2014-03-12 18:24:48 CET

2014-03-12 18:25:49 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Fyrirtækjafréttir

Eimskip fær 3,72% útgefins hlutafjár frá A1988 hf.


Í dag, 12. mars 2014, fékk Eimskipafélag Íslands hf. afhenta 7.441.950 hluti í
félaginu frá A1988 hf., áður HF. Eimskipafélag Íslands. Hlutirnir jafngilda
3,72% af heildarhlutafé Eimskips. 

Í þessu sambandi vísast til upplýsinga úr skráningarlýsingu Eimskips frá 22.
október 2012. A1988 hf. geymdi 8.441.950 hluti í félaginu sem jafngilti 4,22%
af heildarhlutafé þess. Samkvæmt áhvílandi kvöð var A1988 hf. óheimilt að
framselja, losa sig við eða á annan hátt leggja kvaðir á hlutina nema í samræmi
við ákvæði samnings sem gerður var í tengslum við fjárhagslega
endurskipulagningu A1988 hf. sem lauk með samþykki nauðasamnings árið 2009. Í
samræmi við ákvæði samningsins skal þessum hlutum skilað til Eimskips fari
A1988 hf. í gjaldþrotaskiptameðferð, skilyrtum kröfum er ekki lengur til að
dreifa eða A1988 hf. óskar sjálft eftir slitameðferð. Tilgangur þessarar
ráðstöfunar var að tryggja að A1988 hf. gæti staðið við skuldbindingar sínar
samkvæmt nauðasamningnum ef einhver skilyrtra krafna félli á félagið. 

Við samþykki nauðasamningsins hvíldu nokkrar skilyrtar kröfur á A1988 hf.,
flestar í formi ábyrgða tengdum fyrrum vöruhúsastarfsemi A1988 hf. í Kanada og
Bandaríkjunum. Þessi starfsemi var yfirtekin af Yucaipa Companies sem hluti
nauðasamningsins. Nú hefur verið endursamið um þessar ábyrgðir og þeim aflétt
af A1988 hf. Þess vegna eru framangreindir hlutir núna færðir til baka til
Eimskips. A1988 hf. mun áfram geyma 1.000.000 hluti, en óvíst er hvenær þeir
verða færðir til baka til Eimskips. Frá því nauðasamningur A1988 hf. var
samþykktur hafa engir hlutir verði afhentir skilyrtum eða óþekktum kröfuhöfum. 

Eimskip á nú eftir breytinguna samtals 13.360.770 eigin hluti sem samsvarar
6,68% af heildarhlutafé félagsins. 

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Afhending hlutanna er jákvæð fyrir Eimskip þar sem hún leiðir til lykta þá
óvissu sem tengdist þorra hlutanna, eykur verðmæti hluthafa og styrkir
fjárhagsstöðu félagsins. Hlutirnir eru færðir til baka í kjölfar farsællar
fjárhagslegrar endurskipulagningar VersaCold sem Yucaipa Companies stjórnaði.“ 

Um Eimskip

Eimskip rekur 51 starfsstöð í 19 löndum og er með 16 skip í rekstri. Félagið
hefur á að skipa um 1.400 starfsmönnum, þar af rúmlega 800 á Íslandi. Um
helmingur tekna félagsins kemur frá starfsemi utan Íslands. Stefna félagsins er
að veita framúrskarandi flutningaþjónustu á Norður-Atlantshafi ásamt því að
bjóða víðtæka og öfluga þjónustu í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun.