2012-08-23 17:46:30 CEST

2012-08-23 17:47:31 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Traustur rekstur Orkuveitunnar


Reykjavík, 2012-08-23 17:46 CEST (GLOBE NEWSWIRE) -- Árshlutauppgjör Orkuveitu
Reykjavíkur vegna fyrri hluta ársins 2012 staðfestir þá góðu afkomu
rekstursins, sem sást á fyrstu mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 8,1
milljarði króna. Það er um 1,8 milljörðum króna betri afkoma en á fyrri hluta
ársins 2011. Aðhald á öllum sviðum rekstursins og aukning tekna skýra þetta.
Tekjur á tímabilinu jukust um 16% milli ára en gjöldin um 6%. Afkoman er í
samræmi við aðgerðaáætlun Orkuveitunnar og eigenda - Planið. 

Þróun gengis og álverðs á fyrri helmingi ársins 2012 var fyrirtækinu áfram
óhagstæð. Reiknuð áhrif þessara og annarra óinnleystra fjármagnsliða á
heildarafkomuna voru neikvæð um 8,5 milljarða og heildarniðurstaða fyrstu sex
mánaða ársins því neikvæð um 0,9 milljarða króna. Frá júnílokum, sem uppgjörið
miðast við, hefur gengisþróun verið hagstæðari en álverð áfram lágt. Þessir
tveir þættir eru, ásamt fjármagnskostnaði, helstu óvissuþættir reksturs
Orkuveitunnar. Áhrif styrkingar krónunnar frá júnílokum til dagsins í dag og
lækkunar álverðs á sama tímabili hefðu samanlagt um átta milljarða króna jákvæð
áhrif á rekstrarafkomuna frá uppgjörsdegi, að öðru óbreyttu. 

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur H1 2012 var samþykktur af
stjórn fyrirtækisins í dag. Reikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS). 



Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar:

Uppstokkunin í rekstri Orkuveitunnar hefur nú skilað sér í góðri afkomu eins og
að var stefnt með Planinu. Traustur rekstur hefur nú gert okkur kleift að semja
við lánveitendur um endurröðun gjalddaga og létta þannig greiðslubyrði
Orkuveitunnar næstu árin. Nýlegir áhættuvarnarsamningar Orkuveitunnar minnka
áhrif þeirra ytri óvissuþátta, sem við höfum ekki stjórn á. Óhagstæð þróun
þeirra getur valdið rekstrinum þungu tjóni og fyrir því þurfum við að verja
okkur að því marki sem skynsamlegt er. 

Ég fagna því sérstaklega að eigendur Orkuveitunnar - Reykjavík, Akranes og
Borgarbyggð - hafa samþykkt nýja eigendastefnu fyrir starfsemina. Hún er mjög í
þeim anda sem við höfum unnið eftir innan fyrirtækisins; skýr hlutverk, skýr
markmið og skýr ábyrgð á því að þeim sé náð. 



Rekstraryfirlit stjórnenda

Allar fjárhæðir eru í milljónum króna á verðlagi hvers árs.

Rekstur á fyrri helmingi árs           2008      2009     2010     2011     2012
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                       11.369    11.925   13.561   16.676   19.287
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarkostnaður                   (5.553)   (6.233)  (6.505)  (6.164)  (6.560)
--------------------------------------------------------------------------------
EBITDA                                5.816     5.692    7.056   10.512   12.727
--------------------------------------------------------------------------------
Afskriftir                          (3.308)   (4.702)  (3.902)  (4.136)  (4.585)
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrarhagnaður EBIT                 2.508       990    3.154    6.376    8.142
--------------------------------------------------------------------------------
Innleystar fjármunatekjur og        (2.157)   (3.295)  (1.218)  (1.418)  (1.629)
 (fjármagnsgjöld)                                                               
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir óinnleysta                 351   (2.304)    1.936    4.957    6.513
 fjármagnsliði                                                                  
--------------------------------------------------------------------------------
Óinnleystir fjármagnsliðir         (20.017)  (10.805)    4.155  (9.741)  (8.455)
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma fyrir tekjuskatt skv.       (19.666)  (13.109)    6.092  (4.784)  (1.941)
 árshlutareikningi                                                              
--------------------------------------------------------------------------------
Tekjuskattur                          3.260     2.494    (974)      962    1.017
--------------------------------------------------------------------------------
Afkoma tímabilsins                 (16.406)  (10.615)    5.118  (3.822)    (924)
--------------------------------------------------------------------------------




         Tengiliður:
         Bjarni Bjarnason
         forstjóri
         516 7707