2011-11-30 09:11:36 CET

2011-11-30 09:12:39 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Kópavogsbær - Fyrirtækjafréttir

Fjárhagsáætlun 2012


Áfram aðhald í rekstri

Í tillögu að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2012, sem lögð var fram
til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi síðdegis í dag, er gert ráð fyrir 105,6
milljóna króna rekstrarafgangi af samstæðu. Sjö af ellefu bæjarfulltrúum standa
að fjárhagsáætluninni eða fulltrúar þeirra fjögurra framboða sem mynda
meirihluta í bænum auk fulltrúa Framsóknarflokksins. 

Í áætluninni er áfram gert ráð fyrir þéttu aðhaldi í rekstri bæjarins en ekki
miklum niðurskurði. Rekstur bæjarins er samkvæmt áætluninni að styrkjast en
framlegð samstæðu er áætluð tæplega 20%. Sem fyrr er lögð áhersla á að standa
vörð um grunnþjónustuna, leikskólana, grunnskólana og félagsþjónustuna. 

Áfram verður unnið að þeim markmiðum sem sett voru við gerð síðustu
fjárhagsáætlunar en samkvæmt þeim á að greiða inn á skuldir bæjarsjóðs að
minnsta kosti milljarð á ári á næstu árum og stefna að því að veltufé frá
rekstri samstæðu verði að minnsta kosti 1,5 milljarðar á ári næstu árin. Í
áætlun ársins 2012 verður niðurgreiðsla skulda um 1,4 milljarðar og veltufé frá
rekstri samstæðu rúmir 2,4 milljarðar. 

Gert er ráð fyrir því að tekjur aukist á næsta ári vegna nýgerðra kjarasamninga
en að útgjöld aukist mikið að sama skapi vegna samninganna sem og vegna
verðbólgu á árinu sem er að líða. 

Reiknað er með að ýmis álögð gjöld hækki til að standa undir auknum
rekstrarkostnaði en að álagningahlutfall fasteignagjalda verði óbreytt.