2015-04-30 17:31:15 CEST

2015-04-30 17:32:16 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Vátryggingafélag Íslands hf. - árshlutauppgjör


Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2015

Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2015 var
staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 30. apríl
2015.  Árshlutareikningurinn hefur ekki verið kannaður eða endurskoðaður af
endurskoðendum félagsins. 

Helstu niðurstöður

  -- Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 733 m.kr. samanborið við 14 m.kr. tap
     fyrir sama tímabil árið 2014.
  -- Fjármunatekjur námu 1.113 m.kr. samanborið við 171 m.kr. fyrir sama tímabil
     í fyrra.
  -- Iðgjöld tímabilsins námu 3.959 m.kr. samanborið við 3.861 m.kr. sama
     tímabil í fyrra og nemur hækkunin 2,6%.
  -- Bókfærð tjón vegna óveðurs þann 14. mars s.l. námu rúmum 240 m.kr..
  -- Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 165 m.kr.  Framlegð af
     vátryggingarekstri á sama tímabili í fyrra var neikvæð um 66 m.kr.
  -- Rekstrarkostnaður nam 976 m.kr. og lækkar um 25 m.kr. frá sama tímabili
     árið 2014.
  -- Samsett hlutfall var 105,2% en var 102,9% á sama tíma í fyrra.

  -- Heildareignir í lok tímabilsins námu 50.738 m.kr. samanborið við 46.466 í
     árslok 2014.
  -- Fjárfestingaeignir félagsins námu 35.379 m.kr. en voru 34.658 í árslok
     2014.
  -- Eigið fé félagsins nam 13.987 m.kr. samanborið við 15.956 í árslok 2014.
  -- Eiginfjárhlutfall var 27,6% í lok tímabilsins.
  -- Arðsemi eigin fjár var 18,3% á tímabilinu á ársgrunni. 
  -- Á tímabilinu var skuldfærður arður að fjárhæð 2.488 m.kr. sem greiddur var
     til hluthafa þann 9. apríl s.l.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Afkoma félagsins á fyrsta ársfjórðungi ársins var umfram væntingar og skýrist
aðallega af mjög góðri ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins á tímabilinu, en
hún nam 3,2%.  Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var ágæt ef litið er
framhjá áhrifum óveðursins þann 14. mars síðast liðinn.  Óveðrið olli talsverðu
tjóni hjá landsmönnum og í lok mars höfðu ríflega 500 tjón verið tilkynnt til
félagsins vegna þess og bókfærð tjón komin yfir 240 milljónir króna.  Þetta er
mesta tjón sem orðið hefur í einu óveðri hjá félaginu síðan febrúar 1991, en í
desember 2007 voru þrjú óveður sem ollu til samans svipuðu tjóni.  Samsett
hlutfall var 105,2% á tímabilinu og telur óveðrið í mars rúm 6% í hlutfallinu. 
Til samanburðar var samsett hlutfall 102,9% fyrir sama tímabil árið 2014. 
Áherslur stjórnenda á einföldun og aukna skilvirkni í rekstri hafa skilað sér í
því að rekstrarkostnaður hefur farið lækkandi eða um sem nemur 2,5% frá sama
tíma í fyrra.  Kostnaðarhlutfall lækkaði úr 22,7% á fyrsta fjórðungi 2014 í
21,5% nú.“ 

Fjárfest í innviðum

Félagið stendur í umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum.  Unnið er að
innleiðingu á staðlaðri lausn trygginga- og tjónakerfis í samstarfi við danska
hugbúnaðarfyrirtækið TIA Technology A/S, sem er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki
fyrir tryggingafyrirtæki í Evrópu.  Stefnt er að gangsetningu kerfisins seinni
part ársins og eru talsverðar væntingar um að það muni skila ávinningi í bættum
þjónustuferlum og hagkvæmni í rekstri.  Ennfremur er áfram fjárfest í
innleiðingu á LEAN og hafa stjórnendur sett sér það langtímamarkmið að byggja
upp menningu sem grundvallast á stöðugum umbótum og vilja til að gera sífellt
betur.  Ávinningur er þegar farinn að skila sér í bættri þjónustu og einföldun
í starfseminni. 

Horfur

Markmið félagsins er að samsett hlutfall á árinu 2015 verði undir 100%.
Jafnframt er lögð áhersla á trausta langtímaávöxtun á fjárfestingar í samræmi
við fjárfestingastefnu félagsins. 

Félagið vinnur að innleiðingu á löggjöf um vátryggingafélög, Solvency II, sem
taka á gildi frá og með 1. janúar 2016.  Löggjöfin felur meðal annars í sér
umtalsverða breytingu á því hvernig áhætta í starfsemi vátryggingafélaga er
mæld.  Unnið er að því að setja félaginu ný markmið um gjaldþolskröfu, gjaldþol
og arðgreiðslustefnu og stefnt er að því að birta niðurstöður þeirrar vinnu í
lok ágúst n.k. 

Um VÍS

VÍS er leiðandi fyrirtæki á sviði vátrygginga á Íslandi. VÍS nýtur sterkrar
stöðu á íslenskum vátryggingamarkaði með liðlega þriðjungs markaðshlutdeild.
Félagið býður upp á víðtæka vátryggingaþjónustu til viðskiptavina sinna þar sem
rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf um vátryggingavernd, gæði í þjónustu,
skilvirkni og sveigjanleika. 

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og starfrækir
félagið 32 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land.  VÍS leggur áherslu á að
starfsmenn og þjónustuaðilar félagsins vinni eftir grunngildum þess sem eru
umhyggja, fagmennska og árangur. 

Hlutverk VÍS

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir
viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd og stuðlar að öryggi með öflugum
forvörnum. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla
3, 5. hæð, þann 30. apríl n.k. kl. 16:15. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir
forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. 

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS:
www.vis.is 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                                Dagsetning:

2. ársfjórðungur 2015           27. ágúst 2015

3. ársfjórðungur 2015        29. október 2015

Ársuppgjör 2015               25. febrúar 2016

Aðalfundur 2016                   17. mars 2016

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og
í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.