2013-11-17 21:59:57 CET

2013-11-17 22:00:57 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Reginn hf. - Fyrirtækjafréttir

Tilkynning um undirritun Regins hf. á samkomulagi um kaup á hlutabréfum í Klasa fasteignum ehf.


Undirritað var þann 16. nóvember sl. samkomulag milli Regins hf. og eigenda
fasteignafélagsins Klasa fasteigna ehf. um sölu á öllum hlutum í félaginu til
Regins hf. 

Kaupin á félaginu miðast við að heildarvirði Klasa sé 8.250 m.kr. og að greitt
verði fyrir eignarhluti í félaginu með hlutafé í Reginn hf.  að nafnverði
128.700.000 kr. auk peningagreiðslu. Nýtt hlutafé í Reginn hf. sem sérstaklega
þarf að gefa út vegna kaupanna miðast við fast gengi 13,63 krónur á hlut sem
var lokagengi þann 15. nóvember sl.  í Kauphöll. 

Fjárhagsstaða Klasa er sterk, útleiguhlutfall er hátt og leigutekjur góðar eða
yfir 700 m.kr á ársgrundvelli.  Félagið er fjármagnað með skráðum
skuldabréfaflokki, KLS1, fagfjárfestasjóði í vörslu Stefnis hf.   Fasteignasafn
Klasa, sem Reginn hf. eignast verði af kaupunum, telur 9 fasteignir og er
heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins um 28.500 fermetrar.  Fasteignirnar eru
eftirfarandi: 

Skútuvogur 2,  Bíldshöfði 9 (7. hæð),  Síðumúli 7-9 (hluti) og Síðumúli 28,
Guðríðarstígur 6-8 og Hádegismóar 4, allar staðsettar í Reykjavík. 

Litlatún 3 og Garðatorg 1 í Garðabæ.

Eyrartröð 2a í Hafnafirði.

Leigutakar eru um 30 talsins. Helstu leigutakar eru Vodafone, Hagkaup, Árvakur,
Garðabær og Víðir. Safnið er einkar glæsilegt og vel við haldið og eignirnar
sem um er að ræða eru allar í 100% eigu félagsins utan Síðumúla 7-9 og
Bíldshöfða. 

Undirritað samkomulag aðilanna er með fyrirvara um að niðurstaða
áreiðanleikakannana leiði ekki í ljós atriði sem breyta að verulegu leyti því
mati Regins sem lagt er til grundvallar kaupunum. Auk þess er fyrirvari um að
hluthafafundur í Reginn hf. falli frá forgangsrétti til áskriftar á hinu nýja
hlutafé, samþykki Samkeppniseftirlitsins og að nýtt hlutafé verði skráð í
Kauphöll. 

Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um rúmlega 20% miðað við
útgefna rekstrarspá fyrir 2014 og eignasafn stækki um 15%.  Kaupin eru í
samræmi við  fjárfestingastefnu Regins hf. sem felur í sér markmið um að auka
hlutdeild í skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði og stækkun með innri vexti og
fjárfestingu í arðbæru atvinnuhúsnæði. 

Núverandi eigendur Klasa eru einkafjárfestar með mikla reynslu og sérþekkingu á
því sviði sem Reginn starfar á. Nýr eignarhlutur í Reginn ef af verður yrði um
9%.   Sigla ehf. er seljandi 95% hlutar Í Klasa fasteignum og mun eftir
viðskiptin eignast um 8,6% hlut í Reginn og yrði því með stærstu hluthöfum í
félaginu.  Sigla lítur á viðskiptin sem langtímafjárfestingu í Reginn hf. og
hefur því samþykkt sölubann á hlutum sínum í félaginu í 9 mánuði frá
greiðsludegi. 

„ Eigendur Klasa fasteigna fagna því að ganga til liðs við Reginn hf.  sem
hefur haft forystu í því að byggja upp fasteignafélag með breiðu eignarhaldi
fagfjárfesta og almennings. 

Klasa fasteignum hefur verið stýrt af Klasa ehf. sem hefur undanfarin misseri
lagt aukna áherslu á fasteignaþróunarverkefni, bæði fyrir tengd félög og fyrir
þriðja aðila.  Á vegum Klasa er nú m.a. unnið að uppbyggingu í miðbæ Garðabæjar
og við Mánatún í Reykjavík og í undirbúningi er mikil uppbygging á lóðum við
Elliðaárvog.   Undanfarið hefur starfsemi Klasa í fasteignaþróun aukist mikið
m.a. vegna nýrra samstarfssamninga við umsvifamikla fjárfesta og stefnt er að
frekari vexti í fasteignaþróun í kjölfar þessara viðskipta.“ Segja Tómas
Kristjánsson og Finnur Reyr Stefánsson eigendur Siglu ehf. 

Ráðgjafi Reginn hf. í viðskiptum þessum er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans  og
ráðgjafi Klasa fasteigna ehf. er Arctica Finance. 

„Með kaupunum á Klasa fasteignum heldur Reginn áfram að eflast og stækka í
samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins.  Safn Klasa fasteigna hentar mjög
vel inn í rekstur Regins. Reynslumiklir eigendur Klasa munu styrkja eigendahóp
Regins enn frekar.“ segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins hf. 

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

S: 512 8900 / 899 6262