2016-01-19 18:45:55 CET

2016-01-19 18:45:55 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Standard & Poor's breytir horfum á lánshæfiseinkunn Arion banka úr stöðugum í jákvæðar


Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur staðfest BBB-/A-3
lánshæfiseinkunn Arion banka og breytt horfum úr stöðugum í jákvæðar. 

Breytingin á horfum er fyrst og fremst byggð á jákvæðum breytingum í íslensku
efnahagslífi og telur S&P líklegt að sú jákvæða þróun haldi áfram í ljósi þess
árangurs sem náðst hefur við undirbúning afnáms fjármagnshafta. Nýverið
uppfærði S&P lánshæfiseinkunn Íslands í BBB+. 

Að mati S&P þá felur staðfesting nauðasamninga föllnu bankanna í sér að
verulega dregur úr áhættuþáttum í tengslum við afnám fjármagnshafta, betri
rekstrarskilyrði skapast fyrir íslensk fjármálafyrirtæki og aðgangur þeirra að
erlendum lánamörkuðum verður greiðari. S&P telur að eiginfjárstaða Arion banka
muni halda áfram að styrkjast. 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Allt frá því bankinn fékk fyrst lánshæfismat frá Standard & Poor´s þá hefur
þróunin verið jákvæð enda hefur bæði staða íslensks efnahagslífs og bankans
styrkst á þeim tíma. Staða Arion banka er í dag góð og eðli málsins samkvæmt þá
er áframhaldandi þróun á lánshæfismati bankans ekki síst háð því að þróun í
íslensku efnahagslífi verði áfram jákvæð, að vel takist til við afnám
fjármagnshafta og að lánshæfismat íslenska ríkisins haldi áfram að hækka.“ 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs
Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s:856 7108.