2010-11-05 16:46:08 CET

2010-11-05 16:47:06 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Skipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Skipti selja JÁ


Skipti hf. hafa undirritað samning um sölu á Já upplýsingaveitum ehf. Kaupandi
er fyrirtæki í meirihlutaeigu Auðar 1 fagfjárfestasjóðs.  Kaupverð er
trúnaðarmál en söluhagnaður Skipta af viðskiptunum nemur 1,3 milljörðum króna.
Greitt er fyrir hlutinn með reiðufé. 

Í ágúst 2005 stofnaði Skipti sérstakt félag um starfsemi Já.   Símaskráin hefur
verið gefin út hér á landi síðan 1906 en starfsemin hefur þróast í takt við
tækninýjungar.  Þannig hefur Já bætt almennri upplýsingagjöf í gegnum 118 við
starfsemi sína og  þróað  og markaðssett vefinn Já.is, sem er ein mest sótta
vefsíða á Íslandi. Já vinnur náið með öllum fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi. 

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta: „Sú ákvörðun að gera Já að sérstakri
rekstrareiningu innan Skipta hefur reynst farsæl.  Tekjur og arðsemi
fyrirtækisins hafa vaxið og fyrirtækið hefur náð góðri stöðu á íslenskum
markaði. Starfsfólk og stjórnendur hafa unnið frábært starf og fyrirtækið hefur
breyst úr því að vera deild innan Símans í það að vera upplýsingaveitufyrirtæki
sem þjónar öllum fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi.  Söluverðið er mjög
ásættanlegt og það er afar jákvætt að hagnast um 1,3 milljarða króna af
fjárfestingu á þessum tímum. Við munum nýta þá fjármuni sem fást við söluna til
að styrkja fjárhagsstöðu Skipta enn frekar og greiða niður skuldir.“