2008-02-13 17:40:56 CET

2008-02-13 17:41:58 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
FL GROUP hf. - Ársreikningur

Tap FL Group 67 milljarðar króna á árinu 2007


- Miklar sveiflur á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum einkenna afkomu -
-Fjárhagslegur styrkur samstæðunnar og rekstur kjarnaeigna sterkur-
- Markaðsáhætta minnkuð verulega á fjórðungnum-


Helstu fjárhagsleg atriði:

Tap FL Group á árinu 2007 nam 67,3 milljörðum króna og var 63,2 milljarðarkróna á fjórða ársfjórðungi. Allar skráðar eignir félagsins eru færðar á
markaðsvirði. 

Heildareignir jukust um 60,7% á árinu og námu 422,3 milljörðum króna.
Tryggingamiðstöðin kemur inn í samstæðureikning félagsins frá og með 1. október
og er því hluti af efnahagsreikningi félagsins í lok árs. 

Eigið fé var 155,8 milljarðar króna í lok árs, sem er aukning um 13,2
milljarða króna frá árslokum 2006. Aukningin skýrist m.a. af hlutafjáraukningu
í tengslum við kaup félagsins á Tryggingamiðstöðinni og fasteignafélögum af
Baugi Group á síðari hluta ársins. 

Eiginfjárhlutfall í lok árs var 36,9% og lausafjárstaða í formi handbærs fjár
og ógreiddra hlutafjárloforða sem kom til greiðslu 4. janúar, var 28,6
milljarðar króna, sem endurspeglar fjárhagslegan styrk félagsins. 

Við birtingu ársreiknings hefur FL Group endurfjármagnað andvirði 47,1
milljarða króna af lánum með gjalddaga árið 2008 en eftir standa um 8,5
milljarðar. 

Í ljósi markaðsaðstæðna á fjórða ársfjórðungi voru óskráðar eignir félagsins
færðar niður sem nemur 3,7 milljarða. 

Hár rekstrarkostnaður á fjórðungnum skýrist m.a. af kostnaði vegna
fjárfestingaverkefna, einskiptiskostnaði vegna stjórnendabreytinga og bókfærðum
kostnaði vegna kaupréttarsamninga starfsmanna. 

Helstu atriði úr rekstri félagsins:

Kaup á fasteignafélögum frá Baugi Group fyrir 53,7 milljarða króna,
fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár. 

Eignarhlutur í Tryggingamiðstöðinni aukinn í 99,1% og félagið hluti af
samstæðureikningi FL Group. 

Jón Sigurðsson skipaður forstjóri félagsins.

Lagst í umfangsmikla skipulagsbreytingar á félaginu, markaðsáhætta minnkuð og
Kaupmannahafnarskrifstofu lokað. 

Eignir voru seldar til að minnka markaðsáhættu og tryggja fjárhagslegan styrk
félagsins. Markaðsáhætta í félögum tengdum flugrekstri var stórlega minnkuð með
sölu á hlutum í AMR og Finnair fyrir um 35,2 milljarða króna. 

Vægi fjármálatengdra fjárfestinga, sem ekki teljast til kjarnafjárfestinga,
var minnkuð með sölu á hlut í Commerzbank á fjórðungnum fyrir um 20,7 milljarða
króna. Á fyrsta ársfjórðungi hafa til viðbótar verið seld bréf í bankanum fyrir
um 34 milljarða króna. 

Auk þess var eignasafn undir Markaðsviðskiptum minnkað um 29,0 milljarða til
viðbótar á fjórðungnum. 

Eignasafn FL Group er nú vel dreift með kjarnafjárfestingar í fjármála- og
tryggingafélögum  og fasteignafélögum, en stjórnendur félagsins telja mikil
tækifæri innan þessara atvinnugreina til framtíðar. Einnig liggja mikil
tækifæri í óskráðum eignum félagsins. 

Kjarnaeignir FL Group eru í Glitni banka, Tryggingamiðstöðinni og Landic
Property og mun félagið halda áfram að vinna með stjórnendum þessara félaga og
styðja framtíðarvöxt þeirra og arðsemi.
FL Group hefur selt 43,1% eignarhlut sinn í Geysir Green Energy til Glitnis
banka, Atorku Group, og fleiri aðila. Söluverðið er um 10,5 milljarðar króna og
nemur áður bókfærður gengishagnaður FL Group um 3 milljörðum króna sem
jafngildir um 40% hækkun á fjárfestingu í félaginu. 

Gengið hefur verið frá sölu á erlendum fasteignasjóðum til Landic Property
fyrir 20,6 milljarða króna, í samræmi við fyrirætlanir sem kynntar voru í
desember sl. 



Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group: 

“Órói á erlendum fjármálamörkuðum á síðari hluta ársins 2007 hafði mikil og
bein áhrif á okkar afkomu þar sem verðmæti allra okkar helstu eigna hefur
lækkað umtalsvert. Við teljum hinsvegar að rekstur okkar kjarnaeigna standi vel
og að FL Group geti staðið af sér frekari óróa á markaði og í framhaldinu
skoðað áhugaverð tækifæri. 

Við höfum brugðist hratt við breyttum aðstæðum á mörkuðum og markvisst minnkað
markaðsáhættu félagsins í hlutabréfum, ásamt því að auka hlutafé félagsins.
Jafnframt höfum við lokað skrifstofu okkar í Kaupmannahöfn og er það liður í
lækkun rekstrarkostnaðar félagsins.  Með endurfjármögnun undanfarinna vikna,
ásamt framangreindum aðgerðum höfum við staðið vörð um fjárhagslegan styrk
félagsins.“ 
Afkoma FL Group á fjórða ársfjórðungi og árinu 2007

Fjárfestingatekjur FL Group koma frá þremur tekjusviðum: FIG, Private Equity og
Capital Markets. FIG sér um stefnumarkandi fjárfestingar í bönkum,
tryggingafélögum og öðrum fjármálafyrirtækjum og fellur eignarhlutur í
Tryggingamiðstöðunni þar undir. Private Equity ber ábyrgð á safni skráðra og
óskráðra fjárfestinga.. Capital Markets (Markaðsviðskipti) sér um fjárfestingar
í skráðum félögum auk þess að stýra afleiðuviðskiptum og áhættustýringu
félagsins meðal annars með kaupum á vörnum. Sviðið sér einnig um að byggja upp
og losa um stöður í skráðum félögum fyrir hönd FIG og Private Equity.