|
|||
2024-07-17 19:59:00 CEST 2024-07-17 19:59:08 CEST REGULATED INFORMATION Icelandair Group hf. - Árshlutareikningur - 6 mán.Icelandair: Uppgjör 2. ársfjórðungs 2024
„Flugreksturinn gengur vel, stundvísi hefur verið framúrskarandi fimm mánuði í röð og vorum við útnefnd stundvísasta flugfélag í Evrópu í júní. Það er mjög ánægjulegt að sjá að áhersla á aukna skilvirkni í rekstrinum er þegar farin að skila sér og endurspeglast í lækkun einingakostnaðar á öðrum ársfjórðungi, þrátt fyrir háa verðbólgu og kostnaðarhækkanir. Við höfum jafnframt náð góðum árangri í að bæta afkomu af fraktstarfseminni og leiguflugstarfsemi okkar heldur áfram að ganga vel sem og innanlandsflugið. Þessi árangur er að þakka samhentu átaki starfsfólks á öllum sviðum félagsins. Eftirspurn á ferðamannamarkaðnum til Íslands er ekki eins sterk og á síðasta ári en okkur hefur gengið mjög vel að nýta sveigjanleika leiðakerfisins og halda sætanýtingu á ásættanlegum stað með því að setja meiri áherslu á markaðinn yfir Atlantshafið. Breytt samsetning farþega hafði hins vegar áhrif á meðalfargjöld og þar með einingatekjur á öðrum ársfjórðungi. Eftir mikið uppbyggingartímabil eftir Covid sem lauk á síðasta ári hefur áhersla okkar á þessu ári verið á aðgerðir til að ná fram aukinni skilvirkni í rekstrinum. Fjölmörg hagræðingarverkefni eru í vinnslu sem sum hver hafa þegar skilað árangri og gerum við ráð fyrir að sjá enn frekari árangur til lengri tíma. Við höldum jafnframt áfram að styrkja tekjumyndun hjá okkur og nýtum fjölbreytta tekjustrauma til þess. Við höfum meðal annars styrkt tekjugrunn félagsins með samstarfssamningum við tvö flugfélög á árinu – Emirates og TAP í Portúgal – en tekjur í gegnum slíkt samstarf nema í dag ríflega 10% af heildartekjum félagsins. Við sjáum mikil tækifæri á næstu misserum og má þar nefna stækkun leiðakerfisins með nýjum, langdrægari flugvélum sem verða grunnurinn að áframhaldandi þróun Íslands sem ferðamannalands og tengimiðstöðvar milli Evrópu og Norður Ameríku. Þrátt fyrir tímabundnar sveiflur á milli ára hef ég fulla trú á tækifærum Íslands sem áfangastaðar og ekki síður því tengimódeli sem við höfum byggt hér upp síðustu áratugi. Markaðurinn til Íslands er þegar farinn að sýna jákvæð merki og við teljum að hann muni jafna sig á næstu misserum ef haldið er rétt á spilunum. Rekstraráherslur okkar munu gera okkur samkeppnishæfari, afkastameiri og skilvirkari, sem til viðbótar við mjög sterka lausafjárstöðu gerir okkur vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem framundan eru og ná árangri til framtíðar.“ Vefútsending 18. júlí 2024 Kynning á uppgjöri 2. ársfjórðungs ársins 2024 verður í beinu streymi á https://icelandairgroup.com. Streymið hefst kl. 8:30 fimmtudaginn 18. júlí 2024 þar sem Bogi Nils Bogason forstjóri og Ívar S. Kristinsson framkvæmdastjóri fjármála munu fara yfir uppgjörið og svara spurningum. Fundurinn verður á ensku. Kynningin verður aðgengileg að fundi loknum á heimasíðu félagsins og undir fyrirtækjafréttum á heimasíðu Nasdaq Nordic: http://www.nasdaqomxnordic.com/news/companynews |
|||
|