2015-02-06 10:26:20 CET

2015-02-06 10:27:20 CET


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska
Hampiðjan hf. - Company Announcement (is)

Hampiðjan stofnar sölufyrirtæki í Ástralíu


Hampiðjan hefur ákveðið að stofna sölufyrirtæki í Brisbane á austurströnd
Ástralíu til að sinna þörfum markaðarins fyrir net, kaðla og ofurtóg.   Um
árabil hefur Hampiðjan rekið fyrirtækið Hampidjan New Zealand á tveim stöðum á
Nýja Sjálandi og hefur það fyrirtæki selt inn á ástralska markaðinn.  Vegna
fjarlægðar og dýrra flutninga hefur það ekki skilað tilætluðum árangri og því
er það skref stigið að stofna nýtt fyrirtæki á þessu markaðssvæði.   Fyrirtækið
á Nýja Sjálandi verður rekið með óbreyttu sniði og getur nú einbeitt sér að
fullu að markaðinum þar. 



Fyrirtækið, sem mun bera nafnið Hampidjan Australia, verður stofnað í samstarfi
við Þorstein Benediktsson sem hefur búið og unnið í Ástralíu undanfarin átta ár
og rekið þar fyrirtæki sem hafa sinnt sjávarútvegi og selt vörur til útgerða
með góðum árangri.   Hampiðjan mun eiga 80% af hlutafé nýja fyrirtækisins og
Þorsteinn 20%.  Þorsteinn Benediktsson mun einnig verða framkvæmdastjóri
fyrirtækisins.   Samhliða því að selja vörur Hampiðjunnar mun Hampidjan
Australía selja vörur til útgerðar frá öðrum framleiðendum. 



Fyrir utan sölu til sjávarútvegs undanfarin ár hefur Hampiðjan selt töluvert af
ofurtógi á skútumarkaðinn í Ástralíu og í olíuiðnaðinn sem er vestantil við
Ástralíu. 



Þess er vænst að starfsemin hefjist í lok þessa mánaðar og byggist upp að mestu
innan þessa árs. 



Nánari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson í síma 6643361.