2010-06-14 17:47:57 CEST

2010-06-14 17:48:55 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

- Framtakssjóðurinn fjárfestir fyrir 3 milljarða króna í Icelandair Group


Í dag gerði Framtakssjóður Íslands bindandi samkomulag við Icelandair Group hf.
þess efnis að Framtakssjóðurinn muni fjárfesta í fyrirtækinu fyrir 3 milljarða
króna. Samningurinn er gerður með hefðbundnum fyrirvara um niðurstöðu
áreiðanleikakönnunar sem Framtakssjóðurinn mun láta framkvæma á fyrirtækinu. 

Sjóðurinn mun skrá sig fyrir 1,2 milljörðum nýrra hluta á genginu 2,5 - alls
fyrir 3 milljarða króna. Með samningnum skuldbindur Icelandair Group sig til að
afla eins milljarðs króna að markaðsvirði í nýju hlutafé á sama gengi fyrir 31.
júlí nk. en í heild er áætlað að selja hlutafé fyrir 5 milljarða króna.
Samkomulagið miðar við að stærstu lánveitendur Icelandair Group breyti skuldum
að fjárhæð 3,6 milljarðar króna í hlutafé miðað við gengið 5, þannig að þeir
munu skrá sig fyrir 720 milljón nýjum hlutum.  Heildarhlutafjárhækkun mun
þannig nema 8,6 milljörðum króna að söluverði. 

Við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins er gert ráð fyrir að skuldir
þess verði lækkaðar um ríflega 10 milljarða króna m.a. með yfirfærslu og sölu á
tilteknum eignum sem eru ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins, eins og fram
kom í tilkynningu til Kauphallarinnar þann 25. mars sl. Engar skuldir
samstæðunnar verða afskrifaðar. 

Daglegur rekstur samstæðunnar hefur gengið vel að undanförnu, en há
fjármagnsgjöld og miklar skammtímaskuldir hafa haft neikvæð áhrif á stöðu
félagsins. Icelandair Group hefur síðan á síðari hluta ársins 2008 unnið náið
með Íslandsbanka og öðrum lánveitendum að fjárhagslegri endurskipulagningu og
samningurinn markar mikilvægt skref í fjárhagslegri endurskipulagningu
félagsins og tryggir fjárhagslega stöðu þess. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka
var ráðgjafi við söluna. 

Gert er ráð fyrir að fjárfestum og almenningi verði gefinn kostur á að leggja
félaginu til nýtt hlutafé í hlutafjárútboðum síðar á árinu. 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
„Fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group er nú á lokastigum.
Samningurinn við Framtakssjóðinn er afar mikilvægur enda verður hann öflugur
bakhjarl félagsins til framtíðar. Við munum stíga frekari skref til að styrkja
og breikka hluthafahópinn og við erum að undirbúa hlutafjárútboð til annarra
fagfjárfesta og almennings síðar á árinu. Með samningnum við Framtakssjóðinn
styrkist verulega lausafjárstaða okkar og samningar okkar við banka félagsins
munu enn frekar styrkja efnahagsreikning félagsins. Ég er þess fullviss að
samstarf okkar við Framtakssjóðinn mun styrkja Icelandair Group og auka
sóknarfæri ferðaþjónustunnar í náinni framtíð.“ 

Frekari upplýsingar veitir:
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, sími  896-1455