2013-04-26 10:41:12 CEST

2013-04-26 10:42:14 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Tryggingamiðstöðin hf. - Fyrirtækjafréttir

Mikil eftirspurn í hlutafjárútboði í TM


Almennu hlutafjárútboði í Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) lauk klukkan 16:00 þann
24. apríl 2013. Alls bárust um 7 þúsund áskriftir að heildarandvirði 357
milljarðar króna. Í útboðinu buðu Stoðir 28,7% hlut í TM til sölu á verðbilinu
17,75 - 20,10 krónur á hlut og hefur stjórn Stoða ákveðið útboðsgengið í efstu
mörkum, 20,10 krónur á hlut. Söluandvirðið nemur 4,4 milljörðum króna á
útboðsgengi. Enginn hluthafa TM mun eiga yfir 10% eignarhlut. 



Í áskriftarhluta útboðsins, þar sem tekið var við áskriftum frá 100.000 krónum
til 49.999.999 króna, bárust áskriftir fyrir samtals 22 milljarða króna.  Í
ljósi mikillar þátttöku hefur hámarksfjárhæð í þessum hluta útboðsins verið
ákveðin 452.250 krónur. Áskriftir upp að þeirri fjárhæð verða ekki skertar. 



Í þeim hluta útboðsins þar sem tekið var við áskriftum að fjárhæð að lágmarki
50 milljónir króna bárust áskriftir fyrir samtals 335 milljarða króna. Tryggð
er lágmarksúthlutun í þessum hluta að fjárhæð 452.250 kr. en skerðing umfram 
lágmarksúthlutun er ákvörðuð hlutfallslega, þó þannig að hæsta einstaka
úthlutun nemur um 5,8 milljónum króna. 



Gjalddagi og eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins er 3. maí 2013 og verða
hlutir í TM afhentir kaupendum 7. maí 2013. Gert er ráð fyrir að fyrsti
viðskiptadagur með hluti TM á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland (Kauphöllin) verði
8. maí 2013, en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins
viðskiptadags fyrirvara. Í viðhengi er bráðabirgðahluthafalisti TM að loknu
útboði. 



Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða: „Mikil þátttaka í hlutafjárútboði
TM er okkur að sjálfsögðu ánægjuefni. Markmið Stoða með útboðinu hafa gengið
eftir, bæði hvað varðar verð og dreifingu hlutafjár. Stoðir hafa unnið að sölu
hlutafjár TM í á annað ár og hafa nú selt samtals um 95% hlutafjár til breiðs
hóps einka- og fagfjárfesta.“ 



Sigurður Viðarsson, forstjóri TM: „Hlutafjárútboðið og skráning í Kauphöllina
markar mikilvæg tímamót fyrir TM. Markmið TM er að verða hornsteinn á íslenskum
hlutabréfamarkaði og þess vegna er það ánægjulegt að sjá hve fjölmennur hópur
nýrra hluthafa kemur nú að félaginu.“ 



Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka eru umsjónar-
og söluaðilar útboðsins. 



Nánari upplýsingar veita:

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða í síma 896 6612

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í síma 898 6276

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans í síma  899 9352

Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs Íslandsbanka í síma 844 4990




Bráðabirgðahluthafalisti Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

26. apríl 2013



Eftirfarandi listi yfir 15 stærstu hluthafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. byggir
á því að viðskipti samkvæmt niðurstöðu almenns hlutafjárútboðs, sem lauk 24.
apríl 2013, gangi eftir. Listinn byggir á úthlutunum í almenna
hlutafjárútboðinu og hluthafalista Tryggingamiðstöðvarinnar hf. frá
Verðbréfaskráningu Íslands þann 23. apríl 2013. Athygli er vakin á að ekki er
því um formlegan hluthafalista að ræða, heldur bráðabirgðahluthafalista. 





Nr.   Kennitala  Nafn                                 Hlutir     %
------------------------------------------------------------------
 1   4302694459  Lífeyrissjóður verslunarmanna    75.278.995  9,9%
 2   6204922809  Sameinaði lífeyrissjóðurinn      45.623.633  6,0%
 3   4501810489  Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda  45.043.666  5,9%
 4   6012730129  Stoðir hf.                       37.124.947  4,9%
 5   4106121430  JÖKÁ ehf.                        35.254.625  4,6%
 6   5709120890  L175 ehf.                        24.194.351  3,2%
 7   5501973409  Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deil   22.986.156  3,0%
 8   4304089920  Auður Capital safnreikningur     22.037.060  2,9%
 9   5810080150  Arion banki hf.                  21.614.760  2,8%
 10  4910982529  Lífeyrissjóður starfsm sveitarf  20.951.785  2,8%
 11  4302690389  Stafir lífeyrissjóður            20.847.575  2,7%
 12  5405022930  MP banki hf.                     16.817.750  2,2%
 13  6810770309  Sundagarðar hf                   15.440.378  2,0%
 14  5711710239  Festa - lífeyrissjóður           14.021.963  1,8%
 15  4502902549  Almenni lífeyrissjóðurinn        13.952.313  1,8%
------------------------------------------------------------------