2014-03-17 21:32:02 CET

2014-03-17 21:33:03 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Ríkisútvarpið ohf. - Fyrirtækjafréttir

Tilkynning frá stjórn Ríkisútvarpsins ohf



Uppfærð rekstraráætlun Ríkisútvarpsins ohf. var kynnt á fundi stjórnar sem fram
fór í dag. Liggur fyrir að tap af rekstri félagsins á yfirstandandi rekstrarári
verður umtalsvert meira en áætlanir stjórnenda RÚV gerðu ráð fyrir, jafnvel
þótt að gripið hafi verið til umfangsmikilla niðurskurðaraðgerða á tímabilinu.
Nú er gert ráð fyrir að tap af rekstri félagsins verði 305 m. kr. fyrstu 6
mánuði ársins og 357 m. kr. á rekstrarárinu öllu. 



Ljóst er að frávikið frá þeim áætlunum sem áður höfðu verið lagðar fram er
umtalsvert og útlit er fyrir að tapið af rekstrinum muni hafa veruleg áhrif á
eigið fé Ríkisútvarpsins, en það var við lok síðasta rekstrarárs 653 m. kr. Því
er ljóst að hlutfall eiginfjár Ríkisútvarpsins  fer undir 8% mörkin sem
skilgreind eru í lánasamningum sem það hefur gert. Rétt er að taka fram að RÚV
hefur upplýst viðskiptabanka sinn um stöðuna og átt jákvæð samskipti um
áframhaldandi samstarf. 



Niðurstaða uppfærðrar rekstraráætlunar er stjórn Ríkisútvarpsins mikil
vonbrigði og hefur hún óskað eftir að fram fari óháð úttekt á fjármálum þess.
Stjórn hefur jafnframt óskað eftir því við nýráðinn útvarpsstjóra, Magnús Geir
Þórðarson, sem hóf störf í síðustu viku að hann fari yfir rekstraráætlanir með
það að markmiði að reksturinn komist í jafnvægi sem fyrst. Stjórn telur telur
raunhæft að það muni takast og að framtíðarhorfur kalli ekki á nýjar
niðurskurðaraðgerðir til viðbótar við þær sem þegar hefur verið ráðist í á
rekstrarárinu. 



Nánari upplýsingar veitir formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., Ingvi Hrafn
Óskarsson, í síma 775-8830.