2012-09-27 18:41:15 CEST

2012-09-27 18:42:16 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Fyrirtækjafréttir

Hæstaréttardómur Marel í vil


Hæstiréttur Íslands kvað í dag upp dóm sinn í máli Glitnis banka hf. gegn Marel
hf. Var niðurstaða dómsins sú að Marel var sýknað af kröfum Glitnis hf. Dóminn
í heild sinni má lesa á heimasíðu Hæstaréttar:
http://www.haestirettur.is/domar?nr=8334. 

Málið snérist um ágreining um uppgjörsaðferð tiltekinna afleiðusamninga sem
m.a. voru gerðir í tengslum við útgáfu skuldabréfaflokksins MARL 06 1 árið
2006. Strax í kjölfar falls Glitnis í október 2008 leituðust forsvarsmenn Marel
eftir því við skilanefnd bankans að samningarnir héldu gildi sínu til
umsaminnar lokadagsetningar, sem var í febrúar 2012. Glitnir sá sér hins vegar
ekki fært að inna skyldur sínar af hendi samkvæmt samningnum gagnvart Marel og
gerðu aðilarnir með sér samkomulag um uppgjör og slit samninganna þann 5. maí
2009. 

Greiddi Marel Glitni í tengslum við samkomulagið samtals rúmlega 20,3 milljónir
evra á grundvelli svokallaðrar uppsöfnunaraðferðar. Glitnir taldi hins vegar að
beita ætti svokallaðri núvirðisaðferð við uppgjörið og krafði Marel um tæplega
4 milljónir evra til viðbótar auk 6% vaxta frá uppgjörsdegi. Var það skoðun
Marel að slík krafa ætti ekki rétt á sér þar sem Glitnir sannanlega vanefndi
skyldur sínar samkvæmt samningunum og ætti því ekki að geta gert kröfu um
frekari bætur og hagnast þannig á umræddri vanefnd. Voru aðilar ásáttir um að
leiða ágreining sinn um uppgjörsaðferðina til lykta fyrir almennum dómstólum.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu féll þann 12. apríl 2011 þar sem Marel var
sýknað af kröfum Glitnis, og nú hefur Hæstiréttur Íslands staðfest þá
niðurstöðu. 

Marel fagnar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands enda er hún í fullu samræmi við
röksemdir og kröfur félagsins í málinu. Máli þessu er því lokið og allri óvissu
eytt hvað varðar umrætt uppgjör afleiðusamninga félagsins við Glitni.