2013-03-06 19:24:12 CET

2013-03-06 19:25:41 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel hf. - Niðurstöður hluthafafunda

Helstu niðurstöður aðalfundar Marel


Ann Elizabeth Savage er ný í stjórn

Aðalfundur Marel var haldinn í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ 6. mars. Allar
tillögur sem lágu fyrir fundinum voru samþykktar samhljóða. 



Ávarp stjórnarformanns

„Marel hefur vaxið um 29% á síðustu fjórum árum sem samsvarar að meðaltali 6,5%
tekjuvexti árlega. Þessi mikli vöxtur varð að veruleika þrátt fyrir krefjandi
efnahagsaðstæður. Á sama tíma hefur framboð á nýjum vörum verið stöðugt og
sölu- og þjónustunet Marel um allan heim eflt til muna. 

Marel er í hringiðu þeirra vinda sem blása og móta efnahagslega framvindu í
heiminum. Neysla á kjúklingi, kjöti og fiski er að aukast með vaxandi
fólksfjölda í borgum og stækkandi millistéttum alþjóðlega. Ekki síður er
mikilvæg sú staðreynd að eftirspurn eftir heilsusamlegri og hagkvæmri tilbúinni
matvöru er að aukast. 

Vel gengur að framfylgja stefnu Marel um framtíðarvöxt. Við gerum ráð fyrir
áframhaldandi innri vexti sem muni skila sér í heildartekjum yfir einum
milljarði evra í lok árs 2017 og jafnframt góðri arðsemi,“ sagði Árni Oddur
Þórðarson, stjórnarformaður Marel í ávarpi sínu á fundinum. 

Hann sagði enn fremur: „Mestu umsvifin stafa af þjónustu okkar við
framleiðendur í kjúklingaiðnaði um allan heim og sá hluti starfseminnar skilar
arðsemi eins og hún gerist best hjá sambærilegum fyrirtækjum. Við útilokum ekki
minni yfirtökur til að styrkja starfsemina og auka arðsemi okkar í fiski, kjöti
og frekari vinnslu.“ 



Ársreikningur og arðgreiðsla samþykkt

Fundurinn samþykkti samhljóða ársreikning og skýrslu stjórnar fyrir árið 2012.
Heildartekjur Marel á árinu námu 714 milljónum evra og hagnaður eftir skatta
nam  35,6 milljónum evra. Marel mun greiða 7,1 milljón evra í arð til hluthafa
sem samsvarar um 20% af hagnaði félagsins á síðasta ári. 



Ann Elizabeth Savage kemur ný inn í stjórn

Ann Elizabeth Savage var kjörin ný í stjórn Marel en Friðrik Jóhannsson, sem
setið hefur í stjórninni frá 2004, hverfur á braut. Í ræðu sinni þakkaði
stjórnarformaður Marel honum mikilvægt framlag og góð störf á miklu
vaxtarskeiði í sögu félagsins. Á þessu tímabili fór Marel í árangursríkar
yfirtökur á erlendum félögum til að leggja grunn að frekari innri vexti
félagsins. Stjórnarformaðurinn bauð jafnframt Ann Elizabeth velkomna til
starfa, en framlag hennar verður mikilvæg viðbót þar sem hún býr yfir víðtækri
reynslu og þekkingu á matvælaiðnaði. 

Aðrir kjörnir í stjórn eru Arnar Þór Másson, Árni Oddur Þórðarson, Ásthildur
Margrét Otharsdottir, Helgi Magnússon, Margrét Jónsdottir og Theo Bruinsma. 



Einnig var gerð breyting á samþykktum félagsins sem snýr að innleiðingu
lögbundinna kynjahlutfalla í stjórninni. 



Ný stjórn Marel hefur komið saman og skipt með sér verkum. Árni Oddur Þórðarson
verður áfram stjórnarformaður og Ásthildur Margrét Otharsdóttir er varaformaður
stjórnarinnar.