2014-11-05 10:15:59 CET

2014-11-05 10:16:59 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Fyrirtækjafréttir

Þrotabú Roku ehf. fellir niður dómsmál á hendur Nýherja hf.


Um miðjan janúar 2011 höfðaði þrotabú Roku ehf. mál á hendur Nýherja hf. til
riftunar á kaupsamningnum um ráðstöfun tiltekinna eigna samhliða því að Nýherji
hf. tók yfir rekstur félaganna Skyggnis ehf., TMS Origo ehf., EMR ehf., Vigor
ehf., Viðju ehf., TM Software ITP ehf. og Theriak Medication Management ehf.,
úr höndum dótturfélags síns, Roku ehf. (áður TM Software ehf.). 

Nýherji hefur frá upphafi hafnað kröfum þrotabúsins og hefur haldið uppi vörnum
gegn þeim. Nýherji hf. átti umtalsverðar kröfur á hendur Roku ehf. sem félagið
lýsti við gjaldþrotaskiptin. Jafnframt hefur félagið lagt í varasjóð til að
mæta hugsanlegu fjárhagstjóni vegna dómsmálanna. 

Á undanförnum mánuðum hafa stjórnendur Nýherja átt í viðræðum við þrotabú Roku
ehf. og kröfuhafa þess um sátt í fyrrnefndum dómsmálum. Úr varð að fyrir
skemmstu ákvað stjórn Nýherja að bjóða fram fjármögnun á nauðasamningi Roku
ehf. við kröfuhafa sína sem fæli í sér greiðslu á tæpum 37% af höfuðstól
samningskrafna. Frumvarp að nauðasamningi hefur hlotið samþykki kröfuhafa og
var staðfest af Héraðsdómi Reykjaness þann 21. október sl. Í gær, þann 4.
nóvember voru öll ofangreind riftunarmál þrotabús Roku ehf. á hendur Nýherja
hf. felld niður. 

Staðfesting nauðasamnings Roku ehf. og niðurfelling dómsmála á hendur félaginu
mun hafa óveruleg áhrif á rekstur og efnahag Nýherja hf. en eyðir þeirri
fjárhagslegri áhættu sem möguleg neikvæð útkoma dómsmálanna hefði getað haft á
félagið. 

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja hf.:

„Á undanförnum misserum höfum við unnið eftir áætlun að minnka óvissu og
lágmarka sveiflur í rekstri félagsins. Samkomulag við kröfuhafa Roku ehf. og
niðurfellingu á dómsmálum á hendur Nýherja hf.er mikilvægt skref í þeirri
vegferð. Áfram verður unnið í að bæta afkomu og styrkja eiginfjárstöðu og
horfum við þar m.a til skipulags og uppbyggingar samstæðunnar. “ 



Nánari upplýsingar:
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, í síma +354 862 0310 og
Gunnar Petersen, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs í síma +354 825 9001