2008-05-14 18:00:00 CEST

2008-05-14 18:00:23 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Glitnir banki hf. - Fyrirtækjafréttir

Glitnir aðlagar rekstur að breyttum markaðsaðstæðum - Samræmdum uppsagnaraðgerðum lokið



Reykjavík  14.  maí  2008    Glitnir  hefur  í  dag  lokið  samræmdum
uppsagnaraðgerðum á Íslandi  sem fela  í sér  uppsögn 88  starfsmanna
bankans. Um  er  að ræða  starfsmenn  úr flestum  deildum  og  sviðum
bankans. Með  þessum  uppsögnum verður  starfsmannafjöldi  Glitnis  á
Íslandi svipaður og í upphafi árs 2007 eða um 1000.

Órói á alþjóðlegum fjármálamörkuðum  hefur á stuttum tíma  gjörbreytt
starfs- og rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja um allan heim. Íslensk
fjármálafyrirtæki  hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og hefur
dregið úr vexti þeirra á Íslandi sem og erlendis.

Áætlanir Glitnis  á  fyrri  helmingi  ársins  2007  gerðu  ráð  fyrir
áframhaldandi hröðum  vexti  og  tók  uppbygging  á  innri  starfsemi
bankans mið  af þeim  áætlunum.   Frá því  í  lok síðasta  árs  hefur
Glitnir brugðist  við  breyttum  aðstæðum  á  fjármálamarkaði,  meðal
annars með því að  aðlaga starfsmannafjölda bankans að  verkefnastöðu
og umsvifum á Íslandi og erlendis.

Erlend starfsemi endurskipulögð
Starfsemi Glitnis í  Evrópu hefur frá  ársbyrjun verið í  endurskoðun
með það  fyrir augum  að skerpa  áherslur og  ná fram  hagræðingu  og
lækkun kostnaðar.

  * Skrifstofu bankans í Danmörku var lokað í febrúar sl. og hluti
    starfseminnar flutt til London og Reykjavíkur. Stöðugildum fækkað
    um 15.
  * Starfsemi í Noregi endurskipulögð með sameiningu fyrirtækja
    bankans undir nafni Glitnis ásamt öðrum aðgerðum. Stöðugildum
    fækkað um 60.
  * Dregið úr fasteignalánastarfsemi í Evrópu og starfsemi bankans í
    Lúxemborg endurskipulögð í byrjun apríl sl. Með því losar bankinn
    um 100 milljarða í lausafé.  Stöðugildum fækkað um 10.
  * Starfsemi skrifstofu bankans í London endurskipulögð í lok apríl
    og stöðugildum fækkað um 10.


Kostnaðaraðhald og hagræðingaraðgerðir á Íslandi
Glitnir hefur einnig leitað leiða til að hagræða í starfsemi sinni  á
Íslandi. Almennt kostnaðaraðhald hefur ríkt í bankanum frá ársbyrjun,
nýráðningum hefur verið haldið í  lágmarki og ekki hefur verið  ráðið
störf sem hafa losnað.

Í apríl  síðastliðnum var  útibúi bankans  í Smáralind  lokað og  það
sameinað útibúinu í Hamraborg í  Kópavogi.  Þá verða útibú Glitnis  í
Skútuvogi og á  Kirkjusandi sameinuð þar  sem sérstök áhersla  verður
lögð á þjónustu við smærri og meðalstór fyrirtæki.

Á síðasta ári voru ráðnir 319  starfsmenn til Glitnis á Íslandi,  sem
er met í sögu bankans. Áætlanir bankans gerðu ráð fyrir áframhaldandi
hröðum vexti en nú er ljóst að þær forsendur hafa breyst. Í því ljósi
hefur bankinn ákveðið að grípa til uppsagna sem snerta 88  starfsmenn
bankans á  Íslandi.  Um  er  að ræða  starfsmenn úr  flestum  stöðum,
deildum og sviðum bankans. Skipting milli kynja er jöfn,   meðalaldur
þeirra sem um ræðir er um 40 ár, en um 2/3 þeirra starfsmanna sem  um
ræðir hafa starfað hjá bankanum í skemur en 5 ár.

Með þessu hefur  stöðugildum á öllum  starfssvæðum Glitnis fækkað  um
255  vegna  starfsloka,  uppsagna   eða  vegna  þess  að   lausráðnir
starfsmenn hafa ekki verið fastráðnir.

Þeir starfsmenn sem sagt hefur verið  upp munu flestir láta strax  af
störfum.   Bankinn   hefur   upplýst   Vinnumálastofnun   og   Samtök
starfsmanna fjármálafyrirtækja um umræddar uppsagnir.

Með þessum  uppsögnum  verður  starfsmannafjöldi  Glitnis  á  Íslandi
svipaður og hann var í upphafi árs 2007 eða um 1000.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis:
Þessi erfiða ákvörðun markar lok þeirra samræmdu uppsagnaraðgerða sem
bankinn hefur  unnið að  síðan í  lok síðasta  árs.  Rekstrarumhverfi
fjármálafyrirtækja  í  heiminum  hefur  breyst  á  skömmum  tíma   og
mikilvægt er að fyrirtæki  tryggi stöðu sína  í breyttu umhverfi  með
því að sýna sveigjanleika og getu til að lækka kostnað.

Það er sársaukafullt að  grípa til ráðstafana af  þessu tagi. Það  er
eftirsjá af því  góða fólki  sem nú  lætur af  störfum vegna  þessara
hagræðingaraðgerða og  ég óska  því alls  hins besta  í  framtíðinni.
Starfsfólk Glitnis hefur alltaf  verið eftirsótt á vinnumarkaðnum  og
ég er ekki í vafa um að því fólki sem hér um ræðir muni bjóðast störf
við hæfi á nýjum vettvangi.

Á síðasta ári  gerðu áætlanir okkar  ráð fyrir miklum  vexti á  árinu
2008 og var ráðningum bankans  háttað samkvæmt því. Forsendur eru  nú
breyttar og  er  þessi  ráðstöfun  að mínu  mati  nauðsynleg  til  að
straumlínulaga starfsemina og styrkja samkeppnisstöðu bankans. Ég  er
þess fullviss að með þessu muni bankinn verða betur í stakk búinn til
frekari  vaxtar  þegar  alþjóðlegir  fjármálamarkaði  taka  aftur  að
glæðast.

Nánari upplýsingar:
Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs, beinn sími: 440-4990,
farsími: 844-4990, póstfang: mar.masson@glitnir.is

Vala Pálsdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, beinn sími: 440
4989, farsími: 844 4990, póstfang: vala.palsdottir@glitnir.is