2022-05-25 17:19:50 CEST

2022-05-25 17:19:54 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Brim hf. - Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Uppgjör Brims á fyrsta ársfjórðungi 2022


Starfsemin á 1F2022

  • Loðnuvertíð var mun umfangsmeiri en árið áður.  Veiðar og vinnsla á loðnu gengu bærilega og lönduðu skip Brims um 77.600 tonnum af loðnu á tímabilinu janúar til mars auk þess voru keypt um 10.000 tonn af öðrum skipum.  Vertíðin einkenndist af slæmu veðurfari til sjósóknar sem hafði veruleg áhrif á möguleika skipanna til veiða og gerði að verkum að ekki náðist að veiða um 20.000 tonn af úthlutuðum kvóta félagsins í loðnu.  Loðnu var landað í hrognaskurð og í fiskimjölsverksmiðjurnar á starfsstöðvum félagsins á Akranesi og Vopnafirði. Auk þess var loðnu landað til frystingar á Vopnafirði fyrir markaði í Asíu og A-Evrópu.  Á loðnuvertíðinni var lokað fyrir ótrygga raforku til fiskimjölsverksmiðjunnar á Vopnafirði og þurfti því að keyra hana að stærstum hluta á olíu sem þýddi verulega hækkun á kolefnisspori fiskimjölsverksmiðjunnar.
  • Góð verð voru á botnfiskafurðum en markaðir á sama fjórðungi í fyrra voru erfiðir.
  • Stjórn félagsins samþykkti þann 24. febrúar 2022 að afhenda fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hluti í Brimi í samræmi við starfsaldur hjá félaginu.  Verðmæti hlutanna miðaðist við loka viðskiptagengi þann dag og hefur heildarkostnaður að fjárhæð 580 milljónir  króna verið gjaldfærður undir öðrum rekstrarkostnaði í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs. 

Helsta atriði úr fjárhagsuppgjöri 1F 2022

  • Vörusala var 94 m€ á fjórðungnum samanborið við 71 m€ á fyrsta fjórðungi 2021
  • Hagnaður var 26 m€ á fjórðungnum samanborið við 11 m€ á fyrsta fjórðungi 2021
  • EBITDA var 36 m€ og EBITDA hlutfall 38,6%
  • Eignir hækkuðu um 55 m€ frá áramótum og voru 851 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 31. mars 2022 var 398 m€ og eignfjárhlutfall 46,8%

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Starfsemi og rekstur Brims gekk vel á fyrsta ársfjórðungi þessa árs þrátt fyrir rysjótt veður til sjós og óvissu á mörkuðum vegna stríðs í Evrópu. Starfsfólk félagsins býr að mikilli reynslu og kann að takast á við óvæntar og krefjandi aðstæður eins og kom í ljós í enn eitt skiptið á fjórðungnum, en sveiflur eru alltaf í sjávarútvegi. Bætt fjárhagsleg afkoma og aukinn rekstrarhagnaður félagsins skýrist af stórri loðnuvertíð og góðum afurðaverðum, en kolefnisspor félagsins jókst hins vegar, aðallega vegna raforkuskorts hjá verksmiðju okkar á Vopnafirði. Stjórn Brims ákvað fyrr á árinu að verðlauna starfsfólk sérstaklega, fyrir vel unnin störf við óvenjulegar og krefjandi aðstæður undanfarin ár, með því að afhenda þeim eignarhluti í félaginu. Heildarfjöldi þessara hluta er um 4,4 milljónir og var þeim skipt á milli starfsmanna eftir starfsaldri. Auk þess greiddi Brim launabónus til að mæta tekjuskatti starfsmanna vegna hlunnindanna, samtals eru þetta um 580 milljónir króna sem eru gjaldfærðar í árshlutareikningnum.“

Rekstur
Seldar vörur námu á 1F 2022 94 m€ samanborið við 71 m€ árið áður. Hækkun rekstrartekna má rekja til mun umfangsmeiri loðnuvertíðar en árið áður, en vörusala á mjöli og lýsi var um 20 m€ hærri á 1F 2022 en 2021.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 36 m€ eða 38,6% af rekstrartekjum, en var 19 m€ eða 26,9% árið áður.

Nettó fjármagnskostnaður var 0,8 m€ en var 1,1 m€ á fyrsta fjórðungi 2021.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 32 m€, samanborið við 14 m€ á fyrsta fjórðungi 2021. Tekjuskattur nam 6 m€, en var 3 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 26 m€ en var 11 m€ árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 851 m€ í lok 1F 2022. Þar af voru fastafjármunir 629 m€ og veltufjármunir 222 m€. Breyting á veltufjármunum má einkum rekja til hærri birgðastöðu vegna loðnuvertíðar, en viðskiptakröfur hækkuðu einnig frá áramótum.

Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 398 m€ og var eiginfjárhlutfall 46,8%, en var 50,0% í lok árs 2021. Heildarskuldir félagsins voru 453 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 55 m€ frá áramótum.  Hækkun skammtímaskulda má meðal annars rekja til skuldfærslu arðs að fjárhæð 29 m€, en arðurinn var samþykktur á aðalfundi 24. mars og greiddur þann 29. apríl.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 9 m€ á fyrsta fjórðungi ársins, en var 15 m€ á fyrsta fjórðungi 2021.  Fjárfestingarhreyfingar voru 3 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 11 m€. Handbært fé hækkaði því um 16 m€ og var 93 m€ í lok tímabilsins.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta fjórðungs árins 2022 (1 evra = 143,9 ísk) voru tekjur 13,5 milljarðar króna, EBITDA 5,2 milljarðar og hagnaður 3,8 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2022 (1 evra = 142,0 ísk) voru eignir samtals 120,8 milljarðar króna, skuldir 64,3 milljarðar og eigið fé 56,5 milljarðar.

Hluthafar

Lokaverð hlutabréfa 31. mars 2022 var 95 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 183 milljarðar króna.  Fjöldi hluthafa var 1.337.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 25. maí 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur þann 25. maí 2022

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn að Norðurgarði 1 miðvikudaginn 25. maí klukkan 16:15, þar mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynna uppgjörið.  Fundinum verður jafnframt streymt og hægt verður að fylgjast með honum á  fundinum á  www.brim.is/streymi. Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is. Aðsendum spurningum verður svarað í lok fundar.

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Annar ársfjórðungur               25. ágúst 2022
Þriðji ársfjórðungur                 17. nóvember 2022
Fjórði ársfjórðungur                24. febrúar 2023

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi