2014-04-04 11:03:43 CEST

2014-04-04 11:04:44 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Garðabær - Ársreikningur

Ársreikningur Garðabæjar - Traustur fjárhagur nýs sveitarfélags


Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2013 er mun betri en áætlanir
gerðu ráð fyrir, eftir fyrsta árið í rekstri sameinaðs sveitarfélags Garðabæjar
og Álftaness. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 490 m.kr. og skuldahlutfallið er
98%. Þessi góða niðurstaða og aðrar kennitölur úr rekstrinum sýna að sameining
sveitarfélaganna hefur gengið vel. 



Til samanburðar gerði fjárhagsáætlun ársins ráð fyrir að niðurstaðan yrði
jákvæð um 225 m.kr. og í greinargerð sem lögð var fram fyrir kosningarnar var
gert ráð fyrir að skuldahlutfallið yrði 116% árið 2013. 



Gunnar Einarsson, bæjarstjóri er afar ánægður með þessa útkomu og þakkar hana
samhentu starfsliði bæjarins, aga í rekstri og skýrri stefnumörkun. „Ég er
sérlega ánægður með að geta lagt fram ársreikning 2013 sem sýnir ekki aðeins að
allar áætlanir um rekstur nýs sveitarfélags hafa gengið eftir heldur höfum við
gert enn betur en þær gerðu ráð fyrir. Niðurstaðan sýnir að við höfum staðið
undir því trausti sem íbúar sýndu okkur með því að samþykkja sameininguna. Það
hefur gerst með skýrri stefnumörkun, aga í rekstrinum og því að allt starfsfólk
bæjarins ásamt bæjarfulltrúum hefur verið samhent í að láta áætlanir ganga
eftir. Það sem er enn betra, er að þetta höfum við gert án þess að auka álögur
á íbúa eða draga úr þjónustunni en Garðbæingar greiða enn lægsta útsvarið á
höfuðborgarsvæðinu og þótt víða væri leitað, á meðal stærri sveitarfélaga
landsins.“ 



Gunnar bendir einnig á að fjárhagsáætlun ársins 2013 hafi staðist vel, sem sé
eftirtektarvert eftir jafn umfangsmiklar breytingar á rekstrinum. „Til
fræðslumála var varið ríflega 4.240 m.kr. eða 51% af skatttekjum og er það 30
m.kr. lægri upphæð en áætlað var.  Til félagsþjónustu var varið tæpum 870 m.kr.
sem er 12% undir áætlun. Til æskulýðs- og íþróttamála var varið 1.112 m.kr. sem
er 3% yfir áætlun. Til þessara þriggja málaflokka er varið rúmlega 75% af
skattfé Garðbæinga.“ 



Skuldahlutfall í lok árs 2013 er 98% en skv. greinargerð R3 um sameiningu
sveitarfélaganna var gert ráð fyrir að skuldahlutfallið yrði 116%.  Samkvæmt
nýjum sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 ber sveitarstjórn að
sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta séu ekki hærri en
sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Í  lykiltölum kemur fram að skatttekjur
nema 573 þús. kr. á íbúa og skuldir og skuldbindingar 693 þús. kr. á hvern íbúa
í Garðabæ en áætlun hafði gert ráð fyrir 717 þús. kr. á hvern íbúa. 



Íbúum Garðabæjar fjölgaði um 1,9% milli áranna 2012 og 2013 og voru íbúar
14.137 þann 1. desember 2013. 



Ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í dag.