2014-09-11 16:23:21 CEST

2014-09-11 16:24:22 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Kópavogsbær - Ársreikningur

Árshlutareikningur Kópavogsbæjar 1.janúar til 30. júní 2014 og greinargerð


Góð afkoma í Kópavogsbæ

Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar er mun meiri en áætlanir gerðu ráð
fyrir, hagnaður fyrstu sex mánuði ársins eru 452 milljónir króna en gert er ráð
fyrir 667 milljónum króna fyrir allt árið í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar. Þetta
kemur fram í árshlutareikningi  Kópavogs fyrir 1. janúar 2014 til 30. júní 2014
sem var lagður fram í bæjarráði í dag, 11. september. 



Betri afkoma bæjarins það sem af er ári skýrist einkum af heldur meiri tekjum
en áætlanir gerðu ráð fyrir og lægri fjármagnsgjöldum vegna lægri verðbólgu en
áætluð var á tímabilinu. 



„Árshlutauppgjörið skilar okkur betri afkomu en við reiknuðum með sem er
ánægjulegt en þess má geta að nýir kjarasamningar hafa litil áhrif á fyrri
hluta ársins og þá var verðbólga lægri en við gerðum ráð fyrir. Við þurfum því
og munum áfram gæta aðhalds í rekstri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri
Kópavogsbæjar. „En það er ánægjulegt að rekstur bæjarfélagsins heldur áfram að
styrkjast, skuldirnar hafa lækkað og við höldum ótrauð áfram á þeirri braut að
greiða þær niður.“ 



Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði, afskriftir og
lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 2.325 m.kr. Þetta þýðir að
framlegðarhlutfall samstæðu var um 21%, en í reglum frá eftirlitsnefnd um
fjármál sveitarfélaga er gert ráð fyrir að framlegðarhlutfallið sé á bilinu
15-20%. 



Skuldahlutfall samstæðu Kópavogsbæjar lækkar á tímabilinu. Það er 179% fyrir
samstæðuna 30.júní 2014 séu þær forsendur gefnar að helmingur tekna ársins sé
fallinn til og að frádráttur vegna lífeyrisskuldbindinga sé sá sami og í
ársreikningi 2013, en skuldahlutfallið var þá 185%. Miðað við sömu forsendur,
þá er skuldahlutfall A-hluta komið í 147%.