2017-02-17 18:23:31 CET

2017-02-17 18:23:31 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reitir fasteignafélag hf. - Ársreikningur

Rekstrarhagnaður Reita 6.925 millj. kr. árið 2016


Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Reita fasteignafélags hf. ársreikning
samstæðunnar fyrir árið 2016. Helstu lykiltölur reikningsins eru: 

  -- Leigutekjur námu 10.035 millj. kr. (2015: 8.927 millj. kr.) og jukust um
     12,4% frá fyrra ári
  -- Rekstrarhagnaður (NOI) ársins var 6.925 millj. kr. (2015: 6.352 millj. kr.)
  -- Matshækkun fjárfestingareigna nam 347 millj. kr. (2015: 6.548 millj. kr.)
  -- Hagnaður ársins var 2.417 millj. kr. (2015: 7.397 millj. kr.)
  -- Hagnaður á hlut var 3,3 krónur (2015: 9,8 krónur)
  -- Virði fjárfestingareigna var 125.719 millj. kr. þann 31.12.2016 samanborið
     við 110.947 millj. kr. í lok árs 2015
  -- Eigið fé í lok ársins var 46.156 millj. kr. (2015: 46.736 millj. kr.)
  -- Eiginfjárhlutfall var 34,4%. (2015: 41,4%) 
  -- Vaxtaberandi skuldir í lok ársins námu 76.223 millj. kr. (2015: 57.158
     millj. kr.)
  -- Stjórnendur vænta þess að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði 7.350 til
     7.450 millj. kr.
m.v. núverandi eignasafn

Guðjón Auðunsson, forstjóri:

„Afkoma ársins 2016 ber merki þess að eignasafn Reita hefur tekið breytingum á
árinu. Með kaupum og sölu fasteigna á árinu telur eignasafnið nú um 440 þúsund
fermetra í um 140 fasteignum samanborið við um 410 þúsund fermetra í lok árs
2015. Nýju eignirnar falla vel að eignasafni Reita eins og rekstrarniðurstaða
ársins ber með sér. 

Á fyrri hluta árs munum við breyta uppbyggingu samstæðunnar í samræmi við nýtt
skipulag sem kynnt er samhliða birtingu ársuppgjörsins. Með því er verið að
breyta óhentugu skipulagi dóttur­félaga sem rekja má til þess hvernig félagið
byggðist upp frá því um aldamót. 

Leigutekjur af óbreyttu eignasafni héldu áfram að vaxa umfram verðlag og nýting
eignasafnsins jókst nokkuð og er nú 96,9%. Breytingar á fasteignagjöldum skýra
að mestu leyti hækkun rekstrar­kostnaðar fasteigna. Rekstrar­niðurstaða ársins
2016 er í takti við áætlanir og endurspeglar eins og áður þann stöðugleika sem
félagið býr við. Arðsemi tekjuberandi eigna á árinu var um 6% og arðsemi
eiginfjár rúm 5%. 

Við hjá Reitum erum bjartsýn á rekstrarhorfur ársins 2017. Við gerum ráð fyrir
áframhaldandi vexti eignasafnsins á árinu, bæði með kaupum á fasteignum og
fasteignaþróun, til dæmis á Laugavegi 176 og á Kringlureit.“ 

Rekstrarafkoma ársins

Leigutekjur ársins 2016 námu 10.035 millj. kr. samanborið við 8.927 millj. kr.
á árinu áður. Vöxtur tekna er því 12,4% milli ára en stærstan hluta hans, eða
9,6 prósentustig, má rekja til breytinga á eignasafninu. Tekjur af óbreyttu
eignasafni jukust um rúmt prósent umfram verðlag. Nýtingar­hlutfall eigna
félagsins hefur batnað og var 96,9% á árinu 2016 samanborið við 95,7% á árinu
2015. 

Rekstarkostnaður fjárfestingareigna nam 2.565 millj. kr. á árinu samanborið við
2.120 millj. kr. á árinu 2015 og vex um 21% milli ára. Rúmlega helmingur
hækkunar er vegna hærri fasteignagjalda en fasteignamat hefur hækkað mikið á
undanförnum árum. Aukning í viðhaldi og endurbótum skýrir stærstan hluta þess
sem eftir stendur. 

Stjórnunarkostnaður félagsins, án kostnaðar vegna skráningar, jókst milli ára
og nam 545 millj. kr. á árinu samanborið við 455 millj. kr. á árinu 2015.
Aukinn launakostnaður, bæði vegna fjölgunar starfsfólks og hækkunar launa,
skýrir breytingu milli ára að mestu leyti. 

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, fjármagnsliði og kostnað við skráningu
nam þannig 6.925 millj. kr. á árinu samanborið við 6.352 millj. kr. árið áður
og vex um 9,0% milli ára. 

Fjárfestingareignir og fjármögnun

Virði fjárfestingareigna jókst um 14.772 millj. kr. á árinu en kaup á
fasteignafélögum í rekstri Stefnis hafa þar mest vægi. Matsbreyting ársins var
óveruleg og nam 347 millj. kr. Skýringu á lítilli mats­breytingu á árinu má að
stórum hluta finna í IFRS meðhöndlun á keyptum eignum og hækkun á
fasteignagjöldum. Metin markaðsverð hækka umfram verðlag milli ára og metin
ávöxtunarkrafa lækkar lítillega. Nokkur matshækkun er á þróunareignum yfir
árið. 

Fjármagnsgjöld ársins námu 4.355 millj. kr. samanborið við 3.529 millj. kr.
árið áður. Aukning vaxta­berandi skulda vegna stækkunar á eignasafninu vegur
þyngst í þessari breytingu. Þróun verðlags var með svipuðum hætti og á fyrra
ári og meðalkjör lækkuðu um 5 punkta á árinu. Meðalkjör verð­tryggðra skulda í
árslok voru 3,88%. 

Endurskipulagning eignasafns

Á stjórnarfundi í dag samþykkti stjórn félagsins ramma að nýju skipulagi
félagsins sem ráðgert er að taki gildi að fullu á fyrri hluta árs. Hið nýja
skipulag tekur mið af mismunandi tegundum atvinnu­húsnæðis sem félagið hefur í
safni sínu: Verslunum, skrifstofum, hótelum, iðnaði og annars konar eignum auk
þróunareigna. Framkvæmd endurskipulagningarinnar mun fara fram með breytingu á
samsetningu dótturfélaga auk þess sem félagið mun taka upp
starfsþátta­greiningu á afkomu frá 1. janúar 2017. 

Horfur fyrir árið 2017

Áætlað er að tekjur ársins 2017 verði á bilinu 10.650 - 10.750 millj. kr. og að
rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 7.350 - 7.450 millj. kr.
Horfur ársins taka mið af af eignasafni félagsins eins og það stendur í dag.
Væntingar stjórnenda standa til þess að viðbætur í eignasafnið á árinu nemi
8-10 milljörðum kr. en af því hefur félagið þegar fjárfest fyrir tæpa 3
milljarða króna. 

Ráðstöfun verðmæta til hluthafa

Stjórn félagsins hefur lagt fram tillögu til aðalfundar 14. mars nk. um
arðgreiðslu til hluthafa vegna rekstrarársins 2016 að fjárhæð 1,45 kr. á hlut.
eða 1.046 millj. kr. Tillagan kveður á um að arðleysis­dagur verði 16. mars
2017, arðsréttindadagur 17. mars 2017 og arðgreiðsludagur 31. mars 2017. 

Jafnframt hefur stjórnin lagt fram tillögu um að heimild til kaupa á eigin
bréfum verði endurnýjun en markmið stjórnarinnar eru að ráðast í endurkaup
hlutafjár að fjárhæð 1.500 millj. kr. Á árinu 2016 keypti félagið eigin bréf að
nafnverði 23 millj. kr. fyrir 1.960 millj. kr. Hefur félagið þá keypt til baka
um 4,5% af útgefnu hlutafé á síðustu tveimur árum. Stjórn gerir að tillögu
fyrir aðalfund að eigin bréf að fjárhæð 19 millj. kr. að nafnverði verði færð
niður. 

Kynningarfundur

Reitir bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á opinn fund þar sem Guðjón Auðunsson,
forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjör ársins.
Fundurinn verður haldinn mánu­daginn 20. febrúar kl. 8:30 á skrifstofu
félagsins á þriðju hæð í Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík. Kynningar­efni
fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita, www.reitir.is/fjarfestar. 

Aðalfundur

Aðalfundur Reita fasteignafélags hf. verður haldinn kl. 15.00, þriðjudaginn 14.
mars 2017 í Þingsal 3 á Hótel Reykjavík Natura, Nauthólsvegi 52, 101 Reykjavík. 

Frekari upplýsingar

Nánari upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660
3320 og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416. 

Um Reiti

Reitir fasteignafélag hf. er íslenskt hlutafélag. Samstæða félagsins
samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt þrettán
dótturfélögum sem öll eru 100% í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins er
eignarhald, útleiga og umsýsla atvinnuhúsnæðis sem að stærstum hluta er
verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu
félagsins eru um 140 talsins, um 440 þúsund fermetrar að stærð og er
nýtingarhlutfall þeirra um 97%. Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan
hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, Hótel Borg,
Hilton og Natura og skrifstofubyggingar í Höfðabakka 9 ásamt húsnæði
höfuðstöðva Sjóvár, Nýherja og Advania. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar,
Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög.