2012-08-13 20:08:08 CEST

2012-08-13 20:09:11 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eyrir Invest ehf. - Ársreikningur

Eyrir Invest kynnir afkomu á fyrri árshelmingi 2012


Traust fjárhagsstaða og áframhaldandi virðisaukning

  -- Hagnaður á fyrri árshelmingi 2012 nam 18 milljónum evra [H1 2011; -13
     milljónir]
  -- Nettó virði eigna nemur nú 20,3 evrusentum á hlut samanborið við 18,3
     evrusenta virði á hlut í ársbyrjun
  -- Nettó virði eigna hinn 30. júní 2012 var 205 milljónir evra og jókst um 2
     milljónir frá ársbyrjun. Eyrir keypti 9% eigin bréfa á tímabilinu fyrir 16
     milljónir evra
  -- Heildareignir eru 380 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið er 54%
     samanborið við 51% í ársbyrjun.  Sjóðstaða um mitt ár er 1 milljón evra. 
     Eftir lok uppgjörstímabilsins hefur Eyrir tryggt sér langtímafjármögnun að
     fjárhæð 22 milljónir evra.
  -- Stjórn Eyris hefur ákveðið að selja eigin bréf til þess að styrkja fjárhag
     félagsins enn frekar

Kjölfestueignir Eyris eru 33% hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og
rekur iðnfyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. Á síðustu
árum hefur Eyrir aukið vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu. 

Mikilvægt skref var stigið í ágúst 2012 þegar Stork Technical Services og
Fokker réðust í sjálfstæðar langtímafjármagnanir.  Eyrir leggur STS og Fokker
til allt að 23 milljónir evra í formi nýs hlutafjár í tengslum við
endurfjármögnun félaganna.  Fjárhagur lykileigna Eyris er traustur og í samræmi
við stefnu og alþjóðleg viðmið með nettó skuldsetningu 2-4x EBITDA. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við erum ánægð með góða afkomu og trausta fjárhagsstöðu.  Ójöfnuður í
efnahagsmálum á heimsvísu skapar krefjandi rekstrarskilyrði og fjármálamarkaðir
eru almennt veikburða. 

Rekstrarfélög okkar hafa vaxið með sókn á nýja markaði á undanförnum árum,
jafnt með innri vexti og stefnumarkandi yfirtökum. Mikilsverðum áfanga var náð
nú í ágúst þegar Stork Technical Services og Fokker Technologies réðust í
sjálfstæðar langtímafjármagnanir.  Með nýrri fjármögnun skapast aukinn
sveigjanleiki í rekstri og unnt er að ljúka að fullu samþættingu RBG inn í
rekstur Stork Technical Services. 

Lykilfélög okkar eru vel staðsett í atvinnugreinum með góðan undirliggjandi
vöxt og horft til framtíðar erum við hóflega bjartsýn.“ 


Rekstrarreikningur                                                              
(í þús. evra)                              2012/6m        2011  2011/6m     2010
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur:                                                                 
Afkoma af verðbréfum                        24.513     -30.977  -15.165   64.851
Arðstekjur                                   2.489           0        0        0
Tekjur v/br. reikningsskilaaðferðar              0      30.107        0        0
 hlutdeildar-                                                                   
félags                                                                          
Afkoma hlutdeildarfélaga                         0      11.650    2.583    7.491
Vaxtagjöld, nettó                           -5.115     -12.920   -5.487  -15.873
Gengismunur                                 -2.727       4.763    5.531   -3.254
                                           -------------------------------------
                    Hreinar rekstrartekjur  19.160       2.623  -12.538   53.215
Rekstrargjöld:                                                                  
Laun og launatengd gjöld                       527         934      451      836
Annar rekstrarkostnaður                        303         732      370      560
                                           -------------------------------------
                                           -------------------------------------
                             Rekstrargjöld     830       1.666      821    1.396
                        Afkoma tímabilsins  18.330         957  -13.359   51.819
                                           -------------------------------------
     Rekstrarliðir færðir beint á eigið fé    -368        -488     -190  -18.639
                                   samtals                                      
                                           -------------------------------------
                 Heildarafkoma tímabilsins  17.962         469  -13.549   33.180
                                           -------------------------------------
Hagn. á hlut, evrusent (hver hlutur 1 ISK)    1,75        0,09    -1,33     5,14
                                           -------------------------------------
 Heildarhagn á hlut, evrusent (hver hlutur    1,71        0,05    -1,34     3,29
                                    1 ISK)                                      
                                           -------------------------------------
Efnahagsreikningur                                                              
Eignir:                                    2012/6m     2011     2011/6m     2010
                                        ----------------------------------------
Handbært fé og bundnar bankainnistæður         772   10.474      12.274   22.758
Hlutafjárloforð                                  0   15.377           0        0
Fjárfestingaverðbréf                       373.837  364.931     174.320  256.835
Hlutdeildarfélög                                 0        0     167.533  143.602
Aðrar kröfur                                 2.992    2.282       2.764    1.201
Rekstrarfjármunir                            2.045    2.082       2.126    2.050
                                        ----------------------------------------
                         Eignir samtals    379.646  395.146     359.017  426.446
                                        ----------------------------------------
                                        ----------------------------------------
Eigið fé og skuldir:                                                            
Eigið fé                                   204.880  202.493     173.098  186.648
Ýmsar skuldir                                  203      239         226    1.908
Lántaka                                    174.563  192.414     185.693  237.890
                                        ----------------------------------------
            Eigið fé og skuldir samtals    379.646  395.146     359.017  426.446
                                        ----------------------------------------
Eiginfjárhlutfall                            54,0%    51,2%       48,2%    43,8%



Lykileignir Eyris

Lykileignir Eyris eru færðar til bókar á gangvirði (e. fair value) eða á
markaðsvirði í samræmi við uppgjörsaðferðir alþjóðlegra fjárfestingarfélaga.
Lykileignir nema yfir 90% heildareigna Eyris. Hlutabréf Marel eru skráð á
Nasdaq OMX Iceland. Stork er óskráð félag, bókað á gangvirði sem metið er á
grundvelli kennitalna á markaði og í viðskiptum með sambærileg félög. Á
tímabilinu nam hagnaður Eyris af hlutabréfum í Marel um 45 milljónum evra, en
17% eignarhlutur Eyris í Stork var færður niður um 19 milljónir evra vegna
markaðsaðstæðna í Evrópu. 

Helstu viðburðir á fyrri árshelmingi

18% innri vöxtur hjá Marel

Tekjur Marel á fyrri árshelmingi námu 371 milljón evra og jukust um 18%
samanborið við sama tímabil árið á undan.  EBITDA var 46 milljónir evra en
rekstrar EBITDA nam 44 milljónum á fyrri árshelmingi 2011. Hagnaður eftir
skatta var 20 milljónir evra samanborið við 9 milljónir á sama tíma árið á
undan. 

Eyrir fékk greiddar 2,5 milljónir evra í arð frá Marel á H1 2011 vegna
rekstrarársins 2011. Gengi hlutabréfa Marel var 96 evrusent hinn 30. júní 2012,
21% hærra en í ársbyrjun.  Gengi hlutabréfa Marel er nú 98 evrusent. 

Eyrir hefur verið kjölfestueigandi í Marel frá árinu 2005 og hefur gegnt
lykilhlutverki í að móta núverandi vaxtastefnu Marels og stutt stjórnendur
félagsins við að hrinda henni í framkvæmd. Á undanförnum árum hefur Marel
skilað góðum vexti og styrkt leiðandi stöðu sína á markaði með þeirri stefnu að
fjárfesta vel í rannsóknum og þróun sem og markaðssókn. Í dag er gott jafnvægi
í sölu hjá Marel og félagið er vel staðsett til þess að njóta góðs af
undirliggjandi vexti atvinnugreinarinnar. 

Stork Technical Services (STS) og Fokker endurfjármögnuð á H2 2012

Í ágúst 2012 réðst Stork í endurfjármögnun rekstrarfélaga sinna, STS og Fokker.
 Með sjálfstæðri fjármögnun hvors félags um sig eykst sveigjanleiki í daglegum
rekstri og aukin tækifæri skapast fyrir félögin til að vaxa á eigin forsendum. 
Fjármögnunin gerir einnig unnt að ljúka að fullu samþættingu á rekstri RGB inn
í STS. Í endurfjármögnuninni felst einnig eiginfjárframlag frá núverandi
hluthöfum og mun Eyrir Invest leggja fram allt að 23 milljónir evra. 

Stork Technical Services;

Stork Technical Services er alþjóðlegt fyrirtæki í þjónustu við olíu-, gas- og
orkuiðnað.  Rekstur STS, að meðtöldum rekstri RBG, er í takt við
rekstrarárangur á sama tímabili árið á undan, þó misjafnt eftir deildum. 
Reksturinn er þyngri á hefðbundnum mörkuðum á meginlandi Evrópu en RBG, með
áherslu á Norðursjó og alþjóðlega markaði, sýnir betri rekstrarárangur en árið
á undan. 

Samanlögð velta STS og RBG árið 2011 var liðlega 1,3 milljarður evra með um 95
milljónir evra í EBITDA. Hjá STS starfa um 14.300 starfsmenn á starfsstöðvum
félagsins í Evrópu, Afríku, Miðausturlöndum, Asíu og Ameríku. 

Fokker Technologies;

Fokker Technologies hannar og framleiðir íhluti og kerfi fyrir flugiðnaðinn í
heiminum og rekur þróunarsetur og verksmiðjur í Hollandi, Tyrklandi, Ameríku og
Asíu. Félagið veitir einnig heildstæða þjónustu og framleiðir vörur fyrir
eigendur og rekstraraðila flugfara um allan heim. Velta Fokker á árinu 2011 nam
um 685 milljónum evra og EBITDA var 74 milljónir.  Rekstur Fokker það sem af er
ári er í samræmi við áætlanir. 

Fjármögnun

Í mars keypti Eyrir eigin hlutabréf sem nema 9% af heildarútgefnu hlutafé
félagins fyrir 16 milljónir evra. Heildarútgefið hlutafé í Eyri Invest er um
1.108 milljónir hlutir, þar af eru 100 milljónir eigin bréf.  Stærstu hluthafar
eru Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson og félög að fullu í þeirra eigu
með ríflega 34% hlut í Eyrir Invest. 

Á fyrri árshelmingi 2012 greiddi Eyrir upp skuldabréfaflokkinn EYRI 05 1, alls
að fjárhæð2.540 milljónir ISK (16 milljónir EUR).  Á H1 2012 voru skuldabréf
Eyris, EYRI 11 1, að nafnvirði 1.012,5 króna (6 milljónir evra) tekin til
viðskipta á NASDAQ OMX Iceland en bréfin voru gefin út árið 2011. 

Í júlí tilkynnti Eyrir um langtímafjármögnun frá innlendum bönkum að andvirði
samtals 2.100 milljónir íslenskra króna, með lokagjalddaga 2017. 

Til viðbótar við ofangreint og áður tilkynnt hefur Eyrir Invest nú í ágúst
tryggt sér 8,5 milljóna evru lán hjá innlendum banka. Lánið ber LIBOR + 4,2%
vexti. Höfuðstóll og vextir eru á gjalddaga í ágúst 2013. Lánið, sem er tryggt
með veðum í óskráðum hlutabréfum, verður nýtt til lausafjárstýringar og
stuðnings við núverandi fjárfestingar. 

Horfur

Horft fram á veginn er búist við góðum vexti og virðisaukningu í þeim
atvinnugreinum sem kjölfestueignir Eyris Invest starfa í; matvæla-, orku- og
flugiðnaði. Á síðastliðnum árum hafa lykilfélög Eyris stöðugt styrkt
markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta góðs af efnahagsbata á
heimsvísu.   Afkoma getur verið breytileg frá ári til árs. 



Um Eyrir Invest

Eyrir er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem leggur ríka áherslu á virka þátttöku
í rekstri og stefnumörkun lykileigna sinna. Kjölfestueignir Eyris eru 33%
hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur iðnfyrirtækin Stork
Technical Services og Fokker Technologies. Á síðustu árum hefur Eyrir aukið
vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu sem nú verður gert hærra undir höfði
í gegnum félagið Eyrir sprotar slhf. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris
hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins um mitt ár 2000. 

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og
áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna
við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif
að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
þetta varðar.