2016-11-08 11:51:18 CET

2016-11-08 11:51:18 CET


REGLERAD INFORMATION

Isländska
HB Grandi hf. - Fyrirtækjafréttir

Eldsvoði í fiskvinnslu hlutdeildarfélags HB Granda í Síle


Aðfararnótt þriðjudagsins 8. nóvember 2016 kom upp eldur í fiskvinnslu
hlutdeildarfélags HB Granda í Puerto Chacabuco í Síle. Bolfiskvinnsla félagsins
eyðilagðist að mestu og aðstaða til vinnslu á eldislaxi gereyðilagðist í
eldsvoðanum en engin slys urðu á fólki. Tryggingaverðmæti eignanna er 12
milljónir USD. Eldsupptök eru ókunn. 

Leitað verður til fyrirtækisins Marine Harvest um að taka að sér vinnslu á laxi
fyrst um sinn en Marine Harvest rekur slíka vinnslu á svæðinu. Pesquera Friosur
lokaði bolfiskvinnslu sem félagið rak í Conception í lok síðasta árs en mun nú
setja starfsemi hennar í gang aftur í stað vinnslunnar sem brann í Chacabuco. 

Félagið Deris SA sem HB Grandi á 20% hlut í rekur útgerðar- og
fiskvinnslufélagið Pesquera Friosur, útgerðarfélagið Pesca Chile og
laxeldisfélagið Salmones Friosur. 

Pesquera Friosur gerir út tvo ísfisktogara og rekur fiskvinnsluna sem brann í
Chacabuco auk fiskvinnslunnar í Conception sem mun a.m.k. tímabundið taka við.
Pesca Chile sem er í Punta Arenas rekur 4 frystiskip, tvö línuveiðiskip og tvo
togara. Salmones Friosur stundar fiskeldi og hefur slátrað og unnið úr um
15-20.000 tonnum af laxi á ári. 

Rekstur útgerðar og fiskvinnslu Pesquera Friosur og Pesca Chile hefur gengið
þokkalega undanfarin misseri. Rekstur Salmones Friosur hefur verið brokkgengur
en gengið vel undanfarna mánuði. 

Hlutur HB Granda í Deris SA er metinn á um 18 milljónir EUR í bókum félagsins
30.6.2016 (um 2,5 milljarðar ÍKR). 

Nánari upplýsingar veitir: Jónas Guðbjörnsson fjármálastjóri, s. 858 1031.