið missti stærstu eign sína í Glitni í haust og
hluthafar þar með allt sitt hlutafé. Eignir félagins hafa nú lækkað um u.þ.b.
200 milljarða síðastliðið hálft ár. Miðað við bráðabirgðamat á verðmæti eigna
félagsins um sl. áramót er eigið fé Stoða neikvætt um 111 milljarða króna og
því ljóst að gjaldþrot blasir við félaginu ef ekkert er aðhafst. 

Á fundinum með lánardrottnum þann 16. janúar sl. lýstu stjórnendur Stoða þeirri
skoðun sinni að gjaldþrot þjónaði ekki hagsmunum lánardrottna. Við gjaldþrot
Stoða myndi rekstur félaga í eigu Stoða komast í uppnám og lægra verð myndi
fást fyrir eignir félagsins. Stjórnendur Stoða hafa kynnt lánardrottnum drög að
áætlun um endurskipulagningu fjárhags og reksturs Stoða. Áætlunin miðast við að
hlutafé núverandi hluthafa verði afskrifað að öllu leyti og lánardrottnar
breyti hluta skulda í hlutafé. Framlenging greiðslustöðvunarinnar gefur
stjórnendum Stoða svigrúm til að vinna frekar að endurskipulagningu félagsins í
nánu samstarfi við lánardrottna. 


Frekari upplýsingar veitir:

Júlíus Þorfinnsson
Forstöðumaður samskiptasviðs
Sími 591 4400
Netfang: julius@stodir.is

Nánari upplýsingar um Stoðir má finna á vef félagsins, www.stodir.is