2012-01-26 00:45:00 CET

2012-01-26 00:45:01 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Víðtækar aðgerðir til að bæta áhættuvarnir og stjórnarhætti hjá Orkuveitunni


Reykjavík, 2012-01-26 00:45 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Stjórn Orkuveitu
Reykjavíkur hefur samþykkt áhættustefnu fyrir rekstur fyrirtækisins. Jafnframt
hefur verið komið á fót endurskoðunarnefnd stjórnar og samið um fjárhagslegar
áhættuvarnir gagnvart sveiflum á álverði og vöxtum á erlendum lánum. 


Um áhættustefnuna
Þetta er í fyrsta sinn að stjórnin samþykkir heildstæða áhættustefnu fyrir
reksturinn. Öllum rekstri fylgir áhætta og það er stefna stjórnar Orkuveitunnar
að í allri starfsemi fyrirtækisins sé gætt að áhættu og með því stuðlað að
ábyrgum og skilvirkum ákvörðunum og stjórnunarháttum. Áhættustefnan lýsir
heildarsýn og meginmarkmiðum stjórnar að þessu leyti. Hún skilgreinir jafnframt
megintegundir áhættu, mælikvarða við mat á þeim ásamt helstu aðferðum,
markmiðum og mörkum við daglega áhættustýringu fyrirtækisins. 
Meginmarkmið stjórnar með áhættustefnunni er að tryggja að OR geti sinnt
grunnhlutverki sínu og rækt skyldur sínar með sem minnstri röskun sökum
óhagstæðrar þróunar þátta sem falla utan kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Sum
úrræði við að draga úr áhættu geta verið svo dýr að ekki þykir réttlætanlegt að
grípa til þeirra. Þess vegna snýst áhættustefnan um að finna meðalveg, það er
að skilgreina viðunandi mörk og leita bestu leiða til að fyrirtækið geti sinnt
grunnþjónustu með sem hagkvæmustum hætti. 
Stjórn OR samþykkir og ber ábyrgð á áhættustefnunni og áhættunefnd innan
fyrirtækisins sér um að framfylgja henni. Hún skal endurskoðuð í það minnsta
árlega og stjórn fól forstjóra að kynna hana eigendum OR með frekari þróun
hennar í huga. 


Endurskoðunarnefnd
Stjórn Orkuveitunnar hefur einnig sett á fót endurskoðunarnefnd. Hlutverk
hennar er meðal annars að hafa eftirlit með vinnulagi við reikningsskil og
endurskoðun uppgjörs, eftirlit með innri endurskoðun Orkuveitunnar,
áhættustýringu jafnframt því að meta hæfi ytri endurskoðenda fyrirtækisins. Í
endurskoðunarnefnd OR voru kjörin þau Sigríður Ármannsdóttir löggiltur
endurskoðandi, sem er formaður, Gylfi Magnússon dósent og fulltrúi í stjórn OR
og Ingvar Garðarsson löggiltur endurskoðandi. 


Samið um áhættuvarnir vegna gengis og vaxta
Undirbúningur þessara umfangsmiklu aðgerða hefur staðið um hríð. Leitað var
samninga við fjármálafyrirtæki um áhættuvarnir. Samningar tókust við hollenska
bankann ING og lítur Orkuveitan svo á að með samningnum sé lýst trausti á þá
aðgerðaáætlun sem Orkuveitan starfar nú eftir. Óhagstæð þróun álverðs og gengis
hefur nú minni áhrif á lausafjárþörf Orkuveitunnar en áður og styrkir stoðir
aðgerðaáætlunarinnar. 



Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar OR:
Þessi skref sem stjórn hefur nú stigið miða öll í þá átt að auka stöðugleika og
festu í rekstri Orkuveitunnar. Það er fyrirtækinu og orðspori þess líka afar
mikilvægt að virt erlent fjármálafyrirtæki sýni stjórnun fyrirtækisins það
traust að gera áhættuvarnasamning. Þar geta talsverðir fjármunir verið í húfi.