2016-02-25 20:09:50 CET

2016-02-25 20:09:50 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Hagnaður Eimskips jókst um 30,8% á milli ára


  -- Rekstrartekjur voru 499,6 milljónir evra, jukust um 48,0 milljónir evra eða
     10,6% frá 2014
  -- EBITDA nam 45,2 milljónum evra samanborið við 38,5 milljónir evra 2014 og
     jókst um 17,3%
  -- Hagnaður nam 17,8 milljónum evra samanborið við 13,6 milljónir evra 2014 og
     jókst um 30,8%
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2% á
     milli ára
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5% á milli ára
  -- Eiginfjárhlutfall var 64,2% og nettóskuldir námu 35,4 milljónum evra í
     árslok
  -- Stjórn félagsins leggur til 6,50 króna arðgreiðslu á hlut sem er 30% hækkun
     arðs frá 2015
  -- Áætluð EBITDA ársins 2016 er á bilinu 46 til 50 milljónir evra

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Rekstrarniðurstaða ársins 2015 var í samræmi við væntingar okkar, 10,6%
tekjuvöxtur og 17,3% hækkun EBITDA frá fyrra ári. Árið skilaði hæstu
rekstrartekjum og EBITDA frá árinu 2009. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum
félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2% á milli ára. Mikill vöxtur var í
flutningum tengdum Íslandi á meðan magn tengt Færeyjum dróst lítillega saman
vegna breytts flutningamynsturs á uppsjávarfiski. Góður gangur hefur verið í
Noregi eftir erfiðleika á fyrsta ársfjórðungi. Flutt magn í
frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5% á milli ára. 

Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi námu 130,6 milljónum evra og jukust um
9,9% samanborið við sama ársfjórðung 2014. EBITDA nam 9,7 milljónum evra á
fjórðungnum og jókst um 10,2% samanborið við fjórða ársfjórðung árið áður, en
að teknu tilliti til óreglulegs kostnaðar jókst EBITDA um 20.4%. Flutningsmagn
í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 10,1% og magn í
frystiflutningsmiðlun jókst um 6,6% samanborið við fjórða ársfjórðung 2014. 

Á árinu 2015 gekk félagið frá kaupum á fimm fyrirtækjum sem hafa verið innleidd
í samstæðuna og eru að skila góðri afkomu. Félagið heldur áfram að meta möguleg
fjárfestingartækifæri til vaxtar í samræmi við stefnu félagsins. Sterk
fjárhagsstaða Eimskips og þau tækifæri sem eru í greininni setja félagið í góða
stöðu til að ráðast í slík verkefni. 

Eimskip hefur tekið á leigu gámaskipið Ceres, 880 gámaeininga kranalaust skip,
frá og með marsmánuði. Skipið er systurskip Lagarfoss sem félagið lét smíða og
tekið var í notkun á árinu 2014. Nafni Ceres verður breytt í Bakkafoss og mun
skipið þjóna á gulu leiðinni þar sem það leysir af hólmi Brúarfoss, 724
gámaeininga skip, sem fært verður á aðra leið eða í önnur verkefni. Nýr
hafnarkrani verður tekinn í notkun í Sundahöfn í mars og verður krani úr
Sundahöfn fluttur til Vestmannaeyja. Með þessum breytingum mun félagið hafa
möguleika á að nota kranalaus skip á bláu og gulu leiðinni. 

Skip á gulu leiðinni munu á öðrum ársfjórðungi hefja reglulegar viðkomur í
Helguvík til að þjóna kísilmálmframleiðslu United Silicon og öðrum fyrirtækjum
á svæðinu. 

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2016
sem nemur 6,50 krónum á hlut, en það er 30% hækkun frá fyrra ári þegar
arðgreiðslan nam 5,00 krónum á hlut. Nemur heildarfjárhæð arðgreiðslunnar
1.213,2 milljónum króna, eða 8,5 milljónum evra. 

Fyrstu vikur ársins lofa góðu í samanburði við síðasta ár, bæði hvað varðar
magn og afkomu. Afkomuspá okkar fyrir árið 2016 er EBITDA á bilinu 46 til 50
milljónir evra. Áætluð afkoma tengd nýjum fjárfestingum í fyrirtækjum og
innviðum er ekki talin með í afkomuspá ársins.“ 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is