2015-11-21 12:42:26 CET

2015-11-21 12:43:27 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Fyrirtækjafréttir

Marel undirritar kaup á MPS meat processing system -Hagstæð langtímafjármögnun tryggð


Marel tilkynnir að félagið hefur samþykkt kaup á  MPS meat processing systems.
Heildar kaupverð (Enterprice Value) er 382 milljónir evra. Samhliða tilkynnir
Marel um samkomulag um langtíma-fjármögnun á allri samstæðunni að fjárhæð 670
milljónum evra á hagstæðum kjörum. 

MPS er alþjóðlegur leiðtogi í framleiðslu á búnaði fyrir fyrsta stig
kjötvinnslu. Kaupin styðja því við framboð Marel á búnaði fyrir öll stig
kjötvinnslu sem leiðir til betri samkeppnisstöðu félagsins í kjötiðnaði á
heimsvísu. Engin skörun er í vörulínu félaganna  tveggja og þá passar alþjóðleg
starfsemi félaganna vel saman sem skapar grundvöll fyrir áframhaldandi vöxt og
arðsemi. 

Með kaupunum styrkir Marel stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum
búnaði og kerfum til vinnslu á  kjúklingi, kjöti, og fiski. Kaupin eru að fullu
í samræmi við áður tilkynnta stefnu Marel um frekari vöxt og aukna arðsemi
félagsins til frambúðar. Kaupin styðja við framboð Marel á heildarlausnum í
kjötvinnslu og ýta einnig undir jafnari tekjuskiptingu, bæði á milli mismunandi
iðnaða og markaðssvæða. Í sameinuðu félagi er áætlað að kjötiðnaður muni skila
um það bil 30% af heildartekjum og EBITDA á ársgrundvelli. 

MPS meat processing  system
MPS er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu og þróun búnaðar til frumvinnslu í
kjöti. Undir forystu  styrkra stjórnenda hefur félagið vaxið og hagnast vel á
síðustu misserum. Áætlaðar árstekjur félagsins fyrir 2015 nema 150 milljónum
evra og EBITDA fyrir sama tímabil verður nálægt 40 milljónum evra. Fyrirtækið
er með um 670 starfsmenn og eru höfuðstöðvar þess  staðsettar í Hollandi.
Framleiðsla fer að mestu fram í Hollandi og Kína en að auki hefur félagið yfir
að ráða öflugu alþjóðlegu neti sölu- og þjónustueininga sem sinna fjölbreyttum
viðskiptahópi um allan heim. 

Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel:
„MPS passar vel við Marel og mun styrkja félagið. Við þekkjumst vel enda höfum
við sett upp fjölmargar verksmiðjur fyrir viðskiptavini í kjötiðnaðinum um heim
allan. Í þeim verkefnum hefur MPS komið með framúrskarandi þekkingu og lausnir
fyrir fyrsta stig kjötvinnslunnar að borðinu á meðan við höfum komið með það
sem þarf fyrir næstu skref í vinnsluferlinu og svo hugbúnaðinn sem bindur þetta
allt saman. Saman erum við sterkari og í lykilstöðu við að veita
kjötframleiðendum heildarlausnir. 

Yfirtakan mun styrkja stöðu Marel sem markaðsleiðtoga á ört vaxandi markaði og
auka samkeppnishæfni og arðsemi til lengri tíma litið. Sameining MPS og Marel
er að mörgu leyti svipuð samruna Marel og Stork Food Systems fyrir átta árum
síðan. Sú sameining skilaði áframhaldandi  innri vexti og frábærum
heildarlausnum til viðskiptavina okkar sem leiddi til mikillar virðisaukningar
fyrir viðskiptavini og hluthafa.“ 

Remko Rosman forstjóri MPS meat processing system:
„Við erum mjög spennt að gerast hluti af Marel og yfir því að hafa fundið
framtíðar samastað fyrir MPS og starfsmenn okkar. Vöruframboð og starfsemi
félaganna samsvarar sér vel og sameiginlegur styrkur okkar mun bæta
samkeppnisstöðu okkar. Marel og MPS hafa bæði gegnt mikilvægu hlutverki í þróun
matvælaframleiðslu í heiminum og saman erum við í betri stöðu en áður til að
fjárfesta í framtíðarvexti og nýsköpun sem mun auka virðissköpun viðskiptavina
okkar.“ 

Nánar um yfirtökuna

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Búast má við að
öll formleg skilyrði samningsins verði uppfyllt á fyrsta ársfjórðungi 2016.
David Wilson, framkvæmdastjóri kjötiðnaðar hjá Marel og Remko Rosman, forstjóri
MPS munu hafa mikilvægu hlutverki að gegna í framtíð Marel. 

Hluthafar MPS, þeirra á meðal stjórnendur MPS, munu nota hluta kaupverðsins í
að fjárfesta í Marel.  Samkvæmt samkomulagi munu þeir kaupa 10,8 milljón hluti
í Marel á genginu 213 kr. á hlut og skuldbinda þeir sig til að eiga hlutina í
18 mánuði frá kaupunum hið minnsta. 

Hagstæð langtímafjármögnun tryggð
Samhliða yfirtökunni hefur Marel tryggt hagstæða langtímafjármögnun til 5 ára
fyrir félagið í heild. Fjármögnunin er  tryggð af Rabobank og nemur nærri 670
milljónum evra og eru skilmálar og vaxtakjör í samræmi við núverandi
markaðsaðstæður. Fjármögnunin gefur Marel aukin fjárhagslegan sveigjanleika og
styður við vöxt og framgang félagsins. 

Fjárhagsleg staða Marel verður sterk eftir sem áður og skuldahlutfallið verður
innan þeirra marka sem langtímastefna félagsins kveður á um. 

Kynningarfundur :
Marel boðar til kynningarfundar mánudaginn 23. nóvember kl. 16:00. Nánari
upplýsingar um fundinn verða sendar út síðar. 

Frekari upplýsingar veitir:
Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla og samskipta. Símar: 563-8626
og 853-8626.