2015-01-08 18:28:49 CET

2015-01-08 18:29:49 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Hagar hf. - Ársreikningur

Hagar hf. árshlutauppgjör Q3 // mars - nóvember 2014


Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2014/15 var samþykktur af
stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 8. janúar 2015.
Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2014 til 30. nóvember 2014.
Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og
dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né
endurskoðaður. 

Helstu upplýsingar:

  -- Hagnaður tímabilsins nam 2.848 millj. kr. eða 5,0% af veltu.
  -- Vörusala tímabilsins nam 56.763 millj. kr.
  -- Framlegð tímabilsins var 24,1%.
  -- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.186
     millj. kr.
  -- Heildareignir samstæðunnar námu 27.477 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Handbært fé félagsins nam 3.010 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Eigið fé félagsins nam 13.774 millj. kr. í lok tímabilsins.
  -- Eiginfjárhlutfall var 50,1% í lok tímabilsins.

Vörusala tímabilsins nam 56.763 milljónum króna, samanborið við 55.790
milljónum króna árið áður. Söluaukning félagsins er 1,7%. Hækkun 9 mánaða
meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 2,1% og 0,8% án húsnæðis.
Framlegð félagsins var 13.687 milljónir króna, samanborið við 13.527 milljónir
króna árið áður eða 24,1% samanborið við 24,2%. Rekstrarkostnaður í heild
hækkar um 186 milljónir króna eða 2,0% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar
úr 16,8% í 16,9%. 

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.186 milljónum
króna, samanborið við 4.236 milljónir króna árið áður. EBITDA lækkar um 1,2%
milli ára og var EBITDA framlegð 7,4% en 7,6% árið áður. 

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.560 milljónum króna, samanborið við
3.475 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 2.848 milljónum
króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,0% af veltu en hagnaður eftir skatta á
fyrra ári var 2.773 milljónir. Hagnaður eftir skatta hækkar um 2,7% milli ára. 

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 27.477 milljónum króna.
Fastafjármunir voru 13.183 milljónir króna og veltufjármunir 14.294 milljónir
króna. Þar af voru birgðir 6.100 milljónir króna en birgðir voru 6.432
milljónir króna ári áður. 

Eigið fé félagsins var 13.774 milljónir króna í lok tímabilsins og
eiginfjárhlutfall 50,1%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.702 milljónir
króna, þar af voru langtímaskuldir 4.535 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi
skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 1.425 milljónir króna en 1.957
milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á
tímabilinu. 

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 3.055 milljónum króna, samanborið við
2.437 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 625
milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 3.563 milljónir króna. Í lok júní var
greiddur arður til hluthafa að fjárhæð 1.172 milljónir króna. Handbært fé í lok
tímabilsins var 3.010 milljónir króna, samanborið við 2.514 milljónir króna
árið áður. 



Framtíðarhorfur:

Rekstur samstæðunnar á þriðja fjórðungi rekstrarársins 2014/15 er í takti við
áætlun félagsins. Hægt hefur á söluvexti sem skýrist aðallega af lágri
verðbólgu.  Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum félagsins hefur
styrkst á milli ára og hefur sú styrking að fullu skilað sér í verðlagi til
viðskiptavina, eins og sjá má í álagningu félagsins.   Nokkur óvissa er um
verðlagsþróun næstu mánuði og misseri m.a. vegna óvissu um niðurstöðu
kjarasamninga og gengisþróun. 

Félagið hefur haft í forgangi að greiða niður vaxtaberandi skuldir og að greiða
arð. Nú er svo komið að skuldastaða félagsins gefur tilefni til
áherslubreytinga. Stjórn félagsins mun fyrir næsta aðalfund kynna breyttar
áherslur, þó svo að upphafleg arðgreiðslustefna sé óbreytt og taki áfram tillit
til fjögurra meginþátta, þ.e. niðurgreiðslu vaxtaberandi lána, arðs,
fasteignafjárfestinga og kaupa á eigin bréfum. 

Um áramótin varð umfangsmikil skattkerfisbreyting sem tók til neðra og efra
þreps virðisaukaskatts, auk vörugjalda.  Vörugjöldin voru um 1 milljarður króna
af veltu félagsins án virðisaukaskatts á síðasta almanaksári.  Félagið leggur
áherslu á að skila lækkun vörugjalda að fullu í verðlagi til viðskiptavina
sinna eins fljótt og kostur er.  Félagið lækkaði m.a. verð á birgðum af eigin
innflutningi strax um áramótin.  Lækkunin kostar félagið um 30 milljónir króna. 

Í desember undirritaði félagið kaupsamning um hluta fasteignarinnar að
Skipholti 11-13 í Reykjavík. Keyptur hluti fasteignarinnar er um 987 m2 og mun
Bónus opna verslun í húsnæðinu á árinu. 

Eins og fram hefur komið opnaði alþjóðlega tískuvörukeðjan F&F í verslun
Hagkaups á 2. hæð í Kringlunni í byrjun nóvember. Móttökurnar voru góðar og
hefur rekstur verslunarinnar gengið vel. Á nýju ári mun F&F opna í fleiri
Hagkaupsverslunum en áætlað er að næsta verslun opni í Garðabæ í mars nk. 



Fjárhagsdagatal 2014/15:



4. ársfjórðungur (1. mars - 28. feb): 12. maí 2015

Aðalfundur 4. júní 2015



Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.