2016-03-15 12:05:16 CET

2016-03-15 12:05:16 CET


REGULATED INFORMATION

This message has been corrected. Click here to view the corrected message

Islandic
Garðabær - Ársreikningur

Ársreikningur Garðabæjar 2015


Miklar framkvæmdir og góð niðurstaða

Rekstrarniðurstaða Garðabæjar árið 2015 var jákvæð um 165 milljónir króna.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir niðurstöðuna sýna að staða bæjarfélagsins sé
sterk og vel haldið utan um reksturinn. Miklar framkvæmdir voru á árinu, fyrir
alls um 1,6 milljarð króna. Skuldahlutfallið er 101% af tekjum sem er langt
undir viðmiði sveitarstjórnarlaga. 

Samkvæmt rekstrarreikningi ársins námu rekstrartekjur A og B hluta 11.701
milljónum króna samanborið við 10.725 milljónir króna á árinu 2014. Hækkun
milli ára nemur því 9,1%. Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd
gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir námu á árinu 11.155 milljónum
króna en voru 9.990 milljónir króna á árinu 2014. Hækkun frá fyrra ári nemur
11,7%. 

Góður árangur

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir: „Það verður að teljast góður árangur að
skila árinu 2015 með jákvæðri rekstrarútkomu, þegar horft er til þess að ríkið
hefur ekki brugðist við áskorun sveitarfélaga um endurskoðun á tekjustofnum
þeirra. Eins og staðan er í dag er vart hægt að segja að lögbundnir
tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þeim verkefnum sem þeim eru falin skv.
stjórnarskrá og lögum. Hér má líka benda á að miklar launahækkanir urðu á árinu
en sú skriða fór af stað með kjarasamningi ríkisins við framhaldsskólakennara.
Þessi skriða reyndist sveitarfélögum mjög dýr, ekki síst vegna nýrra
kjarasamninga grunnskólakennara sem komu í kjölfar framhaldsskólasamningsins.
Einnig er rétt að nefna að Garðabæ greiddi á árinu 146 milljónir króna með
rekstri hjúkrunarheimilisins Ísfoldar þar sem daggjöldin sem eru ákvörðuð af
ríkinu stóðu ekki undir kostnaði við reksturinn og loks hækkaði
lífeyrisskuldbinding Garðabæjar um 248 milljónir króna á árinu í stað 145
milljóna eins og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þegar allt þetta er haft
í huga er ljóst að það er aðeins vegna sterkrar fjárhagslegrar stöðu Garðabæjar
og þess að vel hefur verið haldið utan um reksturinn á árinu að niðurstaðan er
réttu megin við núllið.“ 

Miklar framkvæmdir

Umfangsmiklar framkvæmdir voru í bænum á árinu 2015 en alls var framkvæmt fyrir
1,6 milljarð. 662 milljónum var varið til framkvæmda við fasteignir grunnskóla,
þar af 478 milljónum til viðbyggingar Hofsstaðaskóla og 122 milljónum í
framkvæmdir við uppsteypu nýs grunnskóla, Urriðaholtsskóla. 409 milljónir fóru
til gatnagerðar og 125 milljónir í framkvæmdir við íþróttamannvirki en stærsta
framkvæmdin í þeim málaflokki var nýr gervigrasvöllur á Álftanesi. 

Skuldahlutfall

Skuldahlutfall A og B hluta (skuldir sem hlutfall af rekstrartekjum) nemur 101%
í árslok 2015 og skuldaviðmið, reiknað samkvæmt ákvæðum reglugerðar um
fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, nemur aðeins 84%.
Til viðmiðunar skulu sveitarfélög, samkvæmt sveitarstjórnarlögum takmarka
skuldir A og B hluta við 150% af reglulegum tekjum. 

Íbúafjölgun

Íbúar Garðabæjar voru 14.647 1. desember 2015 og hafði þeim fjölgað um 1,4% frá
1. desember 2014 og 3,6% frá 1. desember 2013. 

Nánari upplýsingar veitir: Gunnar Einarsson í síma: 820 8541