2012-10-25 20:27:44 CEST

2012-10-25 20:28:44 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Fyrirtækjafréttir

Umframeftirspurn í lokuðu hlutafjárútboði


  -- Fyrsta áfanga að skráningu félagsins lokið
  -- Almennt hlutafjárútboð hefst 30. október 2012
  -- Lykilstjórnendur falla frá kaupréttarsamningum

Undirbúningur að skráningu Eimskips hefur staðið yfir frá ársbyrjun 2012.
Straumur fjárfestingabanki og Íslandsbanki eru umsjónaraðilar útboðsins, en
fyrsta formlega áfanganum lauk í dag kl 14.00 þegar tilboð bárust frá
fagfjárfestum í 20% hlut í félaginu. Veruleg umframeftirspurn var í útboðinu,
en samtals bárust tilboð fyrir yfir 12.000 milljónir króna frá fjárfestum.
Tilboðum var tekið fyrir 8.340 milljónir króna á verðinu 208 kr. á hlut. 

Almennt útboð hefst næstkomandi þriðjudag, 30. október kl. 10.00 og stendur til
kl. 16.00 föstudaginn 2. nóvember. Í almenna útboðinu gefst fjárfestum og
einstaklingum kostur á að skrá sig fyrir hlutum í Eimskip á sama verði og
hlutabréf voru seld í lokaða útboðinu. Í almenna útboðinu verða samtals seldir
10.000.000 hlutir eða samtals 5% af útgefnu hlutafé. Verði umframeftirspurn í
almenna útboðinu hefur félagið heimild til að bjóða til sölu 6.000.000 eigin
hluti eða 3% af útgefnu hlutafé. Samtals verður því boðinn til sölu allt að 8%
hlutur í félaginu. 

Í framhaldi af móttöku tilboða í lokaða útboðinu hafa lykilstjórnendur Eimskips
ákveðið að falla frá öllum kaupréttum sem þeim hafði verið úthlutað af félaginu
frá árinu 2010 eftir vel heppnaða endurskipulagningu félagsins. Viðauki við
lýsingu félagsins, samkvæmt 46. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti,
verður birtur um ofangreint efni áður en almennt útboð hefst.
Kaupréttaráætlunin var ákveðin af stjórn félagsins og samþykkt á aðalfundi
félagsins 2010 án athugasemda. 



Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að fyrsta áfanga að skráningu Eimskips á
markað er lokið og að veruleg umframeftirspurn hafi verið eftir hlutabréfum
félagsins. Það er von okkar að almenningur og aðrir fjárfestar muni sýna
félaginu jafn mikinn áhuga og fagfjárfestar hafa nú gert. Eimskip stendur á
traustum fótum og umtalsverð tækifæri eru á mörkuðum okkar á
Norður-Atlantshafi. Starfsmenn Eimskips hafa ávallt hag félagsins að
leiðarljósi. Ég og aðrir lykilstjórnendur viljum tryggja áframhaldandi vöxt
Eimskips og framgang félagsins á hlutabréfamarkaði og höfum við því ákveðið að
falla frá þeim kaupréttum sem okkur voru veittir.“