2010-07-23 18:35:34 CEST

2010-07-23 18:36:37 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Nýherji hf. - Ársreikningur

Uppgjör Nýherja hf. á fyrri árshelmingi 2010


Helstu niðurstöður 

• 100 mkr heildarhagnaður á fyrri árshelmingi, en heildartap var 71 mkr á sama
  tímabili í fyrra. 
• 123 mkr EBITDA í öðrum ársfjórðungi, en EBITDA var neikvæð um 109 mkr á sama
  tímabili 2009. 
• Vörusala innanlands í öðrum ársfjórðungi var 30% meiri en í sama ársfjórðungi
  í fyrra. 
• Jafnvægi hefur náðst í rekstri erlendra dótturfélaga og eru horfur góðar á
  síðari árshelmingi. 
• Áformað er að samningar við viðskiptabanka félagsins um fjárhagslega
  endurskipulagningu liggi fyrir á næstunni. 


Þórður Sverrisson, forstjóri:

„Áætlun um afkomu félagsins gekk eftir á fyrri árshelmingi og eru horfur
vænlegar fyrir síðari árshelming. Erlend og innlend dótturfélög sem starfa á
sviði hugbúnaðarþjónustu skiluðu nú góðum hagnaði, í stað taprekstrar í fyrra.
Tekist hefur að lækka rekstrarkostnað innan samstæðunnar og afkoma því batnað. 
Nýherji er langt kominn í viðræðum við bankana um endurskiplagningu á fjárhag
samstæðunnar og er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir á næstunni.“ 


Rekstrarniðurstaða á fyrri árshelmingi 2010


Fyrstu 6 mánuðir ársins - Lykiltölur (sjá viðhengi)                            

Sala á vöru og þjónustu nam 7.038 mkr fyrstu 6 mánuði ársins 2010, samanborið
við 7.037  mkr á sama tímabili árið áður. Tekjur starfseminnar á Íslandi námu
4.864 mkr, en 2.174 mkr hjá erlendum dótturfélögum. 

Laun og launatengd gjöld námu 2.975 mkr, en voru 3.164 mkr fyrir sama tímabil
árið áður. Laun vegna erlendrar starfsemi hafa lækkað um 30 mkr vegna fækkunar
starfsfólks og gengisbreytinga. Meðalfjöldi stöðugilda fyrstu 6 mánuði ársins
2010 var 571 en var 663 fyrir sama tímabil árið áður. Rekstrarkostnaður var um
979 mkr, en var 1.300 mkr yfir sama tímabil í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir
afskriftir, fjármagnsliði og skatta - EBITDA - var 158 mkr á tímabilinu en
EBITDA var neikvæð um 117 mkr árið áður. 
Hrein fjármagnsgjöld voru 77 mkr í samanburði við 333 mkr á sama tímabili árið
2009. Heildarhagnaður fyrstu 6 mánuði ársins 2010 var 100  mkr en heildartap
fyrstu 6 mánuði ársins 2009 nam 71 mkr. 


Efnahagsreikningur 30.06. 2010 - Lykiltölur (sjá viðhengi) 


Heildareignir í lok tímabilsins voru 9.245 mkr samanborið við 9.595 mkr í lok
ársins 2009. Langtímaskuldir hafa lækkað frá árslokum úr 1.526 mkr í 1.095 mkr.
Skammtímaskuldir hafa lækkað frá árslokum úr 6.805 mkr í 6.785 mkr.
Vaxtaberandi skuldir námu 5.224 mkr, en voru 5.537 mkr í ársbyrjun 2010.
Hlutfall vaxtaberandi skammtímaskulda er hátt þar sem samningum við
viðskiptabanka um fjárhagslega endurskipulagningu er ekki lokið.  Eigið fé í
lok júní 2010 var 1.364 mkr og er eiginfjárhlutfall nú 14,8% en var 13,2% um
síðustu áramót. 


Rekstrarniðurstaða á öðrum ársfjórðungi 2010


Ársfjórðungsyfirlit - Lykiltölur (sjá viðhengi)


Sala á vöru og þjónustu nam 3.530 mkr í öðrum ársfjórðungi, samanborið við
3.479 mkr á sama tímabili árið 2009 og hafa tekjur því aukist um 1,4% frá öðrum
ársfjórðungi 2009. 

Laun og launatengd gjöld námu 1.462 mkr en voru 1.602 mkr fyrir sama tímabil
2009. Meðalfjöldi stöðugilda  í öðrum ársfjórðungi var 558 en var 649 á sama
tíma í fyrra. Launakostnaður innanlands hefur lækkað um 58 mkr frá því í öðrum
ársfjórðungi 2009. Laun starfsmanna erlendis hafa lækkað um 82 mkr vegna
gengisbreytinga og fækkunar stöðugilda milli annars ársfjórðungs 2009 og 2010. 
Rekstrarkostnaður var 450 mkr í öðrum ársfjórðungi, en var 769 mkr á sama tíma
á árinu 2009. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta -
EBITDA - var 123 mkr á tímabilinu en EBITDA var neikvæð um 109 mkr á sama
tímabili fyrir árið 2009. 

Fjármunatekjur voru 0,3 mkr í öðrum ársfjórðungi í samanburði við
fjármagnsgjöld að fjárhæð 257 mkr. í öðrum ársfjórðungi 2009.  Heildarhagnaður
í fjórðungnum nam 231 mkr, en heildarhagnaður í öðrum ársfjórðungi í fyrra nam
88 mkr. 

Guðmar Guðmundsson framkvæmdastjóri fjármála Nýherja hf. hefur ákveðið að láta
af störfum hjá félaginu og mun taka við starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá
VÍS hf. 

Roka ehf., dótturfélag Nýherja, var úrskurðað gjaldþrota á tímabilinu og eru
allar eignir þess og skuldir því færðar út úr efnahagsreikningi samstæðunnar. 


Yfirlit yfir rekstur 

Eftirspurn eftir lausnum og búnaði jókst hjá móðurfélaginu Nýherja hf. í öðrum
ársfjórðungi. Góð sala var á IBM vélbúnaðarlausnum, svo sem IBM BladeCenter
netþjónum og IBM gagnageymslulausnum. Eftirspurn eftir tölvubúnaði frá Lenovo
er mikil, en sala á fartölvum hefur aukist um ríflega 60% miðað við annan
ársfjórðung árið 2009. Ágæt sala var á APC búnaði fyrir kerfissali. 

Sala hjá Sense ehf., sem sérhæfir sig í hljóð- og myndlausnum, var í samræmi
við áætlanir. Ágæt eftirspurn var eftir Canon og Sony myndavélum og sjónvörpum
frá Sony. Verkefnastaða í mynd- og hljóðlausnum fyrir fyrirtæki og stofnanir er
viðunandi, en félagið hefur meðal annars unnið að slíkum verkefnum í Noregi. 

Afkoma Skyggnis ehf., rekstrar- og hýsingarfélags samstæðunnar,  var undir
áætlunum í öðrum ársfjórðungi. Gerður var fjöldi nýrra þjónustu- og
rekstrarsamninga við nýja og eldri viðskiptavini. Þá hefur vaxandi fjöldi
fyrirtækja flutt tölvurekstur sinn í alrekstur hjá Skyggni. Félagið hefur í
áratug annast hýsingu og rekstur tölvukerfa Icelandair Group, og var í
ársfjórðungnum undirritaður nýr þriggja ára samningur um þá þjónustu. 

Innlendur hugbúnaðarhluti Nýherjasamstæðunnar hefur náð að laga rekstur að
nýjum markaðsaðstæðum. Jákvæð EBITDA hefur náðst hjá TM Software ehf. og EMR
ehf. síðustu ársfjórðunga og er rekstur beggja fyrirtækja í samræmi við
áætlanir. 

Hagnaður Applicon ehf., sem sérhæfir sig í viðskiptalausnum, var undir
væntingum í öðrum ársfjórðungi, sem má rekja til verkefnastöðu félagsins í
upphafi tímabilsins. Gert er ráð fyrir að aukin verkefni erlendis muni bæta
afkomu félagsins á síðari árshelmingi. 

Rekstur Vigor ehf. var þungur í öðrum ársfjórðungi, en ráðist hefur verið í
aðgerðir til að ná aftur jafnvægi í rekstri félagsins. Helstu verkefni Vigor er
hugbúnaðarþjónusta við viðskipta-, launa- og orkukerfi  og sérsmíði á lausnum
fyrir ýmis fyrirtæki s.s. á sviði greiðslumiðlunar, tryggingastarfsemi og
orkudreifingu. 

Bjartari horfur eru á dönskum markaði og betri verkefnastaða dótturfélaga
Nýherja þar í landi hefur tryggt jákvæðan viðsnúning á rekstri þeirra. Applicon
A/S í Danmörku gerði í öðrum árfjórðungi samning um innleiðingu á
SAP-viðskiptakerfum fyrir sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir Region
Hovedstaden stjórnsýsluumdæmisins í Kaupmannahöfn og á Norður Sjálandi.
Applicon er samstarfsaðili Siemens IT Solutions í þessu verkefni, en hlutur
Applicon er um 1,8 milljarðar króna á þremur árum. Um er að ræða stærsta
samning sem Applicon fyrirtækin hafa gert fram til þessa. Þessi samningur ásamt
öðrum fyrirliggjandi samningum tryggja jákvæða afkomu næstu misseri. Applicon
Solutions A/S í Danmörku hefur lagt aukna áherslu á Bandaríkjamarkað við sölu á
aðgangsstýringarkerfinu APM fyrir SAP viðskiptahugbúnað. Má þar nefna samning
við fyrirtækin Celanese, Mercedes Benz og Xerox. 

Afkoma af rekstri Dansupport A/S var jákvæð og yfir áætlun á fyrri árshelmingi
og er verkefnastaða félagsins viðunandi. Dansupport hefur í auknum mæli lagt
áherslu á þjónustu við veitufyrirtæki og sambærileg meðalstór fyrirtæki. 

Árangur Applicon í Svíþjóð er í takt við væntingar og hefur vöxtur þess haldið
áfram. Nýir samningar voru gerðir við SEB, Nordea, Brummer & Partners og Volvo.
Horfur í næsta ársfjórðungi eru ágætar. 

Applicon vinnur einnig að verkefnum utan Norðurlandanna, svo sem fyrir SAP hjá
breska bankanum Nationwide, en þar starfa sex íslenskir Applicon ráðgjafar að
staðaldri við að þróa næstu kynslóð SAP viðskiptabankakerfa. 


Horfur

Innlend starfsemi Nýherja hefur skilað jákvæðri og vaxandi EBITDA í fjóra
ársfjórðunga í röð. EBITDA af erlendri starfsemi var jákvæð í öðrum
ársfjórðungi eftir taprekstur nokkurra undanfarinna ársfjórðunga. Áætlanir
félagsins gera ráð fyrir því að afkoma í þriðja og fjórða ársfjórðungi verði
betri en hún var í öðrum ársfjórðungi. 

Fjárhagsdagatal fyrir 2010:
Áætluð birting árshlutauppgjörs fyrir árið 2010.

22. október         Níu mánaða uppgjör
28. janúar 2011     Ársuppgjör


Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung 2010 var samþykkt á stjórnarfundi
Nýherja hf. 23. júlí 2010. Árshlutauppgjör Nýherja hf. er gert í samræmi við
alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting
Standards). Árshlutauppgjörið hefur hvorki verið endurskoðað né kannað af
endurskoðendum félagsins 


Nánari upplýsingar

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í síma +354 893 3630.



Nýherji hf.

Hlutverk Nýherja hf. er að skapa viðskiptavinum sínum virðisauka með þekkingu
starfsmanna á upplýsingatækni, rekstri fyrirtækja og þörfum viðskiptavina.
Nýherji býður fyrsta flokks ráðgjöf og fagþjónustu á sviði upplýsingatækni og
vandaðan tölvu-, skrifstofu- og hugbúnað ásamt traustri tækni- og
rekstrarþjónustu. Félög Nýherjasamstæðunnar í rekstri eru 18 bæði hér heima og
erlendis og er heildarfjöldi stöðugilda 554. Hlutabréf Nýherja hf. eru skráð í
NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöll Íslands). 

Stjórn Nýherja: Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður, Árni Vilhjálmsson og
Guðmundur Jóh. Jónsson. Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja.