2024-04-15 19:10:56 CEST

2024-04-15 19:10:57 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Mosfellsbær - Ársreikningur

341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar



Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljónir.

Reksturinn er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun en árið einkenndist af miklum framkvæmdum, meðal annars byggingu nýs leikskóla, endurbótum á Kvíslarskóla, byggingu íþróttahúss og gatnagerð. Þá tók Mosfellsbær yfir rekstur Skálatúns, heimilis fyrir fatlaða íbúa þann 1. júlí 2023 en á Skálatúni búa 32 íbúar og starfsmenn eru 110 í 70 stöðugildum.

Tekjur ársins námu alls 20.305 milljónum, launakostnaður 9.466 milljónum, hækkun
lífeyrisskuldbindinga 433 milljónum og annar rekstrarkostnaður var 7.721 milljónir og nemur framlegð því 2.684 milljónum. Afskriftir voru 590 milljónir og nam rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði 2.095 milljónum. Fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og tekjuskattur námu 1.733 milljónum og var rekstrarniðurstaða ársins því jákvæð um 341 milljón. Veltufé frá rekstri var 1.935 milljónir eða 9,5% af tekjum.

Eigið fé í árslok nam 7.757 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 24,3%. Skuldaviðmið er 94,5% og er því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Kostnaður vegna verðbóta nam 1.285 milljónum eða 330 milljónum meira en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þá nam kostnaður vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga 433 milljónum.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 13.403 þann 1. janúar 2024. Mosfellsbær er sem fyrr sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 945 starfsmenn í 782 stöðugildum í árslok 2023.

Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkurinn og til hans var varið 8.066 milljónum eða 51,5% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 3.434 milljónum eða 21,9% skatttekna og eru þar með talin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundarmál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.722 milljónum eða 10,9% skatttekna.

Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 24. apríl 2024 og gert er ráð fyrir því að seinni umræða í bæjarstjórn fari fram þann 8. maí.

,,Ársreikningurinn sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins en skuldaviðmiðið er að lækka úr 104,4 % í 94,5 % á milli ára. Á sama tíma erum við vissulega að kljást við verðbólgu og háa vexti sem er áskorun fyrir sveitarfélag í örum vexti. Við leggjum áherslu á að veita góða þjónustu og við erum með einna lægstu gjöldin þegar kemur að þjónustu við barnafjölskyldur“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Nánari upplýsingar veitir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri í síma 525-6700 eða í gegnum netfangið regina@mos.is

Viðhengi