2016-10-21 18:00:01 CEST

2016-10-21 18:00:01 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Stefna í lánamálum ríkisins 2017-2021


Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt stefnu í lánamálum ríkisins
2017-2021. Frá árinu 2011 hefur stefnan verið gefin út til þriggja ára í senn.
Í samræmi við ný lög um opinber fjármál er stefnan nú í fyrsta sinn sett fram á
grundvelli fjármálaáætlunar og markmið í lánamálum því sett fram til fimm ára,
2017 – 2021. 

Meginmarkmið stefnunnar er að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum
skuldbindingum ríkissjóðs sé mætt með lágmarkskostnaði að teknu tilliti til
varfærinnar áhættustefnu. 

Í stefnunni koma fram áform stjórnvalda um framkvæmd lánsfjármögnunar á
tímabilinu. Í stefnunni er lýst markmiðum við lánastýringu, viðmiðum við
stýringu lánamála, samsetningu lánasafns ríkissjóðs, helstu áhættuþáttum við
lánastýringu og áhættuskuldbindingum ríkissjóðs. Þá er lýst skipulagi við
framkvæmd lánamála og hvernig upplýsingagjöf til markaðsaðila og fjárfesta er
háttað. 

Stefnan sem nú er sett fram, byggir að meginhluta til á fyrri stefnu, en felur
í sér áherslubreytingar til samræmis við fjármálaáætlun. Þá eru gerðar
breytingar á lausafjárstýringu, á viðmiðum við lánastýringu og nýjungar í
framkvæmd eru kynntar til sögunnar. Helstu breytingar og nýjungar í stefnu í
lánamálum 2017-2021 eru: 

1.       Samkvæmt stefnumiði fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að
brúttóskuldir lækki um a.m.k. 15% bæði að nafnvirði og sem hlutfall af VLF frá
stöðu í árslok 2016 og fram til ársloka 2021. Öllum óreglulegum og
einskiptistekjum verður varið til niðurgreiðslu skulda og lækkunar á
vaxtagjöldum, þ.á.m. tekjum vegna stöðugleikaframlaga slitabúa fallinna
fjármálafyrirtækja. 

2.      Í ljósi bættrar afkomu ríkissjóðs og áforma um niðurgreiðslur skulda á
komandi árum, dregur úr útgáfuþörf á innanlandsmarkaði. Til þess að halda
óbreyttri uppbyggingu markflokka og tryggja áframhaldandi verðmyndun með 2, 5
og 10 ára markflokka, verður unnið að því að lækka útistandandi hámarksfjárhæð
flokka úr 100 ma.kr. í 70 ma.kr. 

3.      Viðmið um meðallánstíma lánasafnsins verður að lágmarki 5 ár en að
hámarki 7 ár. 

4.      Viðmið fyrir samsetningu lánasafns ríkissjóðs í heild verða þannig að
hlutur óverðtryggðra lána verður 60-80% af lánasafni, hlutur verðtryggðra lána
10-20% af lánasafni og hlutfall erlendra lána 10-20% af lánasafni. 

5.      Skerpt er á markmiði um lántöku ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum
þannig að stefnt er að því að halda úti 1-2 viðmiðum í markaðsútgáfum
(benchmark) á hverjum tíma, ef skuldastaða ríkissjóðs og markaðsaðstæður leyfa. 

6.      Unnið verður að því að leggja grunn að virkri lausafjárstýringu
ríkissjóðs og samfara því verður viðmið um innlendar innstæður ríkissjóðs
lækkað úr 60-70 ma.kr. að jafnaði í 40 ma.kr. 

7.      Undirbúningur verður hafinn að útgáfu vaxtaskiptasamninga á innlendum
markaði, ríkissjóði verður heimilt að gera slíka samninga fyrir 20 – 40 ma.kr.
á ári. Meginmarkmið slíkrar útgáfu er að stýra vaxtaáhættu ríkissjóðs. 

8.      Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að heildarskuldir ríkssjóðs verði 32% af
landsframleiðslu í lok árs 2021. Markmiðið er að heildarskuldir sem hlutfall af
VLF verði um 30% í lok tímabils og til lengri tíma undir 25%, og að
nettóskuldir verði undir 20% í lok árs 2021. Til lengri tíma er stefnt að því
að nettó skuldastaða ríkissjóðs verði í jafnvægi. 

Nánari upplýsingar veitir Esther Finnbogadóttir í síma 5459200 eða í tölvupósti
esther.finnbogadottir@fjr.is.