2013-08-16 14:21:50 CEST

2013-08-16 14:22:52 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Landsbréf hf. - Ársreikningur

Árshlutauppgjör Landsbréfa 30.06.2013


53 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi 2013 - eignir í stýringu jukust um 19% og
námu tæpum 100 milljörðum 

Landsbréf hafa birt árshlutareikning vegna fyrri árshelmings 2013.  Í lok júní
önnuðust Landsbréf hf. rekstur 27 sjóða og félaga um sameiginlega fjárfestingu
og voru eignir í stýringu um 99 milljarðar króna og höfðu aukist um 19% það sem
af er ári. Alls eru um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í
sjóðum eða í eignastýringu hjá Landsbréfum. 

  -- Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 53 milljónum króna á fyrri hluta ársins
     2013, samanborið við 7 milljóna króna hagnað fyrir allt rekstrarárið 2012.
  -- Hreinar rekstrartekjur námu 434 milljónum króna á tímabilinu, en námu 438
     milljónum króna allt rekstrarárið 2012.
  -- Á aðalfundi félagsins var ákveðið að auka eigið fé félagsins um 750
     milljónir króna með hækkun hlutafjár og var það greitt inn á tímabilinu.
  -- Eigið fé Landsbréfa í lok júní nam um 1.510 milljónum króna og var
     eiginfjárhlutfall 94,8%, en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8,0%
     samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Landsbréf bjóða mjög fjölbreytt og vaxandi úrval sjóða. Umsvif í rekstri
framtakssjóða hafa aukist verulega það sem af er ári. Má þar nefna sérstaklega
Horn II slhf. sem er 8,5 milljarða króna framtakssjóður sem fjárfestir í öllum
geirum íslensks atvinnulífs og einnig Landsbréf - Icelandic Tourism Fund I
slhf. (ITF I) sem er rúmlega tveggja milljarða króna framtakssjóður sem
sérhæfir sig í fjárfestingum tengdum ferðaþjónustu, einkum nýrri afþreyingu
fyrir ferðamenn. Eignir í stýringu í framtakssjóðum Landsbréfa voru í lok júní
2013 alls um 38 milljarðar króna og þar af eru nýjar eignir í stýringu 10,5
milljarðar króna. 

Landsbréf reka tvo hlutabréfasjóði, sem fjárfesta á íslenskum
hlutabréfamarkaði, Landsbréf - Úrvalsbréf og Landsbréf - Öndvegisbréf. Ávöxtun
Úrvalsbréfa á tímabilinu var 11,0% eða 4,9% umfram OMXI6ISK vísitöluna, sem er
viðmið sjóðsins.  Sjóðurinn var 7,7 milljarðar króna í lok tímabilsins. Ávöxtun
Öndvegisbréfa var 11,9% eða 4,3% umfram OMXIPI vísitöluna, sem er viðmið
sjóðsins. Sjóðurinn var 3,2 milljarðar króna í lok tímabilsins.  Sjóðirnir
tveir stækkuðu um 54% á tímabilinu eða um 3,8 milljarða króna. 

Tveir erlendir hlutabréfasjóðir eru í rekstri Landsbréfa og var ávöxtun
Landsbréf - Global Equity Fund -0,3% á tímabilinu sem er 3,6% minni en MSCI
World Index vísitalan sem er viðmið sjóðsins.  Sjóðurinn var 2,8 milljarðar
króna í lok tímabilsins. Ávöxtun Landsbréf - Nordic 40 var tæp 4% á tímabilinu
sem er rúmum 2% meira en ávöxtun OMXN40 vísitölunnar sem er viðmið sjóðsins.
Sjóðurinn var 960 þúsund evrur í lok tímabilsins. 

Landsbréf reka nokkra ríkisskuldabréfasjóði og hefur ávöxtun þeirra verið mjög
góð það sem af er ári. Landsbréf - Sparibréf óverðtryggð voru til að mynda með
hæstu ávöxtun allra ríkisskuldabréfasjóða fyrstu sex mánuði ársins eða 6,1%.
Aðrir Sparibréfasjóðir hafa einnig náð góðum árangri og oftar en ekki gefið
betri ávöxtun en sambærilegir sjóðir. Sjóðirnir hafa minnkað lítillega það sem
af er ári og stafar það af færslu í aðra eignaflokka. 

Landsbréf reka einn sjóð, Landsbréf - Markaðsbréf, sem fjárfestir í dreifðu
safni skuldabréfa útgefnum af ríki, sveitarfélögum, fjármálastofnunum og öðrum
fyrirtækjum. Innflæði hefur verið töluvert í sjóðinn samhliða aukinni útgáfu og
stækkaði sjóðurinn um rúm 33% á fyrri hluta ársins. Ávöxtun sjóðsins hefur
verið mjög góð og er hann með bestu ávöxtun blandaðra skuldabréfasjóða eða
4,4%. 

Landsbréf reka þrjá blandaða sjóði; Landsbréf - Eignabréf, Landsbréf -
Einkabréf B og Landsbréf - Einkabréf C sem fjárfesta í nokkrum eignaflokkum,
einkum skráðum hlutabréfum og skuldabréfum. Tveir af sjóðunum þremur voru
stofnaðir á þessu ári. Blönduðu sjóðirnir hafa nú náð rúmum milljarði króna í
stærð. Ávöxtun Eignabréfa var um 8,5% sem er vel yfir viðmiðum. 
Einkabréfasjóðirnir störfuðu ekki allt tímabilið en ávöxtun þeirra er yfir
viðmiðum. 

Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa:

„Rekstur Landsbréfa hefur gengið vel það sem af er ári og hafa sjóðir félagsins
skilað góðum árangri fyrir fjárfesta. Mikið starf hefur verið unnið á árinu við
þróun nýrra afurða og má nefna sem dæmi  að Landsbréf luku fjármögnun
framtakssjóðanna Horn II og ITF I fyrir yfir 10,5 milljarða króna sem búast má
við að verði virkir í íslensku atvinnulífi á næstu árum. Þann 15. ágúst var
kauphallarsjóðurinn Landsbréf - LEQ tekinn til viðskipta í kauphöllinni en
kauphallarsjóðir hafa notið vaxandi vinsælda erlendis og er ekki ástæða til að
ætla annað en að þróunin verði á sama veg hér á landi. Þá fengu Landsbréf góða
viðurkenningu nú í sumar þegar Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta
valdi Landsbréf hf. sem einn þriggja aðila til að stýra eignum sjóðsins. Var sú
ákvörðun tekin að undangengnu útboði og ítarlegu hæfismati á tíu
fjármálafyrirtækjum sem sóttumst eftir því verkefni. Landsbréf hafa nú um 100
milljarða í stýringu og hafa markað sér sess sem vaxandi rekstrarfélag á
íslenskum verðbréfamarkaði þar sem félagið leitast við að vera hreyfiafl í
íslensku samfélagi sem með virkri eignastýringu brúar bilið á milli sparnaðar
og fjármögnunar.“ 

Frekari upplýsingar veitir Sigþór Jónsson í síma 410 2500.