2014-12-18 10:58:20 CET

2014-12-18 10:59:20 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Arion banki og Samkeppniseftirlitið gera sátt um greiðslukortakerfið


- Arion banki kaupir 38% hlut Landsbankans í Valitor, dótturfélagi Arion banka

Arion banki og Samkeppniseftirlitið hafa undirritað sátt sem snýr að
uppsetningu greiðslukortakerfisins, en kerfið var sett upp fyrir rúmum 30 árum
að evrópskri fyrirmynd. Tímabilið sem til skoðunar var er frá 2007 til og með
2009. Kjarninn í sátt Arion banka og Samkeppniseftirlitsins felst í breytingum
á ákvörðun svokallaðra milligjalda sem færsluhirðar greiða bönkum, ásamt nýrri
tilhögun á veitingu vildarpunkta. Einnig felst í sáttinni að gerðar verði
breytingar á eignarhaldi kortafyrirtækja og að Arion banki greiði 450 milljónir
króna í sekt. 

Arion banki hefur þegar gert umsamdar breytingar

Arion banki hefur þegar breytt samningum við Valitor sem endurspegla nú breytt
fyrirkomulag og ákvarðast milligjöld í tvíhliða samningum milli félaganna.
Arion banki hefur einnig breytt fyrirkomulagi samninga varðandi vildarpunkta.
Þannig hefur Arion banki þegar brugðist við gagnrýni Samkeppniseftirlitsins og
gert breytingar á viðskiptasamningum sínum. 

Arion banki kaupir 38% hlut Landsbankans í Valitor

Að auki hefur Arion banki hf. undirritað kaupsamning við Landsbankann hf. um
kaup á 38% hlut Landsbankans í Valitor Holding hf, móðurfélagi Valitor hf.
Kaupverð er 3,6 milljarðar króna. Mögulega mun síðar koma til viðbótargreiðslu
af hálfu Arion banka í tengslum við valrétt Visa Europe á hendur Visa Inc.
Ákvörðun um nýtingu valréttarins er ekki á höndum Arion banka heldur Visa
Europe og því óvíst hvort, hvenær og þá hve há slík greiðsla gæti orðið. 

Eftir kaupin á Arion banki um 98% í Valitor Holding hf. en Landsbankinn fer
alfarið úr eigendahópi félagsins. 

Valitor mikilvægur þáttur í stefnu og framtíðarsýn Arion banka

Valitor hefur verið dótturfélag Arion banka til margra ára og er mikilvægur
þáttur í starfsemi bankans, stefnu og framtíðarsýn. Arion banki leggur mikla
áherslu á öflugt þjónustuframboð þegar kemur að greiðslukortum og mun áfram
leggja höfuðáherslu á VISA-kort, til viðbótar við kort frá Mastercard, hvort
tveggja í samstarfi við Valitor. 

Arion banki hefur mikla trú á Valitor sem hefur verið drifkraftur í uppbyggingu
öflugs og trausts greiðslukortakerfis hér á landi. Að auki hefur Valitor haslað
sér völl á erlendum vettvangi og eru því spennandi tímar framundan hjá
félaginu. 

Sambærilegar kerfisbreytingar erlendis - sektum almennt ekki beitt

Greiðslukortakerfið hér á landi var byggt upp að evrópskri fyrirmynd fyrir um
30 árum. Fyrirkomulag þess hefur legið ljóst fyrir frá upphafi og hefur
tilhögun milligjalda ekki sætt formlegri gagrýni frá yfirvöldum fyrr en nú.
Samkeppnisyfirvöld í mörgum ríkjum eru að ljúka málum með sambærilegum hætti og
hér á landi, þ.e. varðandi breytingar á greiðslukortakerfum og lækkun
milligjalda. Þá hefur Evrópusambandið lagt fram tillögur sem miða að því að
sett verði hámark á milligjaldið. Arion banki hefur skilning á þeirri gagnrýni
sem hefur komið fram varðandi tilhögun kerfisins. Kerfið er að ýmsu leyti barn
síns tíma og hefur margt breyst frá því það var sett upp hvað varðar tækni,
útbreiðslu kortanna og stærð þeirra fyrirtækja sem að þeim standa. 

Hér á landi unnu þeir sem að kerfinu koma, í bönkum og kortafyrirtækjum, í
góðri trú og töldu sig starfa í samræmi við lög og reglur og hefði Arion banki
kosið að semja um breytingar á kerfinu án þess að til kæmi sekt. Þess var vænst
að svo gæti orðið þegar bankinn hóf að eigin frumkvæði sáttaviðræður við
Samkeppniseftirlitið en það gekk ekki eftir. Málalyktir hér á landi hvað þetta
varðar eru því ólíkar því sem raunin hefur orðið á víðast í Evrópu þar sem
aðilar hafa orðið ásáttir um að gera að mörgu leyti sambærilegar breytingar á
greiðslukortakerfinu, án þess að til sekta komi. 

Íslenska greiðslukortakerfið skilvirt og hefur náð mikilli útbreiðslu

Greiðslukortakerfið á Íslandi hefur náð mikilli útbreiðslu og þróast
farsællega. Hér á landi fara um 80% af veltu í gegnum greiðslukort sem er til
muna hærra hlutfall en í öðrum löndum. Ástæðan er sú að hér á landi hefur
tekist að þróa einfalt, öflugt og skilvirkt kerfi þar sem greiðslukort eru
tekin hjá svo gott sem öllum sölu- og þjónustuaðilum. Hér á landi tíðkast
t.a.m. ekki að leggja sérstakt álag á reikninga ef greitt með kreditkorti eins
og sumstaðar erlendis. Kostnaður neytandans er almennt innifalinn í vöruverði á
sama hátt og kostnaður vegna umsýslu með seðla og mynt. Hér á landi nýtur
korthafinn líka vaxtalauss veltuláns í allt að 40 daga. Mikill sveigjanleiki í
íslenska kerfinu gagnast líka kaupmönnum - sérstök kortatímabil dreifa álaginu
á verslanir. Öryggismál eru almennt í mjög góðu lagi, bæði fyrir sölu- og
þjónustuaðila sem og neytendur. 

Sátt um skipan greiðslukortakerfisins

Með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á milligjöldum, vildarpunktum og
eignarhaldi kortafyrirtækja hefur náðst sátt um skipan greiðslukortakerfisins
hér á landi. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs
Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.