2022-12-01 23:00:00 CET

2022-12-01 23:00:00 CET


Islandic English
Alvotech S.A. - Fyrirtækjafréttir

Alvotech gerir breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins


  • Hafrún Friðriksdóttir, sem áður var framkvæmdastjóri alþjóðlegra rannsókna og þróunar fyrir lyfjafyrirtækið Teva, tekur við sem framkvæmdastjóri rekstrar
  • Mark Levick, forstjóri hefur ákveðið að biðjast lausnar og Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi, tekur við stöðu forstjóra
  • Breytingarnar taka gildi 1. janúar n.k.

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Mark Levick, forstjóri hefur ákveðið að biðjast lausnar og Róbert Wessman, starfandi stjórnaformaður og stofnandi tekur við stöðu forstjóra. Hafrún Friðriksdóttir, sem áður var framkvæmdastjóri alþjóðlegra rannsókna og þróunar fyrir Teva, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar.  Breytingarnar taka gildi 1. janúar n.k.

„Við höldum áfram að laga Alvotech að örum vexti, þar sem við höfum færst af stigi þróunar, rannsókna og fjárfestingar í aðstöðu, yfir í lyfjaframleiðslu og erum að auka framleiðslugetu til að geta þjónað mörgum alþjóðlegum mörkuðum samhliða,“ sagði Róbert Wessman, starfandi stjórnarformaður og stofnandi Alvotech.  „Það er mér sérstök ánægja að bjóða Hafrúnu velkomna í Alvotech teymið. Hún hefur getið sér gott orð í lyfjaiðnaðinum fyrir einstaka forystuhæfileika. Ég vil einnig þakka Mark fyrir framlag hans til Alvotech á þessu vaxtarskeiði og ánægður að við fáum að njóta áfram þekkingar hans, þar sem hann hefur samþykkt að leiða vísindaráð félagsins.“

„Ég er mjög þakklátur fyrir tækifærið að vera hluti af vegferð Alvotech á spennandi skeiði í sögu þess,“ sagði Mark Levick. „Ég varð þess aðnjótandi að vinna með einstaklega einbeittum og hæfileikaríkum samstarfsfélögum, í öllum deildum fyrirtækisins, til að innleiða lyfjaframleiðslu á fullum afköstum og bæta aðgengi sjúklinga að hagstæðum líftæknilyfjum. Þetta hefur verið hápunktur ferils míns í lyfjaiðnaðinum.“

Róbert Wessman mun gegna stöðu forstjóra Alvotech, samhliða núverandi stjórnarformannshlutverki. Róbert stofnaði Alvotech árið 2013 og hefur verið stjórnarformaður frá árinu 2019. Róbert var forstjóri Actavis, sem undir hans stjórn varð að einu stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Að því búnu stofnaði hann Alvogen og undir hans forystu sem stjórnarformaður og forstjóri óx það úr því að vera verktaki í framleiðslu í eitt af stærstu alþjóðlegu samheitalyfjafyrirtækjunum. Róbert er jafnframt einn af stofnendum og stjórnaformaður Aztiq Group. Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Hafrún Friðriksdóttir var ábyrg fyrir öllum rannsóknum og þróunarverkefnum alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Teva (Executive Vice President and Head of Global R&D) frá árinu 2017 þar til fyrr á þessu ári. Hún var einnig framkvæmdastjóri alþjóðlegra rannsókna og þróunar há Allergan, áður Actavis, þar til fyrirtækið sameinaðist Teva árið 2016. Hjá Teva stjórnaði Hafrún allri lyfjaþróun fyrirtækisins, á sviði frumlyfja, samheitalyfja og líftæknilyfjahliðstæða. Hún bar þannig ábyrgð á þróun um 1.000 samheitalyfja á hverjum tíma, auk tuga frumlyfja og líftæknilyfjahliðstæða. Undir Hafrúnu heyrðu um 3.500 starfsmenn alþjóðlega í rannsóknum, þróun, lyfjagát, auk samskipta við heilbrigðisstarfsfólk og eftirlitsstofnanir. Hafrún er með doktorspróf í eðlislyfjafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur verið öflugur talsmaður fjölbreytni og jafnréttis í lyfjaiðnaðinum og hlaut fyrr á þessu ári viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) fyrir að hafa verið konum sérstök hvatning og fyrirmynd.

Um Alvotech

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com