2015-10-29 16:32:31 CET

2015-10-29 16:33:32 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Vátryggingafélag Íslands hf. - árshlutauppgjör


Afkoma á fyrstu níu mánuðum ársins 2015

Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2015 var
staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. október
2015.  Árshlutareikningurinn hefur ekki verið kannaður eða endurskoðaður af
endurskoðendum félagsins. 

  Helstu niðurstöður

  -- 1.989 m.kr. hagnaður varð af rekstri félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins
     samanborið við 906 m.kr. hagnað fyrir sama tímabil árið 2014.
  -- Fjárfestingatekjur námu 2.973 m.kr. samanborið við 1.426 m.kr. fyrir sama
     tímabil í fyrra.
  -- Iðgjöld tímabilsins námu 12.390 m.kr. samanborið við 11.853 m.kr. sama
     tímabil í fyrra og nemur hækkunin 4,5%.
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 468 m.kr.  Framlegð af
     vátryggingarekstri á sama tímabili í fyrra var jákvæð um 20 m.kr.
  -- Kostnaðarhlutfall var 21,3% samanborið við 21,6% á sama tímabili í fyrra.
  -- Samsett hlutfall var 104,7% en var 100,8% á sama tímabili í fyrra.
  -- Heildareignir í lok tímabilsins námu 46.793 m.kr. samanborið við 46.466 í
     árslok 2014.
  -- Fjárfestingaeignir félagsins námu 33.334 m.kr. en voru 34.658 í árslok
     2014.
  -- Eigið fé félagsins nam 14.546 m.kr. samanborið við 15.956 í árslok 2014.
  -- Eiginfjárhlutfall var 31,1% í lok tímabilsins.
  -- Arðsemi eigin fjár var 17,4% á tímabilinu á ársgrunni. 
  -- Félagið greiddi hluthöfum sínum arð að fjárhæð 2.488 m.kr. í apríl. 
     Ennfremur keypti félagið eigin hlutabréf fyrir 912 m.kr. fyrstu níu mánuði
     ársins og átti sem nam 4,4% af heildarhlutafé þess þann 30. september s.l.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Hagnaður af rekstri félagsins fyrstu níu mánuði ársins var tæpir 2 milljarðar
króna og nam arðsemi eigin fjár 17,4% á ársgrunni. Góð afkoma skýrist af góðri
ávöxtun fjárfestingaeigna.  Fjárfestingastarfsemin hefur gengið vel á árinu og
er jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum.  Ávöxtun skuldabréfa hefur verið góð og
eins hefur hlutabréfasafn félagsins skilað ágætri afkomu það sem af er ári. 
Hluti af fjárfestingaeignum, viðskiptakröfum og innlánum eru í erlendri mynt. 
Þessar eignir lækkuðu í virði um tæpar 300 m.kr. á þriðja ársfjórðungi sökum
þróunar á gengi hlutabréfa á erlendum mörkuðum og styrkingar íslensku
krónunnar. Það er ánægjulegt að sjá að góður vöxtur er í innlendum iðgjöldum. 
Hækkun á bókfærðum iðgjöldum fyrstu níu mánuði ársins er 5,4% og hækka bókfærð
iðgjöld á þriðja ársfjórðungi um 9,4% frá þriðja fjórðungi í fyrra.  Þrátt
fyrir iðgjaldavöxt hefur umtalsverður vöxtur í tjónatíðni á tímabilinu valdið
því að tjónakostnaður hefur aukist meira en sem nemur hækkun iðgjalda.  Afkoma
af ökutækjatryggingum sem telja um helming af iðgjöldum félagsins er óviðunandi
á öllum fjórðungum rekstrartímabilsins.“ 

Horfur

Ágætur iðgjaldavöxtur var á fyrstu níu mánuðum ársins og reiknar félagið með að
iðgjöld ársins vaxi um ríflega 4%.  Ólíklegt er að markmið félagsins um að
samsett hlutfall á árinu 2015 verði undir 100% náist  og munar þar mestu um
aukinn tjónaþunga vegna óveðurs á fyrri hluta ársins og verulega aukningu
tjónakostnaðar í ökutækjatryggingum.  Afkoma af fjárfestingastarfsemi var góð á
rekstrartímabilinu sé tekið mið af helstu viðmiðunarvísitölum og ef fer sem
horfir eru væntingar um að ávöxtun á árinu í heild verði ágæt. 

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar
stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild.
Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem
rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu,
skilvirkni og sveigjanleika. 

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir
félagið 32 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land.  VÍS leggur áherslu á að
starfsmenn og þjónustuaðilar félagsins vinni eftir grunngildum þess sem eru
umhyggja, fagmennska og árangur. 

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir
viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi með öflugum
forvörnum. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla
3, 5. hæð, þann 29. október n.k. kl. 16:15. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir
forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. Kynningarefni fundarins
verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS: www.vis.is 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                                Dagsetning:

3. ársfjórðungur 2015        29. október 2015

Ársuppgjör 2015               25. febrúar 2016

Aðalfundur 2016                   17. mars 2016

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og
í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.