2014-09-25 14:38:49 CEST

2014-09-25 14:39:51 CEST


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Íslenska Enska
Íbúðalánasjóður - Fyrirtækjafréttir

Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs ágúst 2014


Íbúðalánasjóður eykur framboð leiguhúsnæðis

Meginhlutverk Íbúðalánasjóðs er útlánastarfsemi vegna íbúðarhúsnæðis og að
standa vörð um þau verðmæti sem sjóðnum er trúað fyrir. Í ljósi umræðu um skort
á leiguhúsnæði vill sjóðurinn leggja sitt af mörkum með breyttu verklagi, en
undirstrikar um leið þann ramma sem sjóðnum er settur. 

Nýtt verklag eykur framboð á leiguhúsnæði

Á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem takmörkuð velta er á fasteignamarkaði
hefur Íbúðalánasjóður tekið upp nýtt verklag með eignir sjóðsins. Á þessum
stöðum verða þær eignir sem eru skráðar á sölu og eru í bestu ásigkomulagi
jafnframt samhliða boðnar til leigu. Eftirspurn eftir leigu eða fasteignum til
kaups ræður því í hvorn farveginn þessar eignir sjóðsins fara. Þannig aukast
líkurnar á því að hlutfall leigu- og sölueigna sé í takt við aðstæður á hverjum
stað og mætir þetta verklag því vel aðstæðum í ólíkum byggðarlögum þar sem
eignir sjóðsins eru. 

Meirihluti eigna sjóðsins er þegar í útleigu og 75% fullnustuíbúða fara beint í
leigu 

Íbúðalánasjóður leigir nú 920 eignir beint út og aðrar 450 eru í útleigu á
vegum Leigufélagsins Kletts. Því eru í dag um 1.370 eignir í útleigu á vegum
ÍLS um land allt. 

Íbúar í eign sem sætir fullnustu eiga kost á að búa áfram í eigninni og leigja
hana. Þannig fara þrjár af hverjum fjórum íbúðum sem Íbúðalánasjóður tekur yfir
beint í leigu til þeirra sem í íbúðunum búa við fullnustu. 

Í dag eru 983 eignir söluskráðar á fasteignasölum en með tvöfaldri skráningu
mun mögulegum leiguíbúðum fjölga umtalsvert. Tekið skal fram að margar af auðum
eignum sjóðsins eru ekki á svæðum þar sem eftirspurn er eftir leiguíbúðum eða
eru það stórar að þær henta ekki leigumarkaði. 

Íbúðarhæft húsnæði jafngildir ekki leiguhæfu húsnæði

Um 140 eignir eru ekki í söluferli því þær eru annaðhvort óíbúðarhæfar eða á
vinnslustigi á leið í sölu eða leigu. Á leigumarkaði gilda strangari kröfur um
ástand og frágang íbúða. Margar af þeim eignum sem sjóðurinn tekur yfir
standast illa eða ekki þær kröfur sem leigumarkaðurinn gerir til húsnæðis nema
farið sé í talsverðar lagfæringar. Sjóðurinn hefur reynt að bregðast við
mikilli þörf fyrir leiguhúsnæði og farið í töluverðar endurbætur á um 530
fasteignum á síðustu tveimur árum um land allt, þó einkum á Suðurnesjum. 

Miklar endurbætur húsnæðis samræmast ekki hlutverki sjóðsins

Hugmyndir um að sjóðurinn fari í meiriháttar endurbætur á húsnæði til að koma
því í leigu samræmast illa hlutverki og heimildum sjóðsins. Þá hefur sjóðurinn
enga tekjustofna til að mæta þeim miklu útgjöldum sem eru samfara jafn
umfangsmiklum endurbótum. Ef farið er í slíkar framkvæmdir verða því að koma
frekari fjárframlög til sjóðsins. 

Íbúðalánasjóður hefur aðeins tímabundna lagaheimild til að stunda leigustarfsemi

Meginhlutverk Íbúðalánasjóðs er útlánastarfsemi vegna íbúðarhúsnæðis. Eftir
efnahagshrunið 2008 fékk sjóðurinn tímabundna lagaheimild til þess að leigja út
íbúðir, í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Sú heimild breytir ekki því
grunnhlutverki sjóðsins að lána til fasteignakaupa og standa vörð um þau
verðmæti sem sjóðnum er trúað fyrir.