2015-03-09 17:29:25 CET

2015-03-09 17:30:26 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Vátryggingafélag Íslands hf. - Hluthafafundir

Framboð til stjórnar VÍS og krafa um margfeldiskosningu á aðalfundi 2015


Framboðsfrestur til stjórnar Vátryggingafélags Íslands hf. („VÍS“) rann út þann
7. mars sl. Eftirtaldir einstaklingar hafa gefið kost á sér til setu í stjórn
félagsins: 

Í framboði til aðalstjórnar eru:

Ásta Dís Óladóttir

Bjarni Brynjólfsson

Guðrún Þorgeirsdóttir

Helga Jónsdóttir

Maríanna Jónasdóttir

Steinar Þór Guðgeirsson



Í framboði til varastjórnar eru:

Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir

Davíð Harðarson



Er það mat stjórnar að öll framboð séu gild sbr. 63. gr. a hlutafélagalaga og
að allir frambjóðendur séu óháðir VÍS. Enginn hluthafi í VÍS á yfir 10% hlut í
félaginu. Ekki þarf því að meta óhæði gagnvart stórum hluthöfum. Frambjóðendur
til varastjórnar eru sjálfkjörnir. 

Nánari upplýsingar um frambjóðendur eru í viðhengi.



Krafa um margfeldiskosningu

Stjórn VÍS hefur borist krafa um að beitt verði margfeldiskosningu til
kosningar stjórnar VÍS sem fram fer á aðalfundi félagsins þann 12. mars
næstkomandi. Krafan var send til stjórnar innan tilskilins frests og barst frá
hluthöfum sem hafa yfir að ráða meira en 10% hlutafjár sbr. 7. mgr. 63. gr.
laga um hlutafélög nr. 2/1995. Margfeldiskosningu verður því beitt við
stjórnarkjörið. 

Margfeldiskosning fer fram með eftirfarandi hætti: Kosið skal á milli
einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis skal margfaldað með fjölda þeirra
stjórnarmanna sem kjósa skal og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig
reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum, sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og
kjósa skal eða færri. Ef ekki er á atkvæðaseðli getið skiptingar atkvæða á
milli þeirra sem þau eru greidd skal þeim skipt að jöfnu. 

Fjórar konur og tveir karlar hafa boðið sig fram til stjórnarsetu í VÍS en
lokamálsgrein 15. gr. samþykkta VÍS innihalda eftirfarandi reglur sem taka á
mögulegri niðurstöðu stjórnarkjörsins: 

„Náist kynjahlutföll 3. mgr. 16. gr. ekki við kosningu stjórnar á hluthafafundi
skal sá er fékk flest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni
sem hallar á, taka sæti þess er fæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er
af fjölmennara kyninu. Hafi slík kynjahlutföll ekki enn náðst skal sá er fékk
næstflest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á,
taka sæti þess er næstfæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af
fjölmennara kyninu.“