2014-01-10 13:39:43 CET

2014-01-10 13:40:45 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor‘s (S&P) gefur Arion banka lánshæfismatið BB+ með stöðugum horfum


Mat S&P byggist á traustri stöðu Arion banka á innlendum markaði. Bankinn hefur
aukið markaðshlutdeild sína á íbúðalánamarkaði á undanförnum árum og skiptist
starfsemi hans nú jafnt milli einstaklings- og fyrirtækjaviðskipta. Hins vegar
er bankinn lítill í alþjóðlegu samhengi. 

S&P telur dreifingu tekna bankans góða en um 60% tekna eru hreinar vaxtatekjur
og 25% eru vegna þóknana. 

Mat S&P byggist einnig á því að eiginfjárstaða bankans er sterk og góð arðsemi
af rekstri hans. Gert er ráð fyrir að eiginfjárstaðan batni enn frekar í takt
við frekari sölu óskráðra eigna í félögum sem bankinn hefur þurft að taka yfir
á undanförnum árum. 

Áhætta í rekstri bankans er í meðallagi. Endurskipulagningu lánasafns er að
mestu leyti lokið og S&P telur að frekari niðurfærslur verði að öllum líkindum
takmarkaðar. 

Fjármögnun bankans er einnig í meðallagi. Þar vegast á stöðug
langtímafjármögnun bankans í samanburði við aðra banka og hættan af mögulegu
útflæði innstæðna. Litlar endurgreiðslur eru af langtímalánum til ársins 2020,
sem er styrkleikamerki. 

Lausafjárstaða bankans er sterk að mati S&P og er hann með sterka þekju lauss
fjár til að standa við greiðslur af skuldum. Auk þess á bankinn laust fé og
lausafjáreignir í formi verðbréfa sem nægja til að greiða út allar innstæður í
erlendum myntum. 

S&P telur Arion banka vera mikilvægan fyrir fjármálastöðugleika á Íslandi.
Þrátt fyrir það telur matsfyrirtækið að ekki sé að vænta stuðnings frá íslenska
ríkinu ef kæmi til fjármálalegs óstöðugleika. 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Lánshæfiseinkunnin BB+ með stöðugum horfum er góð einkunn frá S&P þegar tekið
er mið af lánshæfismati íslenska ríkisins. Lánshæfiseinkunn frá alþjóðlegu
matsfyrirtæki mun bæta aðgengi okkar að erlendum fjármálamörkuðum, sem er
mikilvægt. Það gerir okkur vonandi kleift að bjóða viðskiptavinum, sem þess
þurfa, erlenda fjármögnun á hagstæðari kjörum. Jafnframt er ljóst að bætt
aðgengi Arion banka og annarra íslenskra fjármálafyrirtækja að alþjóðlegum
lánsfjármörkuðum er ein af forsendum þess að hægt verði að aflétta
gjaldeyrishöftum og það er einnig í því ljósi sem við teljum þetta jákvætt
skref.“ 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s. 856-7108