2009-11-23 10:53:24 CET

2009-11-23 10:54:25 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Fyrirtækjafréttir

- Marel Food Systems hf. efnir til hlutafjárútboðs meðal fagfjárfesta


Stjórn Marel Food Systems hf. (Marel) ákvað í dag að efna til hlutafjárútboðs
meðal fagfjárfesta sem miðar að því að auka hlutafé félagsins um 15% (92,4
milljónir hluta). 

Útboðið verður með áskriftarfyrirkomulagi („book building“) og verða hlutir
seldir á verðbilinu 63-65 krónur á hlut. Endanlegt útboðsverð og úthlutun hluta
verða ákveðin í lok útboðsins. Miðað við 15% hlutafjáraukningu er
heildarsöluverðmæti útboðsins um 6 milljarðar króna eða um 32 milljónir evra. 

Tilgangurinn með útboðinu er að styrkja frekar fjárhagsgrunn Marel, draga úr
gengisáhættu og lækka fjármögnunarkostnað. Fjárfestum verður boðið að greiða
fyrir ný hlutabréf með reiðufé og/eða skuldabréfum sem Marel hefur gefið út og
skráð í kauphöll (MARL 06 1 og MARL 09 1). Gera má ráð fyrir að útboðið muni
auka breidd hluthafahóps félagsins og auka hlutfallslega eign almennra hluthafa
(„free-float“). 

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa sameiginlega umsjón með
útboðinu. Skilmálar útboðsins verða tilgreindir nánar í lýsingu sem félagið mun
birta 24. nóvember 2009. Að auki verður útboðið sérstaklega kynnt fyrir
fagfjárfestum 24.-25. nóvember 2009. 

Sölutímabil útboðsins hefst kl. 10:00 fimmtudaginn 26. nóvember 2009 og stendur
til klukkan 16:00 föstudaginn 27. nóvember 2009. Arion banki, Íslandsbanki og
Landsbankinn munu taka við áskriftarbeiðnum á þar til gerðu áskriftareyðublaði
sem nálgast má hjá markaðsviðskiptum eða fyrirtækjaráðgjöf viðkomandi banka.
Hvenær sem er á sölutímabilinu áskilur stjórn Marel sér rétt til að samþykkja
eða hafna áskriftarbeiðnum. 

Með útboðinu er stefnt að 15% hlutafjáraukningu Marel en stjórn félagsins
áskilur sér þó rétt til að stækka útboðið og auka hlutaféð um hámark 138,6
milljónir hluta, sem jafngildir allt að 22,5% af núverandi heildarhlutafé
félagins. Útboðið  er í samræmi við heimild til hlutafjárhækkunar sem veitt var
á aðalfundi félagsins 10. mars 2009. 

Hlutirnir verða seldir á verðbilinu 63-65 krónur á hlut. Vegið meðalverð í
viðskiptum frá birtingu 9 mánaða uppgjörs til loka viðskipta 20. nóvember 2009
var 68,2 krónur á hlut og lokaverð síðasta viðskiptadags var 68,5 krónur á
hlut. 

Við lok sölutímabils mun stjórn Marel ákveða endanlega stærð útboðs, útboðsverð
og úthlutun nýrra hluta. 

Í kjölfar útboðsins mun Marel óska eftir því að nýir hlutir verði teknir til
viðskipta hjá Nasdaq OMX Iceland. 

Nánari upplýsingar veita:
   Sigsteinn P. Grétarsson, framkvæmdastjórn Marel, tel: +354 563-8072
   Steingrímur Helgason, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, tel:
   +354 410-7349 
   Arnar Ragnarsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka, tel: +354
   444-6802 

   Halla Hjartardóttir, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka, tel:
   +354 440-4532 



Um Marel
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á
heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á
fiski, kjöti og kjúklingi. Marel er alþjóðlegt fyrirtæki og hjá því starfa um
3.500 manns um allan heim. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
í meira en 30 löndum, auk 60 umboðsmanna og dreifingaraðila. Einn af
hornsteinum starfseminnar er sú mikla áhersla sem Marel hefur ávallt lagt á
nýsköpun. Fyrirtækið leggur að meðaltali 5-6% af veltu í rannsóknar- og
þróunarstarf á ári hverju, sem er hæsta hlutfallið sem fyrirfinnst í greininni.
Af þeim sökum getur Marel boðið matvælaframleiðendum af öllum stærðum og
gerðum, hvar sem er í heiminum, upp á háþróaðan búnað sem gerir þeim kleift að
hámarka afköst.