2015-02-26 20:02:19 CET

2015-02-26 20:03:21 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Eimskip kynnir afkomu ársins 2014


  -- Rekstrartekjur voru 451,6 milljónir evra, jukust um 17,7 milljónir evra eða
     4,1% frá 2013
  -- EBITDA nam 38,5 milljónum evra, hækkaði um 1,5 milljónir evra eða 4,0% frá
     2013
  -- Hagnaður eftir skatta var 13,6 milljónir evra, jókst um 2,8 milljónir evra
     eða 25,8% frá 2013
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 7,9% á
     milli ára
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 11,0% á milli ára
  -- Eiginfjárhlutfall var 65,2% og nettóskuldir námu 24,9 milljónum evra í
     árslok
  -- Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður sem samsvarar 45,7% af
     hagnaði ársins
  -- Áætluð EBITDA ársins 2015 er á bilinu 39 til 44 milljónir evra

Gylfi Sigfússon forstjóri

„Fjórði ársfjórðungur var í samræmi við væntingar með 11,2% vöxt í tekjum frá
fjórða ársfjórðungi 2013 og EBITDA að fjárhæð 8,8 milljónir evra sem var 12,2%
hærra en á sama tímabili 2013. Rekstrartekjur ársins 2014 námu 451,6 milljónum
evra og jukust um 4,1% á milli ára. EBITDA ársins nam 38,5 milljónum evra og
jókst um 4,0% frá 2013. Hagnaður ársins eftir skatta nam 13,6 milljónum evra og
jókst um 25,8% á milli ára. 

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 7,9%
frá fyrra ári. Verulegur vöxtur var í flutningum til og frá Íslandi og
Færeyjum. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 11,0% frá 2013, einkum
vegna flutninga innan Asíu, nýrra vöruflokka, nýrra markaða og aukinna
flutninga þar sem Eimskip annast tollafgreiðslu og flutning vörunnar alla leið. 

Eimskip gerði breytingar á siglingakerfi sínu á fyrsta ársfjórðungi 2014 og í
febrúar 2015 með það að leiðarljósi að auka afkastagetu og áreiðanleika
kerfisins og styrkja þar með enn frekar þjónustu við viðskiptavini félagsins. Á
árinu 2014 var gráu leiðinni bætt við í siglingum á milli Færeyja og Skotlands
og breytingar voru gerðar á viðkomum rauðu leiðarinnar sem tengdi
strandsiglingar á Íslandi við Evrópu. Í febrúar 2015 voru rauða leiðin og græna
leiðin, sem siglir á milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu í Sortland í
Noregi, sameinaðar undir nafni grænu leiðarinnar með þrjú gámaskip í siglingum.
Nýja græna leiðin mun sigla óslitið á milli Evrópu og Norður-Ameríku með
viðkomur í höfnum á Íslandi til að þjóna íslenskum inn- og útflytjendum. Með
breytingunni eykst tíðni ferða á milli Evrópu og Norður-Ameríku um allt að fimm
ferðir á ári. Félagið mun í samstarfi við hafnaryfirvöld í Halifax og Halterm
gámahöfnina styrkja þjónustu sína á milli Bandaríkjanna og Kanada. 

Stjórn og stjórnendur Eimskips hafa varið töluverðum tíma í mat á mögulegum
fjárfestingartækifærum í leit félagsins að tækifærum til vaxtar og til að
styrkja stöðu félagsins á mörkuðum utan Íslands. Þetta er í samræmi við þá
stefnu félagsins að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi. 

Fyrstu tvo mánuði þessa árs hefur Eimskip farið í samstarf, stofnað og fjárfest
í ýmsum fyrirtækjum og uppbyggingarverkefnum. Flutningsmiðlunarfyrirtækið Jac.
Meisner í Rotterdam í Hollandi var keypt og nýtt félag um skiparekstur var
stofnað í Hamborg í Þýskalandi í samstarfi við König & Cie. Eimskip í Danmörku
tók yfir vöruhúsarekstur Damco í Árósum sem gerir Eimskip að stærsta
rekstraraðila í vöruhúsaþjónustu í þessari næststærstu höfn Skandinavíu.
Eimskip keypti í samstarfi við Harbour Grace Shrimp Company Ltd. rekstur
frystigeymslunnar í St. Anthony á Nýfundnalandi, en Eimskip hefur siglt til St.
Anthony frá árinu 2005. Eimskip hefur einnig undirritað kaupsamning við
eigendur flutningsmiðlunarfyrirtækisins Cargocan í St. John‘s á Nýfundnalandi
um kaup á öllu hlutafé félagsins. Heildarfjárfestingin í þessum fyrirtækjum
nemur um 6 milljónum evra og er gert ráð fyrir að hún auki rekstrartekjur
Eimskips um 16 milljónir evra á ársgrundvelli og er áætlað að EBITDA hlutfall
verði á bilinu 8-10%. 

Í byrjun þessa árs hóf Eimskip framkvæmdir við byggingu á 10 þúsund tonna
frystigeymslu félagsins í Hafnarfirði. Félagið hefur einnig fjárfest í
uppbyggingarverkefnum á Íslandi með kaupum á þremur lóðum á Grundartanga og
tveim hafnarkrönum. Eimskip mun halda áfram meta möguleg fjárfestingartækifæri
á komandi mánuðum og eru ýmis verkefni í vinnslu. 

Bygging á Bakkafossi, 875 gámaeininga skipi, hefur ekki gengið samkvæmt áætlun
og félagið gerir ráð fyrir frekari töfum á afhendingu sem áætluð hafði verið á
fjórða ársfjórðungi þessa árs. Eimskip metur nú stöðuna í ljósi frekari tafa.
Félagið hefur þegar greitt 11,4 milljónir evra vegna fjárfestingarinnar.
Greiðslurnar til skipasmíðastöðvarinnar eru tryggðar af fyrsta flokks banka í
eigu kínverska ríkisins ef Eimskip ákveður að óska eftir endurgreiðslu þess sem
þegar hefur verið greitt. 

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2015
sem nemur 5,00 krónum á hlut. Nemur heildarfjárhæð arðgreiðslunnar 933,2
milljónum króna, eða 6,2 milljónum evra, sem samsvarar 45,7% af hagnaði ársins
2014. 

Afkomuspá okkar fyrir árið 2015 er EBITDA á bilinu 39 til 44 milljónir evra.“

  Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is