2015-06-05 16:58:55 CEST

2015-06-05 16:59:56 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Nýherji hf. - Fyrirtækjafréttir

Nýherji hf. setur allt að 25% eignarhlut í TEMPO ehf. í söluferli


Stjórn Nýherja hf (NYHR.IC) hefur sett 25% eignarhlut í TEMPO ehf. í söluferli.
Félagið hefur ráðið Icora Partners sem umsjónaraðila, með lokuðu útboði. Þess
er vænst að söluferlið muni hefjast á þriðja ársfjórðungi 2015. 

Markmiðið með útboðinu er að styðja enn frekar við hraðan vöxt TEMPO ehf., með
auknu fjármagni og sérþekkingu, sem mun nýtast annars vegar til að hraða
vöruþróun og hins vegar til að auka markaðsstarf og styrkja uppbyggingu TEMPO
vörumerkisins erlendis. 



FINNUR ODDSSON, FORSTJÓRI

„Vöxtur og viðgangur TEMPO hefur gengið vonum framar á undanförnum árum og við
höfum væntingar um að svo verði áfram. Markmiðið með sölu á minnihluta í TEMPO
ehf. er að tryggja fjármagn og þekkingu til frekari vöruþróunar og enn öflugri
tengsla og markaðssetningar erlendis,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja. 



TEMPO EHF.

TEMPO hugbúnaðurinn er hannaður og þróaður af TEMPO ehf. (temposoftware.com).
Fyrirtækið er dótturfélag Nýherja og eru höfuðstöðvar þess í Reykjavík. Hjá
fyrirtækinu starfa um 65 manns og eru starfsstöðvar þess á Íslandi og í Kanada.
TEMPO er leiðandi í hugbúnaðargerð á sviði verkefna- og
eignasafnsstjórnunarlausna (PPM) fyrir JIRA kerfið frá Atlassian.
Viðskiptavinir fyrirtækisins eru allt frá smáum sprotafyrirtækjum til Fortune
500 fyrirtækja með yfir 10.000 TEMPO notendur. Meira en 7.000 fyrirtæki í yfir
100 löndum nota hugbúnaðarlausnir TEMPO.  Þar á meðal eru stórfyrirtæki á borð
við Disney, eBay, Amazon, AT&T, Oracle, BMW, Dell og Pfizer. TEMPO á í
samstarfi við yfir 85 Atlassian Experts um allan heim í tengslum við sölu,
þjálfun og ráðgjöf á TEMPO hugbúnaðinum. 

Tekjur fyrirtækisins voru 5,7 milljónir dollara á árinu 2014 og jukust um 85%
milli ára. Á fyrsta ársfjóðungi ársins 2015 voru tekjur Tempo 2,2 miljónir
dollara sem er 57% aukning frá síðasta ári. Erlendar tekjur námu 98% af
heildartekjum fyrirtækisins þar sem 50% af þeirri upphæð kom frá Evrópu og 35%
frá Norður-Ameríku. 



Nánari upplýsingar um TEMPO er hægt að nálgast á www.temposoftware.com



NÝHERJI HF.

Nýherji (NASDAQ OMX: NYHR.IC) er samstæða fyrirtækja í upplýsingatækni. Nýherji
er þjónustufyrirtæki og hlutverk þess felst í að aðstoða viðskiptavini að ná
enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu
starfsfólks og lipurri þjónustu. Hjá móðurfélaginu starfa 250 manns en hjá
samstæðunni um 470. Dótturfélög Nýherja eru TM Software og Applicon, á Íslandi
og í Svíþjóð. Nýherji er skráð í Kauphöll Íslands. Nánari upplýsingar er að
finna á www.nyherji.is 



TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Nýherji vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari
fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins
en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar.
Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta
er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi
félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í
tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda
eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi
þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum. 



NÁNARI UPPLÝSINGAR

NÝHERJI HF.



Finnur Oddsson, forstjóri

fo@nyherji.is

Sími: (+354) 862 0310



Gunnar Petersen

Framkvæmdarstjóri Fjármálasviðs

gp@nyherji.is
Sími:(+354) 825 9001



TEMPO EHF.

Ágúst Einarsson

Framkvæmdarstjóri

ae@temposoftware.is

Sími: (+354) 860 7501