2016-02-17 19:45:13 CET

2016-02-17 19:45:13 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reitir fasteignafélag hf. - Ársreikningur

Góður vöxtur í rekstrarhagnaði Reita


Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur samþykkt ársreikning félagsins fyrir
árið 2015. 

  -- Leigutekjur félagsins námu 8.927 millj. kr. (2014: 8.515 millj. kr.)
  -- Vöxtur tekna frá fyrra ári var 4,8%
  -- Rekstrarhagnaður (NOI) tímabilsins var 6.352 millj. kr. (2014: 5.982 millj.
     kr.)
  -- Matsbreyting fjárfestingareigna nam 6.548 millj. kr. (2014: 1.944 millj.
     kr.)
  -- Hagnaður tímabilsins var 7.397 millj. kr. (2014: 2.458 millj. kr.)
  -- Virði fjárfestingareigna jókst um 9.937 millj. kr. á árinu og var 110.947
     millj. kr. samanborið við 101.010 millj. kr. í lok árs 2014.
  -- Eigið fé í lok tímabilsins var 46.736 millj. kr. (2014: 39.948 millj. kr.)
  -- Eiginfjárhlutfall var 41,4%. (2014: 39,1%)
  -- Vaxtaberandi skuldir í árslok námu 57.158 millj. kr. (2014: 55.204 millj.
     kr.)
  -- Stjórn leggur til við aðalfund að greiddur verði arður til hluthafa að
     fjárhæð 1.036 millj. kr., eða 1,40 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs.
  -- Stefnt er að því að endurnýja endurkaupaáætlun um eigin bréf með það að
     markmiði að kaupa eigin bréf fyrir allt að 1.500 millj. kr.

Guðjón Auðunsson, forstjóri:

„Afkoma Reita á árinu 2015 og arðsemi er góð. Rekstrarhagnaður ársins var í
takti við væntingar stjórnenda og útgefnar áætlanir um afkomu, en til viðbótar
hækkaði virði eigna félagsins jafnt og þétt yfir árið. Arðsemi eigin fjár er um
17% á árinu og arðsemi tekjuberandi eigna um 6,2%. 

Árið 2015 er fyrsta rekstrarár félagsins eftir mikla endurskipulagningu
efnahagsreikningsins. Endurfjármögnunin hefur gefið félaginu tækifæri til að
taka stór skref í mótun eignasafnsins tekin með kaupum og sölu eigna og
eignasafna. Helst ber að nefna í því samhengi kaup á dótturfélaginu Reitir
Hótel Ísland sem á fasteignina Ármúla 9 fyrir um 3.800 milljónir króna og kaup
á nokkrum fasteignafélögum í rekstri Stefnis að heildarvirði 17.980 millj.
króna, en þau viðskipti eru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Félagið hefur áform um að halda áfram á þeirri braut að kaupa eignir sem falla
að fjárfestingarstefnu félagsins. Á árinu undirbjuggu Reitir einnig grunninn að
langtímafjármögnun félagsins með útgáfu skuldabréfa undir nýjum útgáfuramma
félagsins. 

Fjárhagur félagsins er mjög sterkur og er félagið vel í stakk búið til þess
skila eigendum sínum góðri arðsemi á komandi árum.“ 

Rekstrarafkoma ársins

Leigutekjur 2015 námu 8.927 millj. kr. samanborið við 8.515 millj. kr. árið
áður. Tekjur vaxa nokkuð hraðar en verðlag, en að auki skýra nýjar eignir í
safninu hluta tekjuvaxtar. Nýtingarhlutfall var óbreytt á milli ára. 

Rekstarkostnaður fjárfestingareigna nam 2.120 millj. kr. samanborið við 2.105
millj. kr. árið 2014. Þrátt fyrir litla aukningu kostnaðarins milli ára eru
meiri sveiflur á undirliggjandi liðum. Fasteignagjöld, sem vega þar þyngst,
jukust um tæp 10% milli ára, en lægri kostnaður við viðhald og endurbætur milli
ára vann á móti þeirri aukningu. 

Stjórnunarkostnaður félagsins jókst lítillega milli ára og nam 455 millj. kr.
samanborið við 428 millj. kr. árið áður. Á fyrsta ársfjórðungi var gjaldfærður
87 millj. kr. kostnaður sem tengist skráningu hlutabréfa félagsins og
skuldabréfaflokks þess í kauphöll í byrjun aprílmánaðar. 

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, fjármagnsliði og kostnað við skráningu
var 6.352 millj. kr. samanborið við 5.982 millj. kr. árið áður. 

Fjárfestingareignir og fjármögnun

Fjárfestingareignir eru metnar á gangvirði með sömu aðferðafræði og félagið
hefur áður beitt. Matið tekur mið af rekstri hverrar fasteignar, fjármögnun og
ávöxtunarkröfu. Helstu breytingar frá fyrra ári eru verðlagsbreytingar, lækkun
vegins meðalkostnaðar fjármagns (WACC) um 16 punkta ásamt því sem leiguverð
atvinnuhúsnæðis hefur hækkað. Matshækkun fjárfestingareigna nam 6.548 millj.
kr. samanborið við 1.944 millj. kr. árið áður. Á árinu 2015 fjárfesti félagið í
fjárfestingareignum fyrir um 4.400 millj. kr., en stærsta fjárfestingin var
félag sem er eigandi Hótels Íslands að Ármúla 9. Seldar eignir á síðasta ári
námu rúmum 1.600 millj. kr. 

Fjármagnsgjöld ársins námu 3.529 millj. kr. samanborið við 5.023 millj. kr.
árið áður. Samanburður milli ára er erfiður vegna breytinga á skuldum félagsins
í árslok 2014. Meðalkjör af verðtryggðri fjármögnun félagsins eru nú um 3,9%. Í
desember 2015 seldi félagið skulda­bréf fyrir 3.800 millj. kr. og greiddi upp
önnur óhagstæðari lán félagsins. Í árslok 2015 námu vaxtaberandi skuldir 57.158
millj. kr. samanborið við 55.204 millj. kr. í lok árs 2014. 

Horfur fyrir árið 2016

Áætlað er, miðað við stöðu eignasafnsins í dag, að tekjur ársins 2016 verði á
bilinu 9.210 til 9.310 millj. kr. og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu
verði á bilinu 6.380 til 6.480 millj.kr. Þessi áætlun tekur ekki mið af kaupum
á eignum í rekstri Stefnis en þau viðskipti eru háð fyrirvara um samþykki
samkeppnisyfirvalda. Ekki er vitað hvenær niðurstöðu er að vænta en áður hefur
verið greint frá því að rekstrarhagnaður þeirra eigna nemi um 1.125 millj. kr.
á ársgrundvelli. 

Kynningarfundur

Reitir bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á opinn fund þar sem Guðjón Auðunsson,
forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjör ársins.
Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 18. febrúar kl. 8:30 á skrifstofu
félagsins á þriðju hæð í Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík. Kynningarefni
fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita, www.reitir.is/fjarfestar. 

Frekari upplýsingar

Nánari upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660
3320 og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416. 

Um Reiti

Reitir sérhæfa sig í þjónustu og rekstri atvinnuhúsnæðis með áherslu á
verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og hótelbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
Heildareignir Reita í lok ársins 2015 námu  tæpum 111 milljörðum króna.
Fasteignir í eigu félagsins eru um 130 talsins og um 410 þúsund fermetrar að
stærð. Meðal þeirra má nefna stærstan hluta Kringlunnar, Hilton Reykjavík
Nordica, Icelandair hótel Reykjavík Natura, Kauphallarhúsið og nokkrar af
perlum íslenskrar byggingarsögu í miðbæ Reykjavíkur. Stærstu leigutakar Reita
eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög samtals með tæpan helming tekna
félagsins.