2015-11-05 17:15:15 CET

2015-11-05 17:16:17 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans janúar – september 2015


Landsbankinn hagnast um 12 milljarða króna á 3. ársfjórðungi 2015


  -- Hagnaður Landsbankans á 3. ársfjórðungi nam 12 milljörðum króna.
  -- Bakfærð varúðarfærsla vegna gengislána til fyrirtækja skýrir 6,8 milljarða
     króna af hagnaði eftir skatta á 3. ársfjórðungi.
  -- Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins er 24,4 milljarðar króna.
  -- Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánuði ársins er 45,7%, en það var 55,3% á
     sama tímabili í fyrra.
  -- Eigið fé Landsbankans er nú 252,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall (CAR) er
     29,2%, sem er vel yfir 21,8% eiginfjárviðmiði FME.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir: „Afkoma Landsbankans á
fyrstu níu mánuðum ársins er góð, betri en á sama tíma í fyrra. Arðsemi
eiginfjár eftir skatta er 13,5% og fjárhagslegur styrkur bankans er mikill. Á
3. ársfjórðungi munar mikið um áhrif af dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2015
og 35/2015 sem vörðuðu ágreining um gengislán til stærri fyrirtækja. Vegna
fordæmisgildis dómanna bakfærir bankinn varúðarfærslu frá 2012 sem hefur jákvæð
afkomuáhrif upp á 6,8 milljarða króna, eftir skatta. 

Rekstur bankans heldur áfram að batna. Kostnaðarhlutfall er hagstætt, eða
45,7%. Tekjur hafa aukist vegna vaxandi umsvifa og hagstæðra aðstæðna í
hagkerfinu og aðhaldsaðgerðir hafa skilað árangri. Samþætting Sparisjóðs
Norðurlands við bankann gengur vel. 

Fjármögnun bankans hefur styrkst verulega undanfarið með útgáfu skuldabréfa á
erlendum fjármálamarkaði. Þá hafa innlán og útlán aukist töluvert. Búast má við
að nokkuð hægi á útlánavexti á næstu mánuðum og að innlán minnki í kjölfar
samþykkis nauðasamninga hinna föllnu fjármálafyrirtækja og skrefa sem verða
stigin í átt að afnámi fjármagnshafta. Vegna þessa má búast við að
efnahagsreikningur Landsbankans minnki um allt að 10%. Bankinn leggur mikla
áherslu á sterka lausafjárstöðu og er því vel undirbúinn fyrir þessar
breytingar. 

Við í Landsbankanum lítum björtum augum til framtíðar. Við höfum mótað okkur
skýra stefnu sem mun skapa bankanum enn sterkari samkeppnisstöðu,
viðskiptavinum og hluthöfum til góða.“ 



Nánari upplýsingar veita:

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263 / 899
3745 

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7328