2014-02-12 10:20:09 CET

2014-02-12 10:21:09 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic
Skipti hf. - Fyrirtækjafréttir

Rekstur Skipta hf. og Símans hf. verður sameinaður


Stjórnir Skipta hf. og Símans hf. hafa ákveðið að rekstur félaganna verði
sameinaður undir nafni Símans hf.  Orri Hauksson, forstjóri Skipta, verður
forstjóri sameinaðs félags. 

Míla ehf. og Skjárinn ehf. , sem áður voru í eigu Skipta verða nú að fullu í
eigu Símans hf. Við sameininguna verður til öflugt rekstrarfélag með starfsemi
í fjarskiptum, upplýsingatækni og afþreyingu. Með þessari breytingu  næst fram
aukin hagkvæmni í rekstrinum, tvíverknaði er eytt og stjórnendum fækkar. Þá
verða boðleiðir styttri og skýr rekstrarleg ábyrgð er nú á einum stað. Við
skipulagsbreytinguna  verður sjálfstæði Mílu enn aukið sem rekstraraðili
grunnfjarskiptakerfis og tryggt að markmið sáttar sem Skipti hf., Síminn hf. og
Míla ehf. gerðu við Samkeppniseftirlitið í mars 2013 nái fram að ganga. 

Orri Hauksson, forstjóri Símans: „Með sameiningu næst fram hagræðing í
rekstrinum. Stefnt er að skráningu hlutabréfa sameinaðs félags í kauphöll á
komandi misserum og við erum þess fullviss að breytt skipulag starfseminnar
henti vel skráðu félagi. Fjarskiptamarkaðurinn er í örri þróun og það er
mikilvægt að fyrirtækin séu í stakk búin til að bregðast hratt við breytingum.
Reksturinn verður nú einfaldaður til að geta betur mætt þörfum viðskiptavina á
hagkvæman hátt.  Ég vil nota tækifærið og þakka Sævari Frey Þráinssyni fyrir
framúrskarandi störf fyrir Símann. Hann hefur leitt fyrirtækið í gegnum erfiða
tíma og skilað rekstrarárangri sem lagði grunninn að fjárhagslegri
endurskipulagningu Skipta á seinasta ári.“ 

Sævar Freyr Þráinsson, fráfarandi forstjóri Símans: „Ég er stoltur af þeim
árangri sem hefur náðst í rekstri Símans og vil þakka frábæru samstarfsfólki
fyrir samstarfið. Ekki síður er ég stoltur af þeirri samheldni sem starfsfólk
hefur sýnt á undanförnum árum sem gerir Símann að þeim einstaka vinnustað sem
hann er. Það er nauðsynlegt að einfalda skipulag starfseminnar og aðlaga
fyrirtækið að breyttum aðstæðum. Ég óska stjórnendum og starfsfólki alls góðs í
þeim spennandi verkefnum sem framundan eru.“ 

Sameiningin verður framkvæmd með félagaréttarlegum samruna þar sem Skipti hf.
verður yfirtökufélagið. Sameining Skipta hf. og Símans hf. er gerð með
fyrirvara um endanlegt samþykki Samkeppniseftirlitsins. 

Frekari upplýsingar veitir Pétur Þ. Óskarsson, yfirmaður samskipta Símans hf.

petur@siminn.is, s. 863-6075.